Hreggviður Jónsson:
    Hæstv. forseti. Eins og kom fram í máli hv. 1. þm. Vestf. Matthíasar Bjarnasonar stöndum við saman að nál. um frv. til laga um breytingu á lögum nr. 56 frá 16. maí 1978, um verðlag, samkeppnishömlur og óréttmæta viðskiptahætti. Það þarf út af fyrir sig ekki að rekja þær staðreyndir sem hér hafa komið fram um að í fjh.- og viðskn. hefur þetta frv. og önnur frv. fengið lítinn tíma nú síðustu dagana og þar hefur verið óverjandi óðagot á ferðinni sem m.a. kemur fram í því að í frv. vantar ákvæði um gildistöku.
    Þetta frv. er að vísu ekki stórt í sniðum en það liggur nokkuð ljóst fyrir að afleiðingin af þessu frv. mundi verða mjög slæm. Við höfum áður gengið í gegnum það í þessu landi að það hafa verið stöðvaðar verðhækkanir til orkuvinnslufyrirtækja með þeim afleiðingum að það þurfti að hækka gjaldskrá þessara fyrirtækja mjög mikið að verðstöðvunartímabili loknu. Ég held að það séu nægileg rök fyrir því að það eigi ekki að leggja þetta undir Verðlagsráð. Ég tel að næg trygging fyrir því að orkuverð sé ekki óhæfilega hátt sé það að eignaraðild að orkufyrirtækjunum er auðvitað fólkið í landinu sem hefur kosið sér fulltrúa til að fara með það vald. Það á að tryggja það að þeir fulltrúar hafi ekki orkuverðið óhæfilega hátt og muni gera eins og best er fyrir þjóðina.
    Í umsögnum sem komu varðandi þetta mál, t.d. í umsögn Sambands ísl. hitaveitna, þá er það svo að þeir leggjast eindregið gegn samþykkt þessa frv. og færa fyrir því rök að hitaveitur séu reknar sem þjónustufyrirtæki með lágmarkstilkostnaði. Ég held að þetta sé rétt. Öll sveitarfélög sem hafa komið sér upp hitaveitum reyna auðvitað að reka þessi fyrirtæki eins hagstætt fyrir íbúana og hægt er. Ég tel því að það sé full ástæða til þess að þeir aðilar, sem bera hitann og þungann af rekstri þessara orkufyrirtækja, fái að ráða sjálfir verðlagningu. Ég þykist vita það að þeir muni ekki fara það hátt að það valdi verulegum vandræðum. Ég held að þessi nýja klásúla um að flytja þetta frá iðnrn. til Verðlagsstofnunar sé ekki til bóta.
    Þá kom umsögn frá Sambandi ísl. rafveitna og þeir mæla einnig gegn þessu frv. Það er því ljóst að allir þeir aðilar, sem bera hitann og þungann af þessum málum, eru á móti því að gera þetta með þessum hætti. Er þá greinilegt að það er ekki stuðningur við þetta frv. frá gífurlega mörgum aðilum.
    Við í fjh.- og viðskn. fengum til viðræðu við okkur fulltrúa Landsvirkjunar. Þar kom m.a. fram að erlend lán Landsvirkjunar eru um 26 milljarðar og 3 milljarðar eru í skuldum í innlendu fé. Eins og hv. 10. þm. Reykn. sagði hér áðan hefur á undanförnum árum tekist að grynnka á þessum skuldum. Ég tel að það eigi raunverulega að reyna að gera það áfram og lofa Landsvirkjun að ráða verðlagningunni því að þeir hafa farið mjög vel með hana undanfarin ár. Ef við skoðum fylgirit með nál. okkar Matthíasar Bjarnasonar, 1. þm. Vestf., þá sjáum við töflur um hvernig orkuverð hefur verið á undanförnum árum. Og við sjáum einnig hvernig varð að hækka það mjög

verulega umfram það sem hafði verið eftir að því hafði verið haldið óbreyttu um alllangan tíma.
    Það er því ástæða til þess að vara við því að samþykkja þetta frv. sem mun vafalaust verða til þess að reynt verður að halda niðri orkuverði langt umfram það sem er eðlilegt. Og þar með mun það bitna á framkvæmdum, uppbyggingu bæði á hitaveitum og raforkufyrirtækjum um allt land. Ef við lítum á það að nú nýlega varð mjög alvarlegt ástand í rafmagnsmálum þá getur það bitnað á framkvæmdum til að bæta úr um það á næstu árum. Ég held að við eigum að treysta þeim mönnum sem fara með stjórn þessara mála. Mér sýnist full ástæða til þess. Og mér sýnist einnig að við eigum ekki að vera með of mikil opinber afskipti af verðlagi á þessu frekar en öðru því það er aðeins verið að stuðla að því að við söfnum erlendum skuldum þegar til lengri tíma er litið og það mun skaða okkar þjóðarbúskap í heild. Þessi sífellda árátta að hið opinbera, ríkið sé með puttana í æ ríkari mæli í þessum hlutum er ekki til bóta. Það er nóg að ríkið eigi Landsvirkjun að stórum hluta og bæjarfélög og sveitarfélög um allt land eigi hitaveiturnar, það á að vera næg trygging fyrir því að þessi þáttur sé ekki hækkaður úr hömlu.
    Þegar við höfum farið yfir þau atriði sem eru í fskj. með nál. á þskj. 542, þá hljótum við að gera okkur grein fyrir því að það er eðlilegt að þessir aðilar fái áfram að ráða sinni verðlagningu þannig að við lendum ekki í svipuðu ástandi, eins og ég kom áðan inn á, að það verði sprenging í hækkunum einhvern daginn vegna þess að við höfum haldið verðinu of lágu. Það er til hagsbóta fyrir alla neytendur, fyrir allt fólkið í landinu, að þetta sé gert með þeim hætti að fela þeim mönnum sem stjórna þessu að ákveða verðið í samræmi við það sem þeir telja eðlilegt og rétt.