Fræðsluátak um áfengismál
Fimmtudaginn 23. febrúar 1989

     Hreggviður Jónsson:
    Hæstv. forseti. Ég þakka fyrirspyrjendum, hv. 5. þm. Vesturl. Inga Birni Albertssyni og hv. 6. þm. Reykv. Guðrúnu Agnarsdóttur, fyrir þessar fyrirspurnir sem eru mjög mikilvægar þegar við erum að halda inn í öld bjórsins sem mun vafalaust hafa mjög alvarlegar afleiðingar og miklu alvarlegri afleiðingar en við höfum gert okkur grein fyrir. Það er nokkuð ljóst að fræðsla er eitt af því sem er mikilvægt. En það er annað sem vekur spurningar hjá manni. Það er stuðningur við frjáls félög, þ.e. bindindisfélög. Ég tel að það mætti huga að því að stórauka stuðning til þeirra. Þegar við lítum á þennan málaflokk er ekkert sem kemur í staðinn fyrir frjáls félög og þeirra kraft.
    En ég þakka fyrirspyrjendum fyrir þeirra fsp. og ef ég skildi orð hæstv. menntmrh. rétt geri ég mér vonir um að hann muni beita sér fyrir átaki í þessum málum og ég þakka honum fyrir það.