Frsm. minni hl. fjh.- og viðskn. (Matthías Bjarnason):
    Herra forseti. Að sjálfsögðu tel ég eðlilega brtt. þá sem hv. frsm. meiri hl. nefndarinnar lýsti, um það að verði frv. þetta að lögum þá öðlist lögin þegar gildi. Því sennilega er nú til lítils barist við framlagningu og afgreiðslu mála ef gildistakan gleymist. Það fer ekki á milli mála.
    Ég vil fyrir hönd okkar sem skipum minni hl., ég ásamt hv. 11. þm. Reykn., segja það að við gerum hvorki athugasemdir við 1. eða 2. gr. frv. Það má segja að úr því sé bætt með því að bæta varamönnum inn í Verðlagsráðið. En við erum andvígir 3. gr. frv. Við teljum að það sé skref aftur á bak að fela verðlagsyfirvöldum að fjalla um gjaldskrár orkuvinnslufyrirtækja og dreifiveitna. Við höfum því látið fylgja okkar nál. fylgiskjöl sem eru umsögn Sambands ísl. hitaveitna og umsögn Sambands ísl. rafveitna ásamt þremur öðrum fylgiskjölum sem sýna meðalverð Landsvirkjunar á rafmagnssölu til almenningsveitna á tímabilinu 1980--1988 miðað við verðlag í desember á sl. ári og leiðrétt miðað við vísitölu framfærslukostnaðar. Enn fremur er hér yfirlit yfir raforkuverð til almennra heimilisnota 1980--1981 sem er einnig miðað við sama verðlag og fyrra myndritið. Í þriðja lagi er orkukostnaður við hitun íbúðarhúsnæðis 1980--1988, bæði olía án ríkisstyrks, frá RARIK, frá Hitaveitu Reykjavíkur, Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar og Hitaveitu Seyðisfjarðar. Ef við lítum á verðlag samkvæmt þessum myndritum sem hér fylgja sjáum við það að hér hafa ekki orðið óeðlilegar hækkanir á gjaldskrám þessara fyrirtækja og því má segja að breytingin sé sú að það er verið að flytja þessa ákvörðun frá iðnrn. í viðskrn. Ef þessi ríkisstjórn á sér eitthvað lengri lífdaga þá held ég að breytingin hafi ekki mjög mikið að segja, ef ekki verða breytingar á ríkisstjórninni, því að það er sennilega ákaflega létt fyrir hæstv. viðskrh. að ná tali af iðnrh. í þessu sambandi. Þeir gætu þess vegna náð samkomulagi um það hvað þeir telja rétt að fara í þessum efnum þar sem hér er um einn og sama manninn að ræða.
    Það má því segja að það sé svipað fyrirkomulag og hefur verið fram til þessa að öðru leyti en því að það má búast við að þetta fyrirkomulag verði þyngra og gæti því tafið afgreiðslu beiðna um gjaldskrárbreytingar. Það hefur einnig komið mjög til umræðu að litlar dreifiveitur geta lent í vanda vegna 3. gr. Einkanlega hefur verið bent á þau tilvik þegar nauðsynlegt kann að reynast að hækka gjaldskrá töluvert mikið til að standa straum af fjárfestingum sem nauðsynlegar eru. Þá held ég að þetta form sé þyngra heldur en verið hefur í gildi.
    Mér finnst líka ástæða til að benda á að það ber ekki vott um að margar hitaveitur hafi rúman fjárhag um þessar mundir. Það sjáum við á frv. til lánsfjárlaga sem nú liggur fyrir fjh.- og viðskn. í þessari deild. Og það sýnir það betur en allt annað að þau fyrirtæki mörg hver vantar peninga til þess að standa undir skuldbindingum sínum. Ég hygg að það

sé ekki rétt leið í gjaldskrármálum orkuveitna í landinu að halda gjaldskránni það niðri að þessi orkufyrirtæki séu rekin með umtalsverðum halla og mæta svo þeim halla með því að gefa leyfi til erlendrar lántöku eins og lánsfjárlagafrv. gefur ótvírætt til kynna. Það kemur þá að því innan nokkurs tíma að gjaldskrár verða að hækka verulega mikið til þess að standa undir skuldbindingum sem leiða af langvarandi hallarekstri.
    Við getum alveg viðurkennt að það átti sér stað hér fyrir allmörgum árum, sérstaklega á tímabilinu 1970--1980, að gjaldskrám var haldið óeðlilega mikið niðri sem leiddi af sér að gífurlegar hækkanir urðu á gjaldskrám þessara orkufyrirtækja árið 1980. Þetta er ekki skynsamleg leið að fara. Því sé ég ekki ástæðu til þess að fara að breyta því fyrirkomulagi sem er. Það fyrirkomulag hefur reynst ekkert síður, að hafa það með þessum hætti sem nú hefur verið. En ef það á að fara að stefna að því að stórauka halla orkufyrirtækja, þá kemur að því að holskeflan rennur yfir og að verulegar hækkanir verða að koma innan ekki langs tíma.
    Því held ég að þessi 3. gr. frv. sé fremur skaðleg en gagnleg og því leggjum við til í minni hl. nefndarinnar að hún verði felld.