Fræðsluátak um áfengismál
Fimmtudaginn 23. febrúar 1989

     Fyrirspyrjandi (Guðrún Agnarsdóttir):
    Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svör hans, en ég hlýt að lýsa yfir miklum vonbrigðum, bæði vegna þess hve síðbúin sú fræðsla er sem þó hefur verið undirbúin og hve lítið áberandi hún hefur verið, en ekki síst vegna þess hve mikill uppgjafartónn er í máli ráðherra. Ég skil vel þann vanda sem hann horfist í augu við og viðurkenni að hann hlýtur að vera talsverður. En ég get ekki samþykkt eða fallist á að baráttan sé vonlaus og ég hreinlega trúi því ekki og ég lýsi yfir vanþóknun minni á því að hér skuli engir fjölmiðlar vera sýnilegir utan einn blaðamaður í stúkunni þarna uppi til að hlusta á þessa umræðu því að það er ekki bara á ábyrgð þingmanna þó að þeir hafi sumir látið hafa sig út í að samþykkja þetta frv. og það er ekki á ábyrgð stjórnvalda einungis. Það er líka á ábyrgð fjölmiðla og ég trúi því ekki að óreyndu að það sé ekki hægt að fá þá til samvinnu og fylgilags um að ýta á eftir þessu máli.
    Sem almennur borgari hef ég einungis orðið vör við að það eru einhverjar nefndir að störfum. Ég hef séð myndir af nefndum að störfum í sjónvarpinu og ég hef lesið eitthvað örlítið um störf þeirra í blöðunum. Ég hef ekki orðið vör við neina almenna fræðslu í fjölmiðlum og þó að það sé allra góðra gjalda vert og mjög nauðsynlegt að beina sérstakri fræðslu að ungmennum þarf fræðslu til alls þorra fólks. Það þarf líka fræðslu til uppalenda þessara ungmenna og þess vegna er brýnt að nota fjölmiðla, sterka fjölmiðla eins og sjónvarpið.
    Ég vek athygli á því að í dag eru á dagskrá tvær fsp. sem varða umferð, um umferðarfræðslu í skólum og um ökuferilsskrá, og það er ekki að ófyrirsynju. Við erum búin að horfa upp á hvert hörmulega slysið á fætur öðru sem stafar af ölvunarakstri og enn er verið að taka fólk sem ekur bíl undir áhrifum áfengis. Það er verulega brýn ástæða til að taka nú á, bæði fyrir hæstv. menntmrh. og fyrir hæstv. heilbrmrh., og beina nú afli sínu að fjölmiðlunum og fá þá til lags við sig. Ég mun gera sérstaka fyrirspurn til Sjónvarpsins og Stöðvar 2 um það hvort þeir ætli virkilega að skerast úr leik og svíkja þetta ábyrgðarhlutverk sitt.