Varaflugvöllur
Fimmtudaginn 23. febrúar 1989

     Fyrirspyrjandi (Halldór Blöndal):
    Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir að þessi fyrirspurn fékk að koma fyrir í dag eins og 1. varaforseti þingsins hafði sagt mér að mundi gerast. Ég hafði af þeim sökum verið viðbúinn því að taka til máls um fyrirspurnina.
    Ástæðan fyrir fyrirspurninni er sú að í sjónvarpi fyrir skömmu var hæstv. samgrh. spurður þessarar spurningar af fréttamanni ríkissjónvarpsins: ,,Nú hefur verið rætt um Aðaldalsflugvöll að hann muni fullnægja skilyrðum NATO til varaflugvalla af þessu tagi og þar gæti mannvirkjasjóður komið inn í. Hvernig er viðhorf þitt gagnvart þeim flugvelli?``
    Hæstv. samgrh. svarar: ,,Ja, ég hef tekið það mál af dagskrá hér. Það er ekki á dagskrá í samgrn. og kemur ekkert inn í þessar hugmyndir. Hér er verið að leysa mál og marka stefnu í íslenskum flugmálum og það er mitt verkefni.``
    Það er eðlilegt að þingmaður Norðurlandskjördæmis eystra velti fyrir sér hvað í þessum ummælum felst og af þeirri ástæðu hef ég flutt svohljóðandi fyrirspurn til hæstv. samgrh.:
    ,,Hvers vegna er varaflugvöllur í Aðaldal ekki á dagskrá í samgrn., sbr. ummæli samgrh. í ríkissjónvarpinu 8. febr. sl.?
    Er svo um fleiri samgöngumannvirki í Norðurlandskjördæmi eystra að þau séu ekki á dagskrá í samgrn.?``
    Til skýringar þessari síðari fyrirspurn get ég rifjað upp að nauðsynlegt er að byggja upp veginn úr Þistilfirði yfir í Bakkafjörð, Brekknaheiði, en radarstöð Atlantshafsbandalagsins stendur uppi á Gunnólfsvíkurfjalli og er þá náttúrlega beint að álykta hvort hæstv. samgrh. vilji e.t.v. ekki leggja veg þennan kafla fremur en hann geti hugsað sér að varaflugvöllur komi í Aðaldal.
    Ég vil, hæstv. forseti, jafnframt minna á að í málefnasamningi ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar segir svo: ,,Ríkisstjórnin áréttar áður yfirlýsta stefnu Alþingis að hér á landi skuli ekki vera kjarnorkuvopn. Ríkisstjórnin mun ekki gera nýja samninga um meiri háttar hernaðarframkvæmdir og skipti Íslendinga við varnarliðið verða endurskipulögð.``
    Ég vil í framhaldi af mínum fyrirspurnum báðum rétt vekja athygli á því að í þessum orðum felst að hæstv. ríkisstjórn er ekki andsnúin því að gera samninga um hernaðarframkvæmdir en bindur það eingöngu við þessi tvö orð ,,meiri háttar``, að ekki verði gerðir samningar um ,,meiri háttar`` hernaðarframkvæmdir.