Endurskoðun útvarpslaga
Fimmtudaginn 23. febrúar 1989

     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson):
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. fyrrv. menntmrh. fyrir leiðbeiningarnar í minn garð. Hann hefði getað búið betur um hlutina meðan hann var þarna í ráðuneytinu en raun bar vitni um. Það var nauðarýr pappír sem kom frá þeirri nefnd sem hann hafði skipað eða hæstv. fyrrv. ráðherra Sverrir Hermannsson. Það sem var brýnast í þessu efni var að taka á málefnum Ríkisútvarpsins sem fráfarandi ríkisstjórn skildi eftir á hausnum eins og kunnugt er. Það hefur verið gert. Samkvæmt útvarpslögunum átti að fara fram endurskoðun. Þegar málið var til meðferðar í Ed. flutti hv. 3. þm. Vesturl. brtt. við frumvarp til nýrra útvarpslaga sem gerði ráð fyrir að sú endurskoðun yrði lögð fyrir Alþingi áður en þrjú ár yrðu liðin. Þá beitti stjórnarmeirihlutinn, þar á meðal hv. þm. Birgir Ísl. Gunnarsson, sér fyrir því að þessi tillaga hv. 3. þm. Vesturl. yrði felld. Þeir töldu m.ö.o. ekki ástæðu til að knýja málið með þeim hætti fram að þetta yrði skilyrðislaust lagt fram fyrir lok ársins 1988. Þannig er ljóst að þegar hann talar nú um að það hefði átt að leggja þetta fram á haustþinginu er það fyrst og fremst vegna þess að hann er nú í stjórnarandstöðu og er að reyna að koma höggi á andstæðinga sína.
    Varðandi svo það sem hv. þm. Halldór Blöndal sagði, þá sýnir það málefnafátækt Sjálfstfl. Hafi ég sagt ,,söluskattur á komandi árum`` get ég alveg leiðrétt það og sagt að það hafi verið mismæli. Ég sagði: Það á að taka tillit til þessa í nýjum útvarpslögum. Þau verða vonandi sett á þessu þingi og gætu hugsanlega gilt einnig á árinu 1989. Það er kostulegt þegar mál eru orðuð með þeim hætti sem hér gerðist áðan að sálarástand þingmanna Sjálfstfl. skuli vera þannig að þeir komi hér upp eins og blótneyti út af minnstu mismælum ráðherra.