Friðrik Sophusson:
    Virðulegur forseti. Ég mun freista þess að stytta mjög mál mitt vegna þess að samið hefur verið um að þessi umræða taki tiltekinn tíma á dagskrá dagsins í dag. Ég vil í upphafi þakka hæstv. fjmrh. fyrir að vera viðstaddur þessa umræðu sem mér finnst vera stórt atriði þar sem ég þarf að beina til hans fyrirspurnum er varða efni tilkynningarinnar sem hér er til umræðu.
    Fyrst langar mig til að benda á og undirstrika það sem kom fram hjá síðasta hv. ræðumanni um rýrnun eiginfjár í sjávarútvegsfyrirtækjum. Ég tel að hæstv. forsrh. verði að svara mjög skýrt þar sem í tilkynningu ríkisstjórnarinnar er sagt beinum orðum að eigið fé hafi rýrnað í 13 milljarða úr 22 milljörðum eða svo, ef ég man það rétt, eða úr 26 milljörðum jafnvel og gert ráð fyrir að þar sé um 13 milljarða eiginfjártap, en síðan er öðru haldið fram. Það verður að koma fram hér hverjir eru heimildarmenn hæstv. ráðherra og hvernig þetta er fundið út og fengin skýring á þeim gífurlega mismun sem kemur fram í tölum.
    Þá langar mig til að spyrja og ég mun fyrst og fremst varpa fram fyrirspurnum til þeirra tveggja ráðherra sem eru viðstaddir, hefði jafnvel kosið að hæstv. viðskrh. væri hér jafnframt. Mig langar til að spyrja út frá þeirri forsendu að í þjóðhagsspá fyrir þetta ár er gert ráð fyrir að viðskiptahalli af vergri landsframleiðslu verði 3,3% eða líklega 9,5--10 milljarðar. Það er jafnframt ljóst að það er talsvert í pípunum umfram þetta ef gera má ráð fyrir að gangi eftir allt sem hér hefur verið sagt í þessari umræðu og öðrum. Telur hæstv. forsrh. að gengi íslensku krónunnar sé rétt skráð þegar ljóst er að viðskiptajöfnuður verður óhagstæður um 10 milljarða a.m.k.? Telur hæstv. forsrh. að gengisskráningin eigi að vera afgangsstærð? Ég spyr sérstaklega að þessu vegna þess að hv. þm. Guðmundur G. Þórarinsson hefur nýlega í blaðagrein sérstaklega undirstrikað að gengi geti aldrei orðið afgangsstærð.
    Hv. þm. Guðmundur Þórarinsson segir, með leyfi forseta: ,,Gengisstefnan er aðalatriði. Það er röng fullyrðing að gengið sé afgangsstærð. Gengið er grunnatriði í efnahagsstefnunni, eina raunhæfa gengisstefnan er sú gengisskráning sem gefur útflutningsatvinnuvegunum stöðug starfsskilyrði.``
    Ég spyr forsrh.: Er hann sammála því sem Guðmundur G. Þórarinsson segir eða er hann ósammála því og telur hæstv. forsrh. að gengið sé rétt skráð ef viðskiptahallinn er 10 milljarðar?
    Í öðru lagi vil ég enn á ný reyna að fá betri upplýsingar um hver sá djúpstæði skipulagsvandi í sjávarútveginum er sem lýst er í tilkynningu hæstv. ríkisstjórnar. Ég spyr m.a. vegna þess að hv. 10. þm. Reykv. Guðmundur G. Þórarinsson segir orðrétt í sömu blaðagrein, nýlegri blaðagrein, með leyfi forseta, þetta er grein úr DV frá 10. febr.: ,,Skipulagsvandi er ekki meiri í útflutningsgreinunum en öðrum greinum og ekki meiri en verið hefur undanfarin ár.``
    Hver er þessi djúpstæði skipulagsvandi? Er hæstv.

forsrh. ósammála hv. þm. Guðmundi G. Þórarinssyni? Við hvað er átt?
    Þá langar mig til að víkja næst að ríkisskuldabréfum. Í tilkynningunni er gert ráð fyrir að vextir ríkisskuldabréfa færist niður í 5%, raunvexti. Mig langar til þess að spyrja hæstv. fjmrh.: Hver er staða þessara mála í dag, hvernig hefur gengið að selja spariskírteini ríkissjóðs, hver er munurinn á því sem hefur verið innleyst og hinu sem hefur selst og hvenær má búast við því að raunvextirnir fari í 5%? Jafnframt vil ég spyrja hæstv. fjmrh. að því hvernig gangi að semja við lífeyrissjóðina, en í tilkynningu frá ríkisstjórninni er sagt að lífeyrissjóðunum verði boðin sérstök bréf. Má vera að þetta gangi fram á næstu dögum og hver er staða þessa máls?
    Enn langar mig af þessu tilefni til að spyrja hæstv. fjmrh. hvernig það verður með ríkisvíxla sem gert er ráð fyrir að seljist til þess að taka af skuldakúf ríkissjóðs sem myndast frá einu tímabili til annars innan ársins. Hvernig ætlar hæstv. ráðherra að komast hjá því að slík bréf verði seld með afföllum sem má meta til meiri raunvaxta en stefnt er að í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar eða ætlar hæstv. ráðherra að bjóða upp ríkisvíxlana með einhverjum allt öðrum hætti en gert hefur verið? Þessu þarf að fást svarað því að auðvitað eru afföll nokkurs konar ávöxtunarkjör.
    Mig langar til að spyrja hæstv. forsrh. að því hvað hann segi um nafnvaxtahækkanir bankanna að undanförnu. Því hefur verið haldið fram og ef ég man rétt af hæstv. fjmrh. að nafnvaxtahækkanir að undanförnu séu árás sjálfstæðismanna og stjórnarandstöðunnar á stefnu ríkisstjórnarinnar og ég hlýt að spyrja: Á Sjálfstfl. meiri hluta í bankaráðum ríkisbankanna, t.d. Búnaðarbankans sem hækkaði nafnvexti mest núna síðast þegar þeir hækkuðu? Hvað um Samvinnubankann og Alþýðubankann? Hvaða sjálfstæðismenn eru það sem hafa þar gert aðsúg að ríkisstjórninni? Það væri gott ef þessari spurningu væri svarað því þessu hefur verið haldið fram, að Sjálfstfl. beitti sér fyrir því í bankaráðum að hækka nafnvexti. Ég sé ekki að sjálfstæðismenn séu í meiri hluta bankaráða Alþýðubankans, Samvinnubankans, Búnaðarbankans né heldur Landsbankans.
    Ég hefði viljað spyrja hæstv. viðskrh. Það má kannski gera það síðar og ég held að það sé best að ég sleppi þeirri fyrirspurn því tíminn er skammur. Ég er ekki að biðja um að hæstv. ráðherra sé sóttur. ( Forseti: Forseti vill taka fram að hæstv. viðskrh. er ekki í húsinu.) Nei, allt í lagi.
    Það er gert ráð fyrir því og um þetta hefur verið spurt áður að viðurlögin sem Seðlabankinn fær frá einstökum viðskiptabönkum renni til ríkissjóðs. Menn spyrja auðvitað: Er siðferðilega rétt að bankar sem lenda í vandræðum vegna lánastarfsemi við fyrirtæki sem ganga illa, og þurfa því að draga yfir í Seðlabankanum, verði skattlagðir af ríkissjóði? Þetta þýðir að ríkissjóður nærist á því að atvinnuvegirnir ganga illa og tekur þannig skatta bakdyramegin með því að refsa bönkunum fyrir að liðka til fyrir fyrirtækjunum í landinu. Finnst hæstv. fjmrh. þetta

vera siðferðilega rétt? Er það svo ljótt að lána fyrirtækjunum sem eru í vandræðum með yfirdrætti frá Seðlabankanum að ríkissjóður telji siðferðilega rétt að taka viðurlög í ríkissjóð? Þetta er svo yfirgengilegt að maður hlýtur að spyrja um á hvaða siðferðisgrunni slíkt geti gerst.
    Í tilkynningu ríkisstjórnarinnar segir að eftirlit með launakostnaði verði hert og stefnt að 4% niðurskurði launaútgjalda. Ég starfaði á sínum tíma í stjórn ríkisspítala og mér er kunnugt um hvaða erfiðleikum er bundið að skera niður með þessum hætti. Það hefur verið sagt að það sé hægt að loka deildum, en að stórum hluta til eru launaútgjöld bundin í samningum og kannski þau sem erfiðast er að hreyfa, bundin í kjarasamningum við lækna sem hv. þm. Ragnar Arnalds gerði á sínum tíma þegar hann var fjmrh.
    Hvernig í ósköpunum ætlar hæstv. fjmrh. að leysa þetta mál og verður það gert m.a. með því að skera niður þjónustuna á spítölunum? Ljóst er að ekki verður hægt að skera niður launaútgjöldin með öðrum hætti því að um vaktavinnu er að ræða og margoft hefur verið farið í gegnum þau mál þótt skera megi niður launaskyldan kostnað eins og t.d. námsferðir. Ég sé í Þjóðviljanum í dag að þar er verið að benda á að nú sé verið að ráðast á námsferðir starfsmanna, hjúkrunarfræðinga, sjúkraliða og annarra en lækna á sjúkrahúsunum. Er það gert í samræmi við þessa stefnu fjmrn.? Mér finnst skipta máli að hæstv. ráðherra geri grein fyrir því betur en hann hefur gert hingað til hvernig hann ætlar að ná þessum 4% niðurskurði.
    Ýmislegs væri hægt að spyrja frekar, en það er ein spurning sem ég tel þó að þurfi að fá svarað við þessa umræðu. Það er sagt í tilkynningunni, með leyfi forseta: ,,Athugað verður hvort fjárfestingarskattur gæti e.t.v. leyst af hólmi sérstakan skatt á skrifstofu- og verslunarhúsnæði og vörugjald á byggingarvörur.`` Ég spyr: Á að leggja þennan fjárfestingarskatt á fleira húsnæði en skrifstofu- og verslunarhúsnæði? Hefur hæstv. fjmrh. kannað það eða veit hann ekki að fjárfesting atvinnuveganna í byggingu húsnæðis hefur verið minni á undanförnum árum en oftast áður?
    Loks langar mig til þess að spyrja hæstv. ráðherra að því hvað hann eigi við þegar hann á sínum tíma í viðtali við Þjóðviljann heldur því fram að á undanförnum árum hafi fjárfestingar hér á landi í atvinnulífinu verið pólitískar. Ég les, virðulegur forseti, örstuttan kafla úr viðtali við hæstv. ráðherra frá 14. febrúar sl. í Þjóðviljanum. Hann segir orðrétt:
    ,,Þó vitum við að í okkar kerfi hafa tíðkast bullandi pólitískar fjárfestingar og hagsmunafjárfestingar af ýmsu tagi sem ekki taka mið af hinum rekstrarlegu skilyrðum og eðlilegu skipulagi atvinnufyrirtækja.``
    Hvaða ,,bullandi pólitískar fjárfestingar`` hafa átt sér stað í fyrirtækjunum? Ég vil fá það út því það liggja margir undir grun. Hæstv. forsrh. vísaði svari við þessari fyrirspurn til hæstv. fjmrh., sagðist ekki geta gert þetta að sínum orðum. Það er afar nauðsynlegt þegar hæstv. ráðherra tekur til máls og talar um að atvinnurekendur hafi fjárfest bullandi pólitískt að

undanförnu að fá að vita nákvæmlega við hvað er átt.
    Allir þeir sem hafa fjárfest, flestir hverjir til þess að auka atvinnuna, til að bæta lífskjörin í landinu, liggja undir grun. Hvaða pólitísku fjárfestingar er verið að tala um?
    Mig langar, virðulegi forseti, til þess að spyrja hæstv. forsrh. að því hvað gerist ef afurðaverð hækkar ekki á ný til mótvægis við núverandi greiðslur úr Verðjöfnunarsjóði fiskiðnaðarins. Hve mikla fjármuni þarf Verðjöfnunarsjóðurinn þá til þess að ekki versni rekstrarskilyrði sjávarútvegsins? Mig langar til að snúa spurningunni við og spyrja líka: Hvað þarf afurðaverðið að hækka að meðaltali miðað við heildarútflutninginn í greinum sem taka fé úr Verðjöfnunarsjóði fiskiðnaðarins þannig að hægt sé að hætta þessum greiðslum? Að þessu er spurt vegna þess að texti tilkynningarinnar gefur fullt tilefni til, en þar segir, með leyfi forseta: ,,Vonir eru bundnar við að afurðaverð hækki á ný til mótvægis við núverandi greiðslur úr Verðjöfnunarsjóði fiskiðnaðarins.``
    Mig langar til að spyrja hæstv. forsrh. að því hvenær byrjað verði að greiða niður raforkuverð til fyrirtækja sem nýta raforku tiltölulega jafnt á dags- og ársgrundvelli og hvernig á því standi að slíkar niðurgreiðslur, sem ég ætla
ekki að fara að hæla, fari ekki jafnframt til útflutningsiðnaðargreinanna sem þurfa á slíku að halda og vinna með sama hætti og fiskvinnslugreinarnar. Hæstv. forsrh. hefur sjálfur sagt mjög skýrt úr þessum ræðustól að í raun og veru hafi rangt skráð gengi komið útflutningsiðnaðinum miklu verr en sjávarútveginum þótt það sé minna hlutfall af heildarhagsmunum þjóðarinnar.
    Þá langar mig enn fremur til að spyrja annan hvorn ráðherra að því hvort 10--15 millj. kr. sem það kostar að gera gæðaátak í sjávarútvegi og þær 20--25 millj. kr. sem á að nota til vinnu og tilrauna til fullnýtingar á afla séu á fjárlögum eða sé nýtt fé sem komi inn með sérstakri aukafjárveitingu.
    Í landbúnaðarkaflanum segir, með leyfi forseta: ,,Í undirbúningi er athugun á samkeppnisstöðu innlendrar grænmetisframleiðslu og ný reglugerð er væntanleg um innflutningsmálefni sömu greinar.``
    ,,Í undirbúningi er athugun``, ég endurtek. Þýðir þetta að starfi hv. þm. og fyrrv. landbrh. Jóns Helgasonar hefur verið ýtt til hliðar? Er það önnur athugun sem nú er verið að undirbúa en sú sem hann gekkst fyrir? Hver er munurinn og hver var gallinn við það starf sem hv. þm. Jón Helgason lét vinna í tíð fyrrv. ríkisstjórnar? Hvers vegna ætlar núv. ríkisstjórn að fleygja þeirri könnun sem manni skilst af þessum texta og byrja upp á nýtt? Hvað veldur?
    Mig langar til að spyrja annan hvorn hæstv. ráðherra að því hvort þeir vilji vera svo góðir að segja okkur frá því hvernig eigi að endurskoða vörugjaldið þannig að álagning og innheimta þess geri ekki stöðu íslensks iðnaðar lakari í samkeppni við innfluttan iðnvarning. Það er afar mikilvægt að það komi skýrar fram þannig að þau fyrirtæki sem nú hafa orðið að búa við búsifjar ríkisstjórnarinnar frá því um

áramótin fái að vita út á hvað þessi breyting á að ganga. Ég tek það fram að tilkynning ríkisstjórnarinnar er nú orðin nokkurra vikna gömul þannig að menn hafa haft nokkurt ráðrúm til að átta sig á því.
    Þá langar mig til að spyrja að því hvort það sé eitthvað nýtt sem eigi að gerast varðandi undirboð á innfluttum iðnvarningi. Talsvert er lagt upp úr því í tilkynningu ríkisstjórnarinnar að nú muni vandlega verða fylgst með undirboðum á innfluttum iðnvarningi og jöfnunargjaldi beitt. Er eitthvað nýtt sem á að gerast eða verður fylgt þeirri stefnu sem fylgt hefur verið á undanförnum árum og miðast við núgildandi lög?
    Ég spyr hæstv. forsrh. að því hvort vænta megi að hæstv. ríkisstjórn muni flytja hér frumvarp, sem búið var að undirbúa í tíð fyrrv. ríkisstjórnar, um úrgangsmálma og skilagjald á bifreiðum. Þetta er boðað í skrá sem birtist með stefnuræðu forsrh., en ekkert bólar á þessu frv. sem á að koma frá hæstv. iðnrh. en hann er því miður ekki viðstaddur nú. Það væri fróðlegt að vita hvenær von sé á þessum frumvörpum því að hér stendur: ,,Ríkisstjórnin mun beita sér fyrir lagasetningum sem leggi skilagjöld`` o.s.frv. Mér er kunnugt um að þessu starfi er lokið fyrir löngu að hluta til, en ekki bólar á frv. í þessum efnum fremur en öðrum boðuðum frumvörpum eins og frv. um að gera Sementsverksmiðjuna og Gutenberg að hlutafélögum svo að ég taki dæmi um frumvörp sem boðuð voru.
    Varðandi launamálin segir að hæstv. ríkisstjórn sé reiðubúin að gera það sem í hennar valdi stendur til að verja kaupmáttinn, m.a. með lækkun á verði helstu nauðsynja, t.d. innlendra matvæla. Er hér verið að tala um lækkun á skatti eða auknar niðurgreiðslur og hvernig á að standa straum af þeim kostnaði?
    Mig langar síðan til að segja frá því að í tilkynningu hæstv. ríkisstjórnar segir að á næstu dögum, þ.e. næstu dögum eftir að tilkynningin var birt sem var 6. febr., muni verða lögð fram lagafrumvörp. ,,Um það vill ríkisstjórnin hafa góða samvinnu við stjórnarandstöðuna.`` Telur hæstv. forsrh. að það sé góð samvinna við stjórnarandstöðuna þegar frumvörpum er mokað inn í þingið, ekki kynnt í þingflokkum stjórnarandstöðunnar til að flýta fyrir málum, en síðan er reynt að berja þessi mál út úr nefndum jafnvel á sama fundi, fyrsta fundi sem nefndin fær málið til meðferðar?
    Ég held, virðulegur forseti, að það sé ástæðulaust að hafa þessi orð fleiri. Ég hef ekki flutt ræðu eða sagt álit mitt á því sem fram hefur komið í þessum umræðum, en hef fyrst og fremst byggt málflutning minn hér á einföldum fyrirspurnum til viðkomandi viðstaddra hæstv. ráðherra.