Þorsteinn Pálsson:
    Frú forseti. Það eru bráðum þrjár vikur síðan þessi umræða hófst um tilkynningu ríkisstjórnarinnar um aðgerðir í efnahagsmálum, hinar endanlegu og varanlegu efnahagsaðgerðir sem taka áttu við af svonefndum biðleik. Það er svo til marks um hvernig að stjórn efnahagsmálanna og þingsins er staðið að framhald þessarar umræðu verður fyrst þegar hátt í þrjár vikur eru liðnar frá því að málið var fyrst borið hér inn á Alþingi. Menn hljóta þá að spyrja hvort mikið hafi verið um að vera í mikilvægri lagasetningu eða mikilvægum stjórnarathöfnum hæstv. ríkisstjórnar, en ekkert slíkt hefur tafið áframhaldandi umræður hér í þinginu. Það var svo kannski enn fremur táknrænt um ástandið almennt að framhaldsumræðan hófst svo með hefðbundinni uppákomu í stjórn þingsins sem er farin að einkenna þingstjórnina með alveg sérstökum hætti og dregur væntanlega dám af stjórn landsins að öðru leyti en er sérstakt íhugunarefni ekki síst með tilliti til virðingar og sóma löggjafarsamkomunnar. ( Forseti: Má forseti biðja hv. þm. að útskýra nákvæmlega á hvern hátt var öðruvísi að farið með upphaf þessa fundar. Annað er beinlínis vítavert.) Ég veit að ég þarf ekki að rekja það hér aftur, frú forseti, með hvaða hætti fundurinn hófst og þær deilur sem upp risu þá milli hæstv. forseta og 2. þm. Norðurl. e., en atburðir af því tagi eru ekki alveg óalgengir í þinginu um þessar mundir.
    En ef ég vík svo að efni málsins má kannski segja að þó að þessi ríkisstjórn hafi verið gagnrýnd, einkanlega fyrir að hafa ekki viljað horfast í augu við þá staðreynd að raungengi krónunnar er rangt skráð, og enginn viðurkennt það oftar en hæstv. forsrh., hefur þessi hæstv. ríkisstjórn staðið fyrir meira gengisfalli en nokkrar aðrar ríkisstjórnir. Hún hefur staðið fyrir gengisfalli stóryrðanna með áhrifameiri hætti en nokkur önnur ríkisstjórn eða nokkrir aðrir stjórnmálaleiðtogar í þessu landi.
    Það voru ekki svo smá orð sem höfð voru þegar hæstv. ríkisstjórn tók við um það hvernig nú ætti að breyta um í íslenskum þjóðarbúskap. En það er ákaflega smátt sem eftir stendur þegar raunveruleikinn er borinn saman við stóru orðin. Það má því með nokkrum sanni segja að þessi umræða lýsi gengisfalli stóryrðanna hjá hæstv. ríkisstjórn.
    Um þau markmið sem hæstv. ríkisstjórn hefur sett sér má segja þetta: Áfram í kjölfar biðleiksins eru gerðar varanlegar efnahagsráðstafanir sem eiga að leiða áframhaldandi varanlegan taprekstur ekki bara yfir sjávarútveginn í landinu heldur líka iðnaðinn í landinu eins og hæstv. forsrh. tók sérstaklega fram að ástæða væri til að hafa jafnvel enn meiri áhyggjur af.
    Niðurstaðan af aðgerðunum er þessi: Sjávarútvegurinn í heild er rekinn með verulegu tapi. Það hefur komið fram í máli hæstv. forsrh. að botnfiskvinnsla sé nú rekin með nokkrum rekstrarafgangi. Það eru þó býsna kynlegar tölur þar sem ekki er tekið tillit til nýjustu breytinga sem átt hafa sér stað í rekstri fiskvinnslunnar eins og hæstv. forsrh. þó minntist á að átt hefðu sér stað bæði

varðandi saltfiskvinnslu og nýjar breytingar á gengi bandaríkjadollars.
    Það hafa nýlega komið fram af hálfu Samtaka fiskvinnslustöðvanna mjög alvarlegar gagnrýnisraddir og formlegar samþykktir sem lúta að því hvernig farið er með það lán sem Verðjöfnunarsjóði fiskiðnaðarins var falið að taka á sl. ári og á lögum samkvæmt að endurgreiða og hefja endurgreiðslur á á þessu ári. Það hefur verið margsinnis á það minnt hér í umræðum að hæstv. sjútvrh. hafði gefið um það skýrar yfirlýsingar að þetta lán mundi ekki lenda á fiskvinnslunni heldur ríkissjóði, enda gæti fiskvinnslan við þessar aðstæður ekki risið undir því. Samt sem áður eru samþykkt lög frá hinu háa Alþingi um þessa lántöku þar sem skýrt og skilmerkilega er tekið fram að sjávarútvegurinn eigi að endurgreiða lánið og a.m.k. geti það fyrst gerst eftir þrjú ár að ríkissjóður yfirtaki það. Samkvæmt því er því stefnt að þriggja ára viðvarandi taprekstri í sjávarútveginum. Þessi mótmæli Samtaka fiskvinnslustöðvanna hefur hæstv. ríkisstjórn haft að engu þó að þau byggist á yfirlýsingum hæstv. sjútvrh. og séu gerð með beinni skírskotun til þeirra yfirlýsinga sem gefnar voru á fundi sjómanna.
    Það liggja líka fyrir upplýsingar um að Seðlabanki Íslands metur það svo eftir að ríkisstjórnin hefur tekið ákvarðanir um hinar varanlegu efnahagsaðerðir að raungengi krónunnar muni hækka þegar líður á árið. Hæstv. forsrh. hefur lýst því hér að það þyrfti að lækka meira. En það er niðurstaða Seðlabankans eftir að efnahagsráðstafanirnar hafa verið gerðar að raungengið muni hækka þegar líður á árið. M.ö.o.: hér er verið að stefna að viðvarandi rekstrarhalla, engar ráðstafanir hafa verið gerðar til að bæta raunverulega úr vanda atvinnuveganna.
    Að því er varðar markmiðið um lækkun verðbólgu hefur það líka mistekist. Eftir að ríkisstjórnin hafði forgöngu um það sjálf að brjóta verðstöðvunina á bak aftur fyrst ríkisstjórna á Íslandi til þess að bregðast þannig við tímabundinni aðgerð sem verðstöðvun er, að byrja á því að brjóta hana sjálf, þá hefur verðbólga farið upp á við á nýjan leik og ljóst er að hún mun samkvæmt fyrirliggjandi spám verða einhvers staðar á bilinu 20--30% á fyrri
hluta þessa árs og flestum hlýtur að vera ljóst að þeir atburðir sem ekki er reiknað með eða ekki eru teknir inn í þessi reiknilíkön muni fremur ýta þessum tölum upp en niður. Þetta markmið hefur þess vegna ekki náðst, hvorki með biðleik né hinum varanlegu ráðstöfunum.
    Þriðja stóra markmiðið var að lækka vexti. Það hefur enn ekki tekist og við heyrum daglega fréttir um að nafnvextir fari hækkandi á nýjan leik hversu mjög sem hæstv. ríkisstjórn ber sér á brjóst um að hin nýja handaflsleið hafi gerbreytt öllum aðstæðum á fjármagnsmarkaðnum. Hún hefur sannarlega gerbreytt ýmsu, en hún hefur ekki leitt til þess að vextir hafi lækkað, hvorki raunvextir né nafnvextir sem eru nú á hraðri uppleið. Hún hefur hins vegar leitt til þess að hér er nú meiri óvissa á fjármagnsmarkaði en um langan tíma svo að ekki sé dýpra í árinni tekið og

aðgerðir hæstv. ríkisstjórnar í lánskjaravísitölumálinu hafa leitt til slíkrar óvissu að hæstv. ríkisstjórn á yfir höfði sér langvarandi málaferli með þar af leiðandi óvissu um lánskjaravísitöluna og sparnaðinn í landinu. Þar að auki liggur fyrir að ríkisstjórnin með aðgerðum sínum er að kalla yfir þjóðarbúskapinn stórauknar erlendar lántökur og frá því að hæstv. ríkisstjórn lagði fram fyrstu áætlun sína um erlendar lántökur á þessu ári fyrir aðeins um þremur mánuðum hafa áformin hækkað um 30 eða 50% um erlendar lántökur og eru sjálfsagt hvergi öll kurl komin til grafar enn í þeim efnum. Það er einmitt þetta sem gerir að verkum að vextirnir þrýstast upp á nýjan leik, að hæstv. ríkisstjórn neitar að gera þær ráðstafanir sem tryggja hallalausan rekstur atvinnuveganna, dæmir þá til þess að fjármagna reksturinn með auknum erlendum lántökum og stefnir að öðru leyti að því að auka erlendar lántökur. Það er þetta sem gerir að verkum að vextirnir þrýstast upp hvað sem góðum áformum hæstv. ríkisstjórnar líður. Þetta eru þær staðreyndir sem liggja fyrir.
    Þá var svo fróðlegt að hlýða á mál hæstv. fjmrh. Auðvitað er það hans hlutverk í viðskiptum sínum við þá sem kaupa skuldabréf af ríkissjóði að ná sem hagkvæmustum kjörum. Það hygg ég að allir forverar hans í starfi hafi þurft að glíma við. Ég minnist þess a.m.k. frá sumrinu 1986 að þá fóru fram býsna mikil átök við lífeyrissjóðina. Þá stóð hins vegar svo vel á að ríkissjóður hafði þegar á miðju ári aflað þess lánsfjár með spariskírteinum sem fjárlög gerðu ráð fyrir og það var hægt að taka spariskírteinin tímabundið út af markaðnum til að ná settum markmiðum um lækkun vaxta með því að minnka eftirspurnina eftir lánsfjármagni.
    Hvað svo sem hæstv. fjmrh. segir í þessu efni eru allar aðgerðir ríkisstjórnarinnar í því fólgnar að auka eftirspurn eftir lánsfjármagni og munu þess vegna óumflýjanlega og því miður hafa þau áhrif að vextirnir þrýstast upp á við aftur svo sem við lesum nú um í blöðum og heyrum í fréttum ljósvakafjölmiðla á hverjum degi.
    Það er svo fróðlegt að hlýða hér á umræður hæstv. ráðherra um nauðsyn uppstokkunar og skipulagsbreytingar í sjávarútveginum. Sú skipulagsbreyting á að fara fram að mati hæstv. ráðherra með því að dæma höfuðatvinnuveg þjóðarinnar og iðnaðinn til viðvarandi hallareksturs. Er það ekki svolítið kyndug leið til að kalla á skipulagsbreytingar? Er ekki svolítið verið að fara aftan að hlutunum til að knýja á um skipulagsbreytingar að dæma höfuðatvinnuvegi þjóðarinnar til hallareksturs, koma svo upp hverjum sjóðinum á fætur öðrum til að veita lánsfjármagninu í gegn? Auðvitað þarf við slíkar aðstæður að byrja á því að hjálpa verst stöddu fyrirtækjunum í gegnum hið nýja sjóðakerfi sem verið er að byggja upp og ná þannig smám saman kommissaraáhrifum ríkisvaldsins og miðstjórnarvaldsins yfir atvinnulífinu úti á landsbyggðinni. Svo felst skipulagsbreytingin í því að bíða eftir því að best stöddu atvinnufyrirtækin komist

í sömu stöðu og sjóðafyrirtækin eru í í dag. Ég sé ekki, hæstv. forsrh., að í þessari efnahagsstefnu felist líkur á vænlegri skipulagsbreytingu. Vafalaust verður úr þessu mikil skipulagsbreyting. En það verður ekki skipulagsbreyting sem ýtir undir best reknu atvinnufyrirtækin í landinu, leiði til þess að þau styrkist, skapi hér meiri verðmæti og tryggi bætt lífskjör. Nei, þvert á móti. Þessi skipulagsbreyting mun leiða til þess að verðmætasköpunin verður minni í atvinnulífinu, afraksturinn minni og lífskjörin munu versna þegar til lengdar lætur.
    Það er athyglisvert hvaða dóma stefna hæstv. ríkisstjórnar fær um þessar mundir. Það er ekki einasta að talsmenn Sjálfstfl. eða annarra stjórnarandstæðinga gagnrýni stjórnarstefnuna og sýni fram á í hvert óefni hún muni leiða íslenskt þjóðfélag heldur er það að gerast á síðustu vikum að ýmsir þeir úr stjórnarherbúðunum sem gerst þekkja, ýmist vegna afskipta sinna af atvinnulífinu sjálfu eða vegna fræðilegrar þekkingar á efnahagsmálum, koma fram á ritvöllinn og kveða upp þyngri dóma um efnahagsstefnuna en jafnvel þeir úr liði stjórnarandstöðunnar sem hvað harðast hafa kveðið að orði. Ég veit að ég þarf ekki enn á ný að minna á fræg ummæli Guðjóns B. Ólafssonar, forstjóra Sambandsins, sem sagði í lok janúar að tími væri til kominn að ríkisstjórnin sneri sér að alvörumálum. Með leyfi forseta sagði svo í frásögn DV af ræðu
hans á spástefnu Stjórnunarfélagsins:
    ,,Mál málanna er að í eitt skipti fyrir öll þarf að gera þær ráðstafanir í þjóðfélaginu sem duga. Það þarf að ná niður verðbólgunni og síðan þarf að skrá gengið rétt. Samspil okkar við önnur lönd er að verða nánara með hverjum mánuði sem líður og við höfum ekkert efni á því að halda að efnahagslögmál gildi ekki á okkar kletti. Þetta er alger blekking.``
    Hér er einmitt verið að vísa til þeirra yfirlýsinga hæstv. forsrh. að það sé meginatriðið í efnahagsstefnu núv. hæstv. ríkisstjórnar að hverfa frá viðurkenndum vestrænum aðferðum við stjórn efnahagsmála.
    Hv. þm. Skúli Alexandersson ritar svo athyglisverða grein í dagblaðið Þjóðviljann í dag og ræðir þar einmitt um vaxtastefnuna. Í grein hv. þm. segir þetta, með leyfi forseta: ,,Óskir um vaxtalækkun eru óraunhæfar nema á tímum lögbundinnar kaup- og verðstöðvunar í þjóðfélagi þar sem undirstöðuatvinnuvegirnir eru reknir með tapi og framleiðslufyrirtæki þurfa stöðugt að leita eftir meira fjármagni til útlánsstofnana en framleiðslan gefur af sér.``
    Hér er með mjög skýrum hætti verið að benda á þá staðreynd að áframhaldandi taprekstur kallar á meiri lán og þrýstir upp vöxtum og hæstv. ríkisstjórn gengur í öllum efnum gegn þeim markmiðum sem hún hefur lýst.
    Sá fræðimaður sem skrifað hefur hvað mest um íslensk efnahagsmál og hefur a.m.k. ekki verið sakaður um að ganga gegn Alþfl. á undanförnum missirum kveður sér hljóðs í nýlegri grein í Vísbendingu. Þar kveður dr. Þorvaldur Gylfason upp

býsna harða dóma yfir efnahagsstefnunni og segir m.a., með leyfi forseta: ,,Þannig ber allt að einum brunni. Ríkisstjórnin leggur höfuðáherslu á efnahagsaðgerðir sem kynda undir áframhaldandi verðbólgu og skuldasöfnun í útlöndum eftir allt sem á undan er gengið.`` Og síðan spyr hann: ,,Er þetta það sem þjóðin vill?``
    Og hv. 10. þm. Reykv. hefur líka kvatt sér hljóðs í þessum mánuði og segir í grein, með leyfi forseta: ,,Gengisstefnan er aðalatriði. Það er röng fullyrðing að gengið sé afgangsstærð. Gengið er grunnatriði í efnahagsstefnunni. Eina raunhæfa gengisstefnan er sú gengisskráning sem gefur útflutningsatvinnuvegunum stöðug starfsskilyrði.`` Einmitt þessari fullyrðingu var hæstv. forsrh. að hafna.
    Og hv. þm. segir á öðrum stað í grein sinni: ,,Skipulagsvandi er ekki meiri í útflutningsgreinunum en öðrum greinum og ekki meiri en verið hefur undanfarin ár. Það breytir ekki því að sjálfsagt má nokkuð vinna með hagræðingu.``
    Þetta eru fá dæmi um dóma sem kveðnir eru upp af talsmönnum og stuðningsmönnum þeirra flokka sem standa að núv. hæstv. ríkisstjórn og í raun þarf ekki frekari vitnanna við um að sú efnahagsstefna sem hæstv. ríkisstjórn boðaði með komu sinni og endurnýjaði með þeirri dæmalausu tilkynningu sem umræða var hafin um hér fyrir tæpu þremur vikum hefur beðið algert skipbrot. Þessi umræða er því og ætti því að verða aflvaki á Alþingi einmitt til að knýja á um breytta stjórnarstefnu og ýta þeim öflum til hliðar sem hafa náð slíkum undirtökum í núv. hæstv. ríkisstjórn að hún getur með engu móti öðru komist að verki en hún hefur tilkynnt í þessari umræðu. Þessi dapurlega staðreynd um afleiðingar efnahagsstefnunnar, sem ekki er aðeins borin hér fram af talsmönnum stjórnarandstöðu heldur af virtustu talsmönnum ríkisstjórnarflokkanna sjálfra innan þings og utan, ætti að vera hvati og aflvaki fyrir hv. alþm. til að nota þessa umræðu í þeim tilgangi að knýja á um breytta stjórnarstefnu.
    Ég vildi svo að lokum, frú forseti, ítreka spurningu sem ég bar fram við upphaf þessarar umræðu en hvorki hæstv. forsrh. né hæstv. fjmrh. hafa svarað. Þessi hæstv. ríkisstjórn gerði í samræmi við stefnuyfirlýsingu hæstv. forsrh. fyrirvara við þá efnahagsáætlun sem nú er unnið að á vegum Norðurlandaráðs og kemur væntanlega til umfjöllunar á þingi Norðurlandaráðs í næstu viku. Það hefur vakið býsna mikla athygli að ríkisstjórn Íslands skyldi hafa gert slíkan fyrirvara því að fyrirvarinn er ábending um að ríkisstjórn Íslands fylgi einangrunarstefnu, sé ekki tilbúin að taka þátt í þeirri alþjóðlegu þróun sem nú á sér stað, ekki einu sinni þeirri þróun um stjórn efnahagsmála sem nú á sér stað innan Norðurlandanna.
    Nú var gefið til kynna þegar hæstv. forsrh. las tilkynningu ríkisstjórnarinnar í upphafi þessarar umræðu að það kynni að vera að hæstv. ríkisstjórn hefði á þessu aðra skoðun. Mér er þó ekki kunnugt um að hæstv. ríkisstjórn hafi með formlegum hætti

fallið frá þeim fyrirvara sem þarna var gerður. Með skírskotun til þess sem hæstv. forsrh. sagði um þetta efni í yfirlýsingunni er nauðsynlegt að það liggi fyrir í þessari umræðu og áður en þingmenn fara á þing Norðurlandaráðs hvort hæstv. ríkisstjórn stendur enn að fyrirvaranum sem hæstv. fjmrh. gerði eða hvort hún muni með formlegum hætti fyrir þing Norðurlandaráðs tilkynna að hún sé fallin frá þessum fyrirvara. Um þetta var spurt í upphafi umræðunnar. Við því hafa ekki enn fengist svör. Ég ítreka að lokum, frú forseti, að ég óska eftir að fá skýr svör við þessari spurningu.