Fræðsla og forvarnir í áfengismálum
Fimmtudaginn 23. febrúar 1989

     Fyrirspyrjandi (Guðrún Agnarsdóttir):
    Hæstv. forseti. Enn vitna ég til umræðna um áfengislög á sl. ári þegar lagt var fram frv. um innflutning og sölu á áfengu öli, en þá kom afstaða þáv. og núv. hæstv. heilbrmrh. mörgum á óvart, ekki vegna þess að hv. þm. Guðmundur Bjarnason væri þar sjálfum sér ósamkvæmur, það var hann ekki, heldur miklu fremur vegna stöðu sinnar sem heilbrmrh. og þá vegna þess heilbrigðis- og félagslega vanda sem ofneysla áfengis hefur í för með sér. Í umræðum sagði hæstv. ráðherra, með leyfi forseta:
    ,,Hlutverk heilbrigðisyfirvalda er að halda uppi öflugu fræðslu- og forvarnarstarfi um hvers konar heilsusamlegt líferni sem dregið getur úr sjúkdómum og slysum. Það eiga yfirvöld m.a. að gera með því að efla ábyrgð einstaklingsins á eigin heilsu með markvissu upplýsinga- og fræðslustarfi. Ég tel markvisst forvarnarstarf ekki felast í því að banna einstakar neysluvörur sem þó kunna að vera minna skaðlegar en aðrar sem neysla er leyfð á. Í slíkri afstöðu finnst mér felast tvískinnungur. Ég mun leggja þunga áherslu á aukið fræðslu- og upplýsingastarf um hættuleg og skaðleg áhrif áfengis og tóbaks á heilsufar fólks og styðjast í því sambandi við markmið Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar og íslenskrar heilbrigðisáætlunar. Ég tel frv. það sem hér er til meðferðar ekki brjóta í bága við þá stefnu og segi því já.``
    Ég vitna alveg sérstaklega til orða hæstv. ráðherra varðandi forvarnar- og fræðslustarf og hef því leyft mér með tilliti til þess að nú verður hafinn innflutningur og sala á áfengu öli þann 1. mars nk. að spyrja:
    ,,Hefur heilbrmrh. gert sérstakar ráðstafanir til þess að efla fræðslu um áfengismál vegna sölu áfengs öls á Íslandi 1. mars nk.? Hefur ráðherrann beitt sér fyrir öðrum forvörnum af þessu tilefni? Ef svo er, hverjar eru þær?``