Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson):
    Virðulegi forseti. Mér er nokkur vandi á höndum því ég er með fleiri blöð útskrifuð af spurningum. Þó eru margar þær hinar sömu hjá ýmsum ræðumönnum og sömuleiðis er búið að ræða þessi efnahagsmál, eins og hér hefur margsinnis verið sagt, nánast í þaula undir fjölmörgum liðum eins og efnahagsaðgerðir ríkisstjórnarinnar og fleira og ég mun reyna að taka tillit til þess sem hér hefur áður komið fram.
    Ég vil í fyrsta lagi taka undir það með hv. þm. Þorsteini Pálssyni að vissulega er viðskiptahallinn áhyggjuefni og hann er í fáum orðum sá mælikvarði sem við höfum á heildarútkomuna í þjóðarbúinu. Hins vegar verða menn að varast að taka þær tölur algjörlega bókstaflega. Það er ýmislegt sem hefur áhrif á þær annað en gengi, t.d. sú mikla þensla sem hefur verið í þjóðfélaginu upp á síðkastið og hefur vitanlega stórlega aukið kaupmáttinn, en nú bendir allt til þess að mjög muni úr henni draga. Viðskiptahalli á þessu ári samkvæmt síðustu tölum sem eru komnar út er talinn vera um 4,1% þjóðartekna eða rúmlega 10 milljarðar kr. Það er allt of hátt. En það er vert að hafa í huga að í þessari tölu er t.d. sala á flugvélum sem hefur bætt viðskiptahallann og lækkað hann. Þarna eru líka kaup á skipum sem eru afar mikil enn þá á síðasta ári.
    Nú er spáð að draga muni úr viðskiptahalla á næsta ári og hann verði þá um 3,3% eða um 9,6 milljarðar kr. Í því er t.d. ein flugvél Flugleiða sem er upp á 3 milljarða kr. og eykur þennan viðskiptahalla mjög. Nýlegar tölur um vöruskipti, sem eru komnar út á vegum Hagstofunnar og ég hygg að menn hafi heyrt í fréttum, benda til þess að mjög dragi úr vöruskiptahallanum. Það nálgast að hann sé í jafnvægi um síðustu áramót. Hallinn þar, ef ég man rétt, er upp á 800 millj. kr. Því er spáð að vöruskiptajöfnuðurinn muni lagast á þessu ári þrátt fyrir að samdráttur verði í þjóðarframleiðslunni og alveg sérstaklega muni hann lagast þegar tekið er tillit til kaupa á þeirri flugvél sem ég talaði um áður.
    Ég vil geta þess að flugvélakaup Flugleiða eru talin munu vega á árinu 1990 um 6 milljarðar kr. og það er mikil spurning hvernig á að taka slíkt inn í viðskiptahallann því þetta er að öllu leyti fjármagnað með erlendum lánum og með engum innlendum veðum í flugvélinni. En engu að síður tek ég undir að viðskiptahallinn er mikið alvörumál.
    Ég get getið þess að Vilhjálmur Egilsson hagfræðingur hjá verslunarráði telur að meira muni draga úr viðskiptahalla á þessu ári vegna þess að hann telur að meira muni draga úr þenslunni en ríkisstjórnin hefur talið rétt að gera ráð fyrir og þess vegna muni kaupmátturinn lækka meira. Hann telur að vísu að það muni leiða til meira atvinnuleysis en ríkisstjórnin telur viðunandi.
    Mikið hefur verið talað um rekstrarstöðuna í sjávarútvegi og ég fór yfir síðustu tölur í því sambandi, eða við skulum segja næstsíðustu tölur í því sambandi frá Þjóðhagsstofnun í umræðu í Ed. fyrir tveimur dögum. Í þeirri niðurstöðu fyrir

botnfiskvinnsluna var talið að frystingin væri með halla upp á u.þ.b. 0,3% en saltfiskurinn með jákvæða afkomu upp á 6,8% og því heildarafkoman ef ég man rétt eitthvað um 3% í plús.
    Það er rétt að taka fram að þegar þetta var gert var ekki tekið inn mat á áhrifum tolla sem hugsanlega verða hærri í Evrópubandalaginu en verið hefur vegna þess að af einhverjum ástæðum virðumst við ekki hafa náð að flytja nema mjög lítið út af fiski inn á þennan tollfrjálsa GATT-kvóta sem er um 24.000 tonn, 24--25.000 tonn. Það er að vísu fundur í dag hjá stjórn Evrópubandalagsins sem ákveður tolla á viðbótarinnflutningi og þótt menn hafi óttast að hann kynni að verða 13% þá eru þó uppi raddir um að hann kunni að verða töluvert lægri.
    Ef þessi tollur allur fellur á saltfiskinn versnar afkoman þar mjög og yrði þá líklega 2% í plús og það munar mjög miklu. Þarna eru óvissuþættir sem ekki liggja ljósir fyrir.
    Dollarinn hefur lækkað smávegis aftur. Ég kynnti mér þetta í morgun til að hafa síðustu upplýsingar. Þá versnar aftur hjá frystingunni. Það leikur þarna rétt fyrir ofan núllið eða rétt fyrir neðan núllið. Hinu má svo alls ekki gleyma að í þessu er reiknað með 6% arðsemi stofnfjár og það er of lágt til að standa undir fjármagnskostnaði. Það sýna allar þær tölur sem nú liggja fyrir um þessi atriði. Ég vil því alls ekki draga úr því að rekstrarafkoman er erfið. Hitt má svo gjarnan koma fram að ég fékk þær upplýsingar frá Þjóðhagsstofnun að ef t.d. einn þriðji af lökustu frystihúsum er ekki tekinn með bætir það afkomuna um 2--3%. Við höfum talað um það í sambandi við hlutafjársjóðinn að þar þurfi að koma til mikil tilfærsla fjármagns til að auka eigið fé í frystingunni sérstaklega, líklega um 2 milljarða. 2 milljarðar eru um 8% af heildarsöluverðmæti í botnfiskvinnslunni svo að þar er verið að tala um heljarmikla tilfærslu.
    Ég svara því strax að það er rangt, sem kom fram áðan hjá hv. 5. þm. Austurl., að þarna væri um að ræða að ríkið ætlaði að leggja undir sig þessi
fyrirtæki. Þarna er um það að ræða að sjóðir, Byggðastofnun, bankar og fleiri verði reiðubúnir, það hefur ekki reynt á það til fullnustu enn, að breyta einhverju af skuldum þessara stofnana við ýmis fyrirtæki í hlutafé. Ég skýrði frá því í hv. Ed. að í Byggðastofnun liggur þegar fyrir áætlun um að breyta þurfi um 400 millj. kr. í hlutafé. Vitanlega er von allra að þetta hlutafé endurheimtist og unnt verði að selja það heimaaðilum og einkaaðilum sem fyrst og þá geti hlutafjársjóðurinn greitt þau hlutdeildarskírteini sem viðkomandi stofnanir hafa keypt í hlutafjársjóðnum. Þarna yrði um að ræða verulega tilfærslu fjármagns sem ekki er inni í þessum reikningum.
    Ég endurtek að ég er ekki með þessu að segja að afkoman sé of góð. Því fer víðs fjarri. Þessi ríkisstjórn fylgir hins vegar þeirri stefnu að fara ekki í kollsteypum út úr þessum vanda. Við höfum ekki trú á að það mundi takast og teljum að það beri að vinna sig jafnt og þétt úr vandanum.

    Hv. þm. Þorsteinn Pálsson ræddi um lækkun á verði á matvælum og það gerði hv. þm. Friðrik Sophusson ef ég man rétt. Það er rétt að í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er beinlínis gert ráð fyrir þessu og að því er unnið nú með athugun í fjmrn. hvort unnt er að afla tekna á móti eftir öðrum leiðum. Ég get ekki sagt nú hver niðurstaðan af því verður, en að þessu er unnið og bæði skoðað hvort kemur til greina að hafa annað söluskattsstig á nauðsynlegustu matvælum og þá sérstaklega innlendum matvælum, matvælum sem auðvelt er að rekja t.d. til seljenda og greina í sundur í verslunum, eða hvort komi til greina að auka niðurgreiðslur.
    Hv. þm. spurði um gjaldskrá orkufyrirtækja ef ég hef skrifað hjá mér rétt og vísar til þeirrar viðleitni ríkisstjórnarinnar að halda aftur af miklum hækkunum. Fyrir liggur frv. til l. um tímabundið samþykki verðlagsyfirvalda á hækkunarhugmyndum orkufyrirtækja. Ég get greint frá því að stjórn Landsvirkjunar mun hafa samþykkt í morgun að gera ráð fyrir 8% hækkun orku Landsvirkjunar. Ég fagna því að þarna hefur orðið mikil breyting á frá fyrstu hugmyndum sem sú stofnun sendi frá sér. Fyrstu hugmyndir voru um 31% hækkun. ( Gripið fram í: Ekki stjórnarinnar.) Nei, en forstjóri stofnunarinnar bað um athugun á þeirri hugmynd. Síðan var í stjórn stofnunarinnar rætt um 17% hækkun og nú er þar rætt um 8% hækkun. Þetta tel ég mikla framför. Vitanlega er það gert í skjóli þess að það var gert ráð fyrir minni arði af eigin fé. Eigið fé Landsvirkjunar eru 17 milljarðar og það þætti gott í sjávarútveginum. Það hefur ætíð verið gert ráð fyrir því að arðsemi eigin fjár þyrfti að vera á bilinu 3--5% og stjórnin hefur ákveðið núna að reikna með heldur lægra lagi arðsemi eins og nú er ástatt. Þessu ber því að fagna. ( FrS: Til hvers þá að vera að setja lögin?) Ja, getur ekki vel verið að lagasetningin hafi valdið einhverju hér um? Ég gæti vel trúað því. Og ég gæti vel trúað því að stjórn Landsvirkjunar hafi valið þann kostinn að óska eftir hækkun sem hún teldi meiri líkur á að yrði síðan samþykkt.
    Það er mikið búið að ræða um fjármagnsmarkaðinn við mörg tækifæri og menn segja eins og hv. 5. þm. Austurl.: Af hverju ekki að gera eins og Svíar? Ja, af hverju ekki að gera eins og Svíar? Ég tek undir það. Af hverju afnemum við ekki lánskjaravísitölu sem Svíar hafa ekki leyft t.d.? Svíum er ljóst að það er ekki hægt að tryggja fjármagn umfram það sem þjóðarbúið gefur af sér. Meira að segja gerðist það fyrir skömmu í Svíþjóð að nokkur byggingarfyrirtæki tóku upp á því að verðtryggja sína samninga. Sænska ríkisstjórnin setti á fót nefnd til að athuga hvaða hættur þessu fylgja. Sú nefnd skrifaði ítarlega skýrslu og varaði við slíkri verðtryggingu, en komst reyndar að þeirri niðurstöðu að þetta væri svo takmarkað að það væri ekki ástæða til að óttast að þetta hefði áhrif nú. Af hverju ekki að skoða hvaða reglur Svíar setja um notkun greiðslukorta eða um verðbréfamarkaðinn eða um eignarleigufyrirtækin? Mér er t.d. tjáð að Svíar séu með mjög strangar reglur um

eignarleigufyrirtæki, miklu strangari en hér tíðkast. Hér eru þær í raun engar. Þá getum við farið að bera saman þessa hluti. Staðreyndin er jafnframt sú að Svíar búa við miklu, miklu meira jafnvægi í sínum efnahagsmálum en við höfum náð og þar er skuldsetning fyrirtækja í atvinnulífinu ekki nema brot af því sem er hér. Þannig gæti ég haldið áfram að tala um samanburðinn. Já, tökum Svía okkur til fyrirmyndar. Ég er sannarlega til í það.
    Ég ætla að hlaupa nokkuð hratt yfir. Hv. þm. Þorv. Garðar Kristjánsson ræddi mikið um gengið eins og margir hafa gert hér og lýsti undrun sinni á því að svo skuli ástatt sem raun ber vitni þrátt fyrir góðærið. Ég hef rætt þetta margsinnis. Þetta er alveg hárrétt. Menn í atvinnugreininni segja að það sé vegna þess að gengi var haldið föstu í allmarga mánuði, reyndar í 15 mánuði. Eflaust hefur þar verið of langt gengið að þessu leyti og menn hafa þess vegna ekki notið þessa góðæris eins mikið og æskilegt hefði verið. Hins vegar er það afar athyglisvert, sem kemur fram á línuriti sem samtök fiskvinnslustöðva dreifðu fyrir nokkrum dögum og ég veit að hv. þm. var þar, en það sýnir að verð á afurðum hækkar miklu meira en raungengið á þessum tímum svo að þrátt fyrir það að gengi var haldið föstu á að hafa myndast verulegt fjármagn. En hvað varð um það? Það var líka spurning. Getur verið að þreföldun
fjárfestingar í fiskiskipum hafi tekið góðan hluta af þessu o.s.frv.? Nú er búið að fella gengið á einu ári um 31%, nálægt því. Ég tala nú ekki um blessaðan dollarann sem hefur fallið um 36--37%. Þetta er virkilega athugunarefni.
    Gengið hefur verið fellt mikið. Hvað þarf að fella það mikið meira? Fiskvinnslumenn segja núna 10--13%. Ég spyr: Ætla menn þá að ráða við þær kollsteypur sem því fylgja? Ætla menn að standa frammi fyrir launþegum og segja: Þið fáið engar hækkanir. Hv. þm. sagði: Gengisfelling með aðgerðum til að koma í veg fyrir að gengið fari út í verðlagið. Hárrétt. Það má þá ekki verða svo, eins og það varð 1986, að samningsaðilar komi til ríkisstjórnarinnar og segi: Ja, því miður náum við þessu ekki saman. Það vantar heilmikið fjármagn upp á og við verðum að lækka verð á bílum o.s.frv. til þess að ná saman samningum. Ég held að langtum betra í þessu öllu sé að fara að vinna sig út úr vandanum eins og ég hef margsinnis lagt áherslu á.
    Ég held að staðreyndin sé sú að það er ekki rekstrartap hjá öllum. Því fer víðs fjarri. Ég þekki þess nokkur dæmi a.m.k., sem ég hef kynnt mér persónulega, að þetta hefur mjög breyst á seinni hluta síðasta árs og nú og framlegðin er allt önnur í janúar en hún var t.d. um mitt síðasta ár. Hins vegar veldur það mjög miklum vandræðum að afli hefur brugðist, gæftir hafa verið ákaflega erfiðar. Það eru hundruð milljóna sem þar hafa a.m.k. tímabundið glatast, en vonandi endurheimtast þær í meiri afla það sem eftir er vertíðar og árs.
    Hv. þm. Friðrik Sophusson hefur, ef ég man rétt, flutt tvær ræður og komið víða við. Ég vil aðeins

fyrst koma að því sem hv. 5. þm. Austurl. sagði áðan. Hann endurtók hvað eftir annað að hann næði ekki upp í eitthvað. Ég verð að segja það sama. Ég næ ekki upp í allt sem hann sagði í sinni ræðu og ekki víst að ég nái þess vegna að svara því. Er verið að rányrkja atvinnuvegina o.s.frv.? Ég hélt að það væri nokkuð mikilvægt markmið að halda ríkissjóði hallalausum. Það er staðreynd sem ekki verður hrakin að skattheimta hér á landi er langt fyrir neðan það sem hún er hjá öðrum sambærilegum velferðarríkjum. Ég er ekki að mæla með því að hækka skatta eins og þar er, langt frá því, en ég þarf ekki að tala um það enn þá einu sinni hér að markmiðið var hallalaus ríkisbúskapur og vonandi tekst að halda honum þannig. En um leið og menn segja: Skattheimtan er of mikil, þá verða menn að svara hinni spurningunni. Á að draga úr velferðarkerfinu, á að draga úr heilbrigðiskerfinu, á að draga úr menntakerfinu? Þetta eru stóru liðirnir sem við erum að kljást við, um 60% útgjalda ríkissjóðs. Ég tek undir allt sem menn segja um aðhald og sparnað og sjálfsagt er að leita ráða.
    Hv. þm. spurði: Af hverju var ekki stjórn Byggðastofnunar falið þetta verk? Vissulega hefði það komið til greina. Hins vegar er hér um mjög snöggt átak að ræða sem krefst gífurlega mikillar vinnu í þessari skuldbreytingu Atvinnutryggingarsjóðs. Ég vek athygli á að þetta verður allt fært undir Byggðastofnun 1. jan. 1991, ef ég man rétt.
    Hv. þm. talaði um lán á lán ofan o.s.frv. Ég vek athygli á því að með Atvinnutryggingarsjóði er ekki verið að veita lán á lán ofan heldur á að skuldbreyta styttri lánum í lengri lán. Mér er það ánægjuefni hve margir sem hafa náð þessari skuldbreytingu hafa gert sér far um að ræða um það við mig hvað þetta hefur breytt greiðslustöðunni. ( KrP: Hvað er svona vont við stjórn Byggðastofnunar?) Ekkert er vont við stjórn Byggðastofnunar. Þar sitja menn uppteknir á þingi m.a. Ég get ekki ætlað þeim að sitja yfir slíku daginn út og daginn inn eins og hefur verið nauðsynlegt.
    Ég var að tala um greiðslubyrðina, en það er annað sem hefur komið mjög fram hjá þessum fyrirtækjum. Þau eru enn með stóran hluta af sínum lánum, einkum frá bankakerfinu, sem 2--3 ára lán. Það er afar nauðsynlegt að þau lán verði einnig lengd.
    Hv. þm. Friðrik Sophusson kom víða við eins og ég sagði. Hann talaði í fyrri ræðu sinni um vestrænar aðgerðir í fjármálum. Ég tek út af fyrir sig undir það. Ég hef þegar rætt það. Ég ræddi um lánskjaravísitöluna. Hann vildi fá skýringu á hinum djúpstæða skipulagsvanda. Ég held satt best að segja að skuldastaða fyrirtækjanna sé mjög djúpstæður fjárhagslegur skipulagsvandi. Auk þess eru mörg fyrirtæki núna sjálf að ganga í gegnum verulega skipulagsbreytingu. T.d. hafa tvö fyrirtæki í Ólafsfirði sameinast sem er áreiðanlega af hinu góða. Tvö fyrirtæki í Þorlákshöfn eru að tala um sameiningu. Þrjú fyrirtæki á Vestfjörðum eru að ræða um að sameinast um útgerð. Það er víðar sem svona hlutir eru í undirbúningi. En ég held að sérstaklega fjárhagsstaða fyrirtækjanna sé mjög djúpstætt

vandamál sem nauðsynlegt er að taka á.
    Hve mikið þarf raungengið að lækka? Raungengið er þegar líklega komið rétt niður fyrir meðaltal þessa áratugs og kann að vera að það þurfi að lækka eitthvað meira, en það þarf að gerast með aðgerðum á ýmsum sviðum.
    Viðskiptajöfnun hef ég rætt um og Landsvirkjun. Hv. þm. spurði um þær nafnvaxtahækkanir sem nú hafa orðið. Ég tel þær mjög slæmar og tel að þær séu
á miklum misskilningi byggðar. Ég er margbúinn að segja að ég tek undir með þeim lærðu mönnum sem hafa vakið athygli á að það er ekki hægt að tryggja fjármagnið umfram getu atvinnulífsins og menn verða að sætta sig við það þegar verið er að fara í gegnum þessa erfiðleika að vextirnir séu lágir.
    Það er hárrétt sem hv. þm. hafði eftir mér. Ég tel að útflutningsiðnaðurinn hafi farið miklu verr út úr fastgengistímabilinu en sjávarútvegurinn. Hann hafði ekki þá aflaaukningu sem sjávarútvegurinn fékk og það er áhyggjuefni. Af þessari ástæðu ákvað ríkisstjórnin að veita þeim útflutningsiðnaði sem stærstur er, þ.e. ullariðnaðinum, sambærilega aðstoð og frystingin fær í gegnum Verðjöfnunarsjóð. ( FrS: En raforkan til útflutningsiðnaðarins?) Já, raforkan til útflutningsiðnaðarins. Sú lækkun raforku sem hér er um að ræða er bundin við jafna nýtingu og það er afar lítið, hygg ég, af útflutningsiðnaði sem getur það. Þó má vera að ullariðnaðurinn geti það ef unnið er þar dag og nót, en það er ekki. ( FrS: Hampiðjan.) Hampiðjan. Það kann að vera og það er sjálfsagt að athuga það. Ég er þeirrar skoðunar að þau fyrirtæki sem geta boðið upp á jafna nýtingu sem er hagkvæm fyrir raforkuiðnaðinn eigi að njóta sérstakra kjara og mér finnst sjálfsagt að skoða það. Ég get engu lofað um það núna.
    Hv. þm. ræddi mikið um gengið og það sem hv. þm. Guðmundur G. Þórarinsson hefur um það skrifað. Ég hef þegar svarað þessu að verulegu leyti. Ég er þeirrar skoðunar að gengið sé afar mikilvægt og dreg ekkert úr því, en ég hygg hins vegar að það verði að vera afgangsstærð vegna þess að það hefur svo víðtæk áhrif í þjóðfélaginu á fjölmörgum sviðum sem m.a., eins og kom fram hjá hv. þm. hér, er nauðsynlegt að skoða um leið, m.a. með alls konar hliðarráðstöfunum og koma í veg fyrir að það gangi í gegnum allt efnahagslífið.
    Hv. þm. spurði um skilagjald t.d. Frv. um slíkt liggur nú fyrir hjá stjórnarflokkunum og verður væntanlega lagt fram á Alþingi mjög fljótlega.
    Ég vona, virðulegi forseti, að mér hafi tekist að svara flestu. Þó er hætt við því í þessari fljótu yfirferð að eitthvað hafi orðið út undan af mörgum og löngum ræðum, en ég læt lokið mínu máli.