Kristín Halldórsdóttir:
    Virðulegur forseti. Það er nú með þetta frv. eins og flest önnur sem fjh.- og viðskn. fjallar um þessa dagana og afgreiðir nánast á færibandi að harla lítill tími hefur gefist til athugunar. Þetta er þó einfaldara en mörg önnur og því hægt að taka til þess afstöðu án mikillar umþóttunar. Það er hins vegar til marks um ósæmilegt óðagot og forkastanleg vinnubrögð af hálfu framkvæmdarvaldsins og meiri hlutans hér í þinginu að frumvarpshöfundar og aðrir sem bera ábyrgð á framlagningu málsins skyldu gleyma svo sjálfsögðu og nauðsynlegu atriði sem ákvæði um gildistöku.
    Eins og sjá má á þskj. 539 skrifaði ég undir álit meiri hl. og styð þar með frv. þetta þótt mér væri nú raunar skapi næst að gera það ekki vegna þeirra vinnubragða sem okkur er nú boðið upp á. En málefnaleg afstaða hlýtur að ráða í þessu efni sem öðru. Og sem fyrr segir er hér um tiltölulega einfalt mál að ræða.
    Um 1. og 2. gr. frv. mun enginn ágreiningur vera hér í þinginu, heldur breytingar til bóta og þarf ekki að bæta við það sem áður er sagt um þau efni. Um 3. gr. gegnir hins vegar öðru máli en þar er, eins og fram hefur komið, verðlagning á orku frá orkuvinnslufyrirtækjum og dreifiveitum felld undir ákvæði laga um verðlag, samkeppnishömlur og óréttmæta viðskiptahætti.
    Eins og fram kemur í nál. fengum við fulltrúa frá Landsvirkjun á fund okkar til að heyra þeirra viðhorf. Það er hins vegar ekki látið uppi að þeir mæltu, svo sem vænta mátti, mjög gegn þessu ákvæði. Andstaða þeirra er að mörgu leyti skiljanleg. Ég get alveg tekið undir þau sjónarmið, sem m.a. komu fram í máli hv. síðasta ræðumanns og í því nál. sem hann mælti fyrir, að í aðhaldi af þessu tagi felst viss hætta sem er sú að fyrirtækjunum verði skorinn of þröngur stakkur þannig að þau neyðist til þess að taka lán með tilheyrandi kostnaði sem getur að lokum leitt til jafnvel meiri og þungbærari hækkana á verði fyrir þeirra þjónustu en ella hefði orðið. Við þekkjum dæmi þessa frá fyrri tíð eins og hér var minnst á áðan.
    En til þess eru vítin að varast þau og víst er um það að a.m.k. Landsvirkjun er ekki á flæðiskeri stödd. Hún er rekin með umtalsverðum hagnaði og hefur grynnkað verulega á skuldum sínum síðustu árin, sem er auðvitað mjög gott. Ekki veitir af því. Skuldir Landsvirkjunar nema nú um 29 milljörðum kr. og þar af eru um 26 milljarðar erlendar skuldir.
    Ég held að Landsvirkjun og önnur orkufyrirtæki hafi ekkert verra af því að sæta því aðhaldi sem felst í þessu ákvæði 3. gr. og vil mega vænta þess að tekið verði til þess atriðis sem ég nefndi hér áðan, þ.e. að þeim verði ekki undir neinum kringumstæðum þröngvað út í dýrar lántökur sem bitna þá bara á notendum morgundagsins.
    Í trausti þess að verðlagseftirlitið fari vel með sitt hlutverk þá styð ég þetta frv. og vona að það veiti neytendum einhverja vernd gegn þurftarfrekum þjónustufyrirtækjum.