Fræðsla og forvarnir í áfengismálum
Fimmtudaginn 23. febrúar 1989

     Fyrirspyrjandi (Guðrún Agnarsdóttir):
    Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. heilbrmrh. fyrir svör hans og öðrum þingmönnum fyrir orð þeirra í þessum umræðum um þrjár fyrirspurnir sem hér hafa verið fluttar. Ég fagna því að þessi nefnd hefur komið fram með margar góðar tillögur og vil alls ekki gagnrýna störf hennar á nokkurn hátt. Ég vil bæta því við að ég tel afar mikilvægt líka og beini því sérstaklega til hæstv. heilbrmrh. að fylgja eftir könnunum á neysluvenjum og breytingum er verða á þeim og öðrum hegðunarvenjum í kjölfar bjórneyslunnar. Ég held að það sé afar mikilvægt að fá tækifæri til að fylgjast með því.
    Sérstaklega varðandi orð hæstv. heilbrmrh., þá er það ekki í raun spurning um að finna ný ráð því að það koma mörg mjög góð ráð fram í þeim tillögum nefndar sem hefur starfað að þessum málum sem hæstv. heilbrmrh. gat um. Það er kannski miklu fremur að samræma átak allra ráðherra sem þetta mál varðar og það eru líklega langflestir ráðherrar ef ekki allir í þessari ríkisstjórn en þó einkum heilbrmrh., menntmrh., dómsmrh. og félmrh. Þeir þurfa að starfa saman og þeir þurfa að fylgja eftir þessum góðu tillögum. Það er kannski fyrst og fremst að fylgja þeim eftir og sleppa ekki tökum á málinu fremur en það að beita einhverjum töfrabrögðum. Ég tek undir það með hæstv. menntmrh. að það eru engin töfrabrögð, það eru engar töfralausnir sem standa okkur í raun til boða og það verður e.t.v. ekki barátta til sigurs heldur fyrst og fremst að veita viðnám. Ég held að það sé meginefni. Ég skora á alla þingmenn og ekki síst þá sem samþykktu þessi lög og töluðu mikið um það hversu forvarnir væru brýnar að beita sér út í þjóðfélagið og beita sér hér á þingi þannig að það verði um raunverulegar forvarnir að ræða en ekki bara fagurgala. Þeim ber skylda til þess eins og okkur öllum.