Fræðsla og forvarnir í áfengismálum
Fimmtudaginn 23. febrúar 1989

     Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Guðmundur Bjarnason):
    Hæstv. forseti. Eins og fram hefur komið í umræðum hér á undan um þau dagskrármál sem fjallað hafa um þetta skylda málefni var við breytingar á áfengislöggjöfinni á síðasta ári samþykkt svofellt ákvæði til bráðabirgða, með leyfi forseta:
    ,,Ráðherra skal skipa fimm manna nefnd til að gera tillögur er stuðlað gætu að því að draga úr heildarneyslu áfengis. M.a. ber nefndinni að fjalla um verðlagningu áfengis og leiðir til að vara við hættum sem fylgja neyslu þess, t.d. með áprentuðum upplýsingum um áfengishlutfall og ákvæði umferðarlaga.
    Einnig skal nefndin gera tillögu um sérstaka fræðsluherferð um áfengismál, einkum meðal skólafólks, er hefjist eigi síðar en mánuði áður en þessi lög koma til framkvæmda.``
    Það varð síðan, eins og ég hef áður greint frá, að samkomulagi vegna þess að áfengisvarnir eru taldar heyra undir heilbrmrh. að hann skipaði þessa umræddu nefnd í samráði við dómsmrh., menntmrh. og fjmrh. því að óneitanlega heyra þessi mál undir þessi viðkomandi ráðuneyti í einu eða öðru formi og hefði reyndar félmrn. mátt vera með í þessari upptalningu.
    Nefndin var síðan skipuð 23. ágúst 1988, en í henni eiga sæti Hafsteinn Þorvaldsson framkvæmdastjóri, formaður, Aldís Ingvadóttir námsstjóri, Höskuldur Jónsson forstjóri, Ólafur Walther Stefánsson skrifstofustjóri og Óttar Guðmundsson yfirlæknir. Ritari og starfsmaður nefndar þessarar var síðan skipaður og ráðinn Árni Einarsson erindreki sem áður hafði starfað í áfengisvarnaráði og að áfengisvarnamálum um langa tíð.
    Starfsmaðurinn hefur síðan haft starfsaðstöðu í heilbrmrn. og þessi nefnd starfað á þeim vettvangi, haldið marga fundi og lagt grunn að margvíslegu fræðslu- og forvarnarstarfi sem ég mun reyna að gera í stuttu máli grein fyrir. Hitt er ljóst, eins og fram hefur einnig komið hér áður, að þetta verkefni er nokkuð þungt fyrir fæti og m.a. vegna áhuga eða áhugaleysis eða afstöðu bæði almennings og auðvitað fjölmiðla til þessa verkefnis. Þó ætla ég ekki sérstaklega að kvarta undan því eða gera t.d. fjölmiðla að einhverjum sökudólgi í þessu, en auðvitað hefði verið gott og nauðsynlegt að eiga við þá enn þá betra samstarf.
    24. jan. sl. hélt þessi ágæta nefnd blaðamannafund sem hæstv. menntmrh. nefndi aðeins áðan og því miður fór lítið fyrir fréttum af þessum fundi, a.m.k. í sumum fjölmiðlunum. Það kann að hafa verið eitthvað misjafnt. Ég hafði ekki tök á því að fylgjast með því öllu saman. Einnig er ljóst að sérstök auglýsingarherferð er gífurlega kostnaðarsöm. Við höfum til ráðstöfunar í þennan málaflokk, áfengisvarnirnar, um það bil 15--20 millj. kr., en nefndin fékk skömmu eftir að hún hóf störf á sl. hausti tilboð frá auglýsingaskrifstofu sem var tilbúin að taka að sér ákveðið auglýsingaprógramm fyrir 30

millj. kr. 30 millj. kr. hljóðaði það tilboð upp á eða sú hugmynd, það var kannski ekki hægt að kalla það tilboð, og hefði þó sjálfsagt einhverjum fundist að það hefði mátt gera miklu meira en þar var þó lagt til. En þetta sýnir aðeins hvaða peningar kunna að vera í meðferð og auðvitað líka það stríð sem áfengisvarnirnar hljóta að heyja gagnvart þeim aðilum sem hafa miklu meiri fjármuni til að auglýsa sinn varning á einn eða annan hátt, beinan eða óbeinan, og kem ég aðeins nánar að því síðar.
    Í fréttatilkynningu sem nefndin dreifði á þessum umrædda fjölmiðlafundi segir m.a. svo, með leyfi forseta: ,,Nefndin hefur þegar skilað áliti um verðlagningu bjórs, styrkleika og sölufyrirkomulag. Enn fremur um áfengisauglýsingar og viðvaranir á bjórumbúðir. Nefndin hefur takmarkaða trú á varanlegum áhrifum skammtímaátaks í áfengismálum ef því er ekki fylgt eftir. Með tilliti til hins skamma starfstíma nefndarinnar telur hún mikilvægast að styrkja starf þeirra aðila sem þegar sinna áfengisvörnum með einhverjum hætti og byggja upp í samvinnu við þá verkefni sem ná til lengri tíma en hefjist með átaki í byrjun árs 1989. Með þessu nýtist einnig betur það fjármagn sem þegar er varið til áfengisvarna.
    Í verkefnavali nefndarinnar er leitast við að ná til afmarkaðra markhópa og tengja upplýsingar og áróður umhverfi þeirra, áhugamálum og sérstöðu. Með þessu er tekið tillit til þess að miklu skiptir að viðtakendur upplýsinganna hafi áhuga á þeim, finnist þær koma sér við og telji sig hafa hag af því að færa sér þær í nyt. Þessi leið er talin árangursríkari en almenn umfjöllun þó e.t.v. kunni að bera meira á henni um stundarsakir.``
    Aðeins verð ég, hæstv. forseti, að fá að gera nánar grein fyrir þeim verkefnum sem nefndin er með á sinni könnu í augnablikinu þó að ég syndgi svolítið upp á náðina því að hér er um stórt mál að ræða. Í upplýsingum frá nefndinni segir m.a.:
    ,,Unnið er að kynningu á fíknivörnum í grunnskólum og í samvinnu við skólaþróunardeild menntmrn. Öllum grunnskólum hefur verið sendur bæklingurinn Fíknivarnir í grunnskólum`` --- og þykir mér miður að heyra það síðan hér í umræðunni að þessi bæklingur hafi ekki borist í grunnskóla eins og hér er sagt eða þá a.m.k. ekki verið tekinn þar til umfjöllunar og verið kynntur. ,,Þar er
m.a. að finna kynningu á nýju námsefni í fíknivörnum ásamt skrá yfir önnur gögn sem nota má í fíknivörnum. Útgáfa á Lions Quest-námsefninu verður styrkt til að hraða því að það komist í gagnið.
    Mikilvægt er að tryggja stöðugleika í fíkniefnavörnum skóla, að fíkniefnavarnir verði fastur þáttur í skólastarfinu í umsjón kennara. Efla þarf þátttöku og samstarf við foreldrana. Reynslan sýnir að herferð eða afmörkuð tímabundin upphlaup í skólanum skila litlum árangri sem engum. Nemendur koma og fara, skóli er hluti samfélagsins og nemendur endurspegla ríkjandi viðhorf og venjur þess. Þeim viðhorfum verður ekki breytt í skyndi.

    Til að vekja athygli barna og unglinga á gildi þess að neyta hvorki áfengis eða annarra fíkniefna er efnt til samkeppni um einkunnarorð og handrit að myndbandi í grunn- og framhaldsskólum`` --- og það veldur vonbrigðum ef þetta hefur ekki heldur verið kynnt í framhaldsskólunum eins og einnig kom fram í umræðunum áður. ,,Skal bent á kosti og ávinning vímulauss lífernis og leggja áherslu á það jákvæða við að hafna notkun fíkniefna almennt.
    Í mars kemur út tímarit um áfengismál sem dreift verður til allra nema í framhaldsskólum að háskólastigi. Foreldrasamtökin Vímulaus æska eru styrkt vegna fundahalda um allt land. Tilgangurinn með þeim er að auka áhuga foreldra á þátttöku í fíkniefnavörnum og ræða sérstaklega hugsanleg áhrif bjórs á börn og unglinga. Fundahöld þessi eru þegar hafin og standa fram eftir vori. Í samvinnu við Ríkisútvarpið og Sjónvarpið og félagsmiðstöðvar í landinu er verið að vinna stutta þætti í félagsmiðstöðvum. Þeir verða seinna í vor birtir í útvarpi og sjónvarpi.``
    Síðan eru teknir nokkrir aðrir markhópar sérstakir. Þar á meðal má nefna umferð, barnshafandi konur, óáfenga drykki. Mig langar, með leyfi forseta, að fá að lesa þessar fáu línur líka þó að ég viti að tíminn sé liðinn. En um umferðina er sagt:
    ,,Fræðslu- og áróðursherferð er að hefjast í samvinnu við Umferðarráð. Þar verður m.a. lögð aukin áhersla á að allir leggist á eitt við að hindra ölvunarakstur, en ekki eingöngu lögð áhersla á bílstjórana eina. Gefið hefur verið út lag í þessu skyni sem m.a. er sent veitingahúsunum til flutnings. Veggspjöld verða sett upp í veitingahúsum í samvinnu við Samband veitinga- og gistihúsaeigenda og þessu fylgt eftir í fjölmiðlum.``
    Hvað varðar barnshafandi konur er hér sagt: ,,Bandarískur fyrirlesari heldur fræðslufundi fyrir heilbrigðisstéttir um áhrif áfengisneyslu á meðgöngu á fóstur. Að þessum fundum standa einnig landlæknisembættið og áfengisvarnaráð. Í vor er fyrirhuguð útgáfa bæklings sem dreift verður til barnshafandi kvenna við mæðraskoðun.``
    Síðan var styrkt útgáfa bæklings um óáfenga drykki. Auk þess sem hér hefur verið greint frá verður hrundið af stað í fjölmiðlum áróðursverkefni sem tengist bjórkomunni 1. mars. Verkefnið hefst um næstu mánaðamót. Þar verður lögð áhersla á að bjór er áfengi. Viðfangsefnin eru ölvunarakstur, áfengisneysla á meðgöngu, áhrif bjórdrykkju á holdafar, áfengisneysla á vinnustað og áfengisneysla ungmenna.
    Varðandi áfengisneyslu á vinnustað verð ég þá að nefna að þar er sérstakt samstarf við aðila vinnumarkaðarins og launþegasamtökin hafa tekið að sér að fjalla um það mál sérstaklega og reyndar einnig lofast til að kosta það átak eða þá herferð.
    Auk þess má síðan nefna að við höfum nú sett reglugerð um bann við áfengisauglýsingum og af því að óbeint var hnýtt að fjölmiðlum vil ég taka það fram að ég átti ágætan fund með fjölmiðlum í gær um

þessa reglugerðarútgáfu, þ.e. fulltrúum þeirra fjölmiðla sem sendu sína fulltrúa, sýndu málinu áhuga. Í þeirri reglugerð er leitast við að skilgreina hvað átt sé við með auglýsingu og í veigamiklum atriðum er tekið mið af sömu reglum og gilda um auglýsingar á tóbaki. Þar höfum við þó sérstaka tóbaksvarnarlöggjöf við að styðjast. Auglýsingahugtakið tekur samkvæmt reglugerð bæði til beinna og óbeinna auglýsinga.
    Að lokum, hæstv. forseti, má geta þess að verið er að setja af stað vinnu við að semja sérstaka áfengisvarnalöggjöf hliðstætt þeirri löggjöf sem til er um tóbaksvarnir.
    Þessi umræða og það að þrjár fyrirspurnir um málið skuli vera á dagskrá og beint til þriggja ráðherra sýnir nauðsyn þess að kveða skýrt á um málið í sérstakri áfengisvarnalöggjöf þó að sjálfsögðu verði það áfram viðfangsefni stjórnvalda á fleiri sviðum en aðeins heilbrigðismálunum, menntamálunum, dómsmálunum, félagsmálunum svo að eitthvað sé nefnt. Hefði sjálfsagt mátt margt fleira um þetta segja, en ég bið hæstv. forseta forláts á því hvað ég hef syndgað upp á náðina. ( Forseti: Það hefur hæstv. ráðherra svo sannarlega gert.)