Fræðsla og forvarnir í áfengismálum
Fimmtudaginn 23. febrúar 1989

     Ingi Björn Albertsson:
    Hæstv. forseti. Ég vil leyfa mér að þakka hæstv. ráðherra fyrir allítarleg og greinargóð svör þar sem greinilega er ýmislegt á döfinni og ég vona að það fari allt vel fram. Ég vil aðeins geta þess, vegna þess að komið hefur verið inn á þær fullyrðingar sem ég var með áðan um fræðsluherferð í skólum, að ég hafði samband við má segja alla aðila sem málið varðar, þ.e. bæði yfirkennara, nemendur og kennara, og allir staðfestu þetta í mín eyru. ( Menntmrh.: Í þremur skólum.) Í þremur skólum eins og ég sagði áðan. Í einu tilfelli, í Verslunarskólanum, talaði ég við yfirkennara skólans. Í Hafnarfirði talaði ég við tvo kennara og svo hef ég mínar upplýsingar innan fjölskyldu úr Árbæjarskóla. Ég vona að þessar upplýsingar séu rangar þó að ég hafi ekki tilefni til að ætla að svo sé.
    Ég vil taka undir þá gagnrýni sem hv. þm. Guðrún Agnarsdóttir kom með áðan á fjölmiðla, hvernig þeirra þáttur er í þessu máli. Ég viðurkenni að hann hefur allur verið á einn veg. Það hefur verið alger einstefna og uppbygging á mikilli eftirvæntingu eftir jólabjórnum eins og hæstv. menntmrh. vildi kalla hann. Reyndar staðfesti hæstv. heilbrmrh. það með tilvitnun í blaðamannafund sem hann hélt 24. jan. sl.
    En ég verð að segja að það er sorglegt ef ekki er hægt að fylgja eftir lögum þar sem gert er ráð fyrir herferð vegna þess að við teljum okkur ekki hafa efni á því, hún sé of dýr, þegar á sama tíma er verið að tala um að hala inn í tekjur eitthvað í kringum 1 milljarð af þessari nýju sölu.