Fræðsluátak um áfengismál
Fimmtudaginn 23. febrúar 1989

     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson):
    Virðulegi forseti. Varðandi þá fsp. sem hv. 6. þm. Reykv. hefur beint til mín er það að segja að það hefur eitt og annað verið unnið í þessum efnum á vegum ráðuneytisins í tengslum við þá nefnd sem hv. þm. vitnaði til og var skipuð samkvæmt lögum nr. 38/1988, sem munu vera þessi bjórlög, með þeim hætti að ráðuneytið hefur tekið þátt í starfi þessarar nefndar, það hefur beitt sér fyrir ýmiss konar fræðsluátaki, m.a. í grunnskólum og framhaldsskólum, ráðuneytið hefur t.d. eða skólaþróunardeild og námsstjórinn í þessum efnum staðið fyrir samkeppni meðal nemenda í 6.--9. bekk grunnskóla um einkunnarorð og handrit á myndbandi til notkunar í fíknivörnum meðal ungs fólks svo að ég nefni dæmi. Sama verkefni hefur verið í gangi í framhaldsskólum. Það hefur einnig verið gefinn út bæklingur sem sendur hefur verið í alla grunnskóla þar sem er hvatt til þess að á þessum málum verði sérstaklega tekið og brýnt fyrir kennurum alveg sérstaklega að þar sé til margvíslegt námsefni á þessum sviðum, bæði fyrirliggjandi í Námsgagnastofnun og víðar, sem sagt kennurum vísað á þetta efni, þeir beðnir um að taka það til notkunar í tilefni af þessu átaki og hér er um að ræða bækling sem gefinn er út af ráðuneytinu og nefndinni um átak í áfengisvörnum í sameiningu. Þarna hefur bæði verið um að ræða almenn tök á þessu máli, sömuleiðis bjórinn sérstaklega og enn fremur að ýta af stað umræðum um stefnumörkun á sviði fíknivarna. Þá hefur ráðuneytið lagt sérstaka áherslu á það í minni tíð að það verði til námsefni sem er brúklegt í þessum efnum.
    Ég verð hins vegar að segja það alveg eins og er og mér dettur ekki í hug að draga neina fjöður yfir það að ég tel að við höfum staðið okkur mjög illa í þessu efni. Af hverju skýrist það? Skýrist það bara af peningaleysi? Ekki bara af peningaleysi að mínu mati. Það skýrist af því að maður finnur sig mjög varnarlausan í þessari stöðu. Það var tekin um það ákvörðun af meiri hluta Alþingis í fyrra með þessum bjórlögum nr. 33/1988 að hella þessum ósköpum yfir þjóðina núna frá 1. mars 1989. Síðan hefur þjóðin verið upptekin af því eða fjölmiðlarnir að nú eru að koma jól o.s.frv. Þar stendur: 30 dagar eftir, 15 dagar eftir, 3 dagar eftir og nú eru herlegheitin að koma. Allir fjölmiðlar eru stútfullir af þessu máli og það er alveg bersýnilegt að menn eru mjög uppteknir við þessi gleðilegu tíðindi. Við höfum reynt það sem við getum eða okkur hefur dottið í hug af viti í þessu efni í sambandi við fræðslu, að ræða þetta í skólunum, ræða þetta við kennarana, ræða þetta við nemendur og það er auðvitað allt of lítið. Staðreyndin er sú að við höfum ekki að mínu mati haft í höndunum aðferðir sem duga til að andæfa sem skyldi að mér finnst. Ég hef ekki fundið þær a.m.k. að undanförnu og ég hef ekki séð neinar ábendingar um hvaða aðferðir duga til að andæfa andspænis því ofboðslega flóði sem nú er að skella hér yfir. Áhuginn á því að andæfa í þjóðfélaginu virðist ekki vera mjög mikill. Svo að ég nefni dæmi: Heilbrmrh. hélt fyrir nokkru

blaðamannafund þar sem var greint frá þeim verkefnum sem nefnd um átak í áfengisvörnum hefur unnið að. Því miður varð niðurstaðan sú að mjög lítið af því efni sem þarna var kynnt komst á framfæri við þjóðina af því að menn hafa verið uppteknari af þessum stóru tíðindum að það eru að koma --- ég ætlaði að segja það eru að koma jól --- það er að koma bjór. Menn eru alveg uppteknir af þessu.
    Ég sá einu sinni fyrir mörgum árum ljósmynd sem mér hefur oft dottið í hug í sambandi við þessi mál. Það var mynd af smáu dýri undir skriðjökulsrönd og myndin skýrði mjög vel varnarleysi þessarar lifandi veru andspænis þessum náttúrukröftum. Af einhverjum ástæðum, sem þingmenn geta velt fyrir sér, hefur mér oft dottið þessi mynd í hug undanfarna daga vegna þess að ég finn fyrir varnarleysi þeirra sem vilja andæfa í þessu efni. Ég finn ekki leiðir né heldur hefur mér verið bent á þær sem duga til að verja æskuna í landinu andspænis þessum ósköpum. Við munum halda áfram meðan ég er í menntmrn. að leita að þessum leiðum og vinna í málinu af þeim krafti sem okkur er gefinn, en ég tel að sú ákvörðun sem tekin var í fyrra um að hvolfa sterku öli yfir þjóðina hafi verið svo erfið og svo afdrifarík að það muni taka okkur langan tíma að finna leiðir til að rétta kúrsinn andspænis þessum ósköpum. Þannig er staðan, virðulegi forseti.