Björgunarþyrla
Fimmtudaginn 23. febrúar 1989

     Fyrirspyrjandi (Ingi Björn Albertsson):
    Hæstv. forseti. Ég vil nú upplýsa hæstv. ráðherra strax um að hann þarf ekki að hafa áhyggjur af því í framtíðinni að ég geti ekki svarað fyrir mig og hann skal fá að verða vitni að því hvenær sem hann telur þörf á að rifja það upp.
    Það getur vel verið að ég hafi tekið nokkuð djúpt í árinni, en það þarf stundum að taka djúpt í árinni og koma við kaunin á mönnum svo að þeir vakni upp. Það var gert og greinilega ýfði ég eitthvað upp hjá ráðherranum. Hann vitnar eins og margir hafa gert í þyrlurnar og til þeirrar aðstöðu sem er á Keflavíkurflugvelli hjá varnarliðinu. Það er ekki það sem við eigum að búa við og þær eru alls ekki útbúnar eins og við erum að leitast eftir með tillögunni sem hér var lögð fram fyrir ári.
    Ráðherrann talar um áhuga og spyr hvort ég sé sá eini sem haldi að ég hafi áhuga á slíkum málum. Ég hef ekki orðið var við nokkurn einasta áhuga hjá ríkisstjórninni. Hún hefur alls ekki fylgt þessari tillögu eftir. Hún hefur haft heilt ár til að gera litla, auðvelda könnun en ekki fundið tíma til þess. Það er engin furða að hér þurfi að leggja fram sérstaka þáltill. til að láta kanna hvað verði um þær ályktanir sem Alþingi samþykkir. Það er ekki að ástæðulausu, hæstv. ráðherra.