Björgunarþyrla
Fimmtudaginn 23. febrúar 1989

     Hreggviður Jónsson:
    Hæstv. forseti. Það mál sem núna er verið að ræða er auðvitað mjög mikilvægt. Ég furða mig því á viðbrögðum ráðherra sem stendur uppi í ræðustól eins og guð almáttugur eins og það megi bara ekki minnast á þessi mál af öðrum en honum. Hann er að reyna að koma því þannig fyrir að þingmaður sem hér tekur til máls og hefur áhuga á þessum málum sé að ráðast á björgunarsveitir. Það er furða að ráðherra skuli leyfa sér slíkt.
    Ég verð að segja að það getur vel verið að það hafi verið tekið rösklega til orða, en það gera menn oft þegar menn hafa áhuga á málum. Ég lýsi undrun minni yfir ræðu ráðherra. Honum væri meiri sómi í því að taka undir þetta mál hressilega en láta þau orð falla hér sem hann hefur látið sér um munn fara.