Fyrirspyrjandi (Ingi Björn Albertsson):
    Hæstv. forseti. Þann 10. maí 1988 skeði að margra áliti merkilegur hlutur því þá voru samþykkt lög frá Alþingi um breytingu á áfengislögum nr. 82/1969 sem gerðu það að verkum að bjór verður nú loksins fáanlegur á Íslandi á löglegan hátt, þann 1. mars nk. Í ákvæði til bráðabirgða með þessum lögum segir m.a., með leyfi forseta: ,,Ráðherra skal skipa fimm manna nefnd til að gera tillögur er stuðlað gætu að því að draga úr heildarneyslu áfengis.`` Og aðeins neðar: ,,Einnig skal nefndin gera tillögu um sérstaka fræðsluherferð um áfengismál, einkum meðal skólafólks, er hefjist eigi síðar en mánuði áður en lög þessi koma til framkvæmda. --- Samþykkt á Alþingi 10. maí 1988.``
    Ég hef ekki orðið var við sérstaka fræðsluherferð um áfengismál meðal skólafólks sem þó átti að hefjast eigi síðar en mánuði áður en lögin kæmu til framkvæmda. Því er það að ég leyfi mér að spyrja hæstv. dómsmrh. á þskj. 487 svohljóðandi spurningar:
    ,,Hvernig er staðið að þeirri fræðsluherferð meðal skólafólks sem kveðið er á um í ákvæði til bráðabirgða í lögum nr. 38/1988, um breytingu á áfengislögum?``
    Það er rétt að taka fram í lokin, hæstv. forseti, að mér hefur verið bent á að hugsanlega eigi þessi fsp. ekki rétt á sér til þessa sérstaka ráðherra. Ég tel þó að svo sé þar sem í lögum er heyra undir hann er sagt að ráðherra skuli skipa fimm manna nefnd þannig að ég hlýt að túlka það svo að þessi nefnd heyri undir ráðherrann sem með þessi lög fer.