Varaflugvöllur
Fimmtudaginn 23. febrúar 1989

     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Virðulegi forseti. Það er löngu orðið ljóst að það er ekki hægt að ræða þetta mál málefnalega við hv. fyrirspyrjanda og er kannski ástæðulaust að reyna það. Mér þykir reyndar leitt að hann skyldi ekki svara spurningu minni um veginn yfir Brekknaheiði, þessari einföldu spurningu um hvort það sé komið á stefnuskrá Sjálfstfl., a.m.k. þingmanns flokksins í Norðurlandi eystra, að bandaríkjaher leggi veginn yfir Brekknaheiði. Ég hefði haft mjög gaman af því að fá þessari spurningu svarað. Ég tel ástæðu til að bera hana fram eftir fyrri ræðu hv. fyrirspyrjanda í dag.
    Ég ætla ekki að víkja einu einasta orði að ræðuhöldum fyrirspyrjanda um afstöðu mína til ófrelsis og mannréttindaskerðingar í heiminum. Slík ummæli hitta sig sjálf fyrir og skjóta sig sjálf niður, eru þeim til skammar sem hafa þau uppi fyrst og fremst. Ég tel síður en svo ástæðu af minni hálfu að agnúast við því þó hv. þm. jarðsyngi sjálfan sig með þeim hætti hér í ræðustólnum og geri hann það sem oftast.
    Hitt var svo ánægjulegt að heyra fyrir sagnfræðinga að enn er þó uppi á meðal vor einn maður, hv. 2. þm. Norðurl. e., í hvers brjósti kalda stríðið lifir jafngóðu lífi og raun bar vitni í ræðu hans.