Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Virðulegi forseti. Það er tilgangur þessa frv. að styrkja stöðu neytenda, einkum þar sem hætt er við að þeir hreppi skarðan hlut í skiptum við markaðsráðandi fyrirtæki. Í raun og veru þarf ekki að segja margt fleira því að þrátt fyrir þær ræður sem hér hafa verið haldnar út frá því sjónarmiði að hér sé verið að setja verðlagshöft á orkufyrirtækin, þá er það ekki rétt lýsing á þessu frv. Frumvarpið felur það í sér að sömu lög gildi um verðákvarðanir orkufyrirtækja og gilda um verðákvarðanir annarra fyrirtækja í landinu. Það vill svo til að orkufyrirtækin hafa flest samkvæmt eðli máls markaðsráðandi stöðu og það skiptir máli að það sjáist vera beitt sama aðhaldi gagnvart þessum opinberu aðilum, sem hv. 10. þm. Reykn. kallaði þurftarfrek þjónustufyrirtæki, að sama aðhaldi sé beitt gegn þeim og öðrum fyrirtækjum sem líka stöðu hafa á markaði. Þá gildir einu að þessi fyrirtæki hafi opinberar stjórnir. Og einmitt á þessum umþóttunartíma sem nú fer í hönd að lokinni verðstöðvun er það mjög mikilvægt að réttlætinu sé ekki einungis fullnægt heldur að því sjáist vera fullnægt vegna þess að nú þarf að vekja fólki traust á því að það verði ekki sprengihækkun á verðlagi þegar verðstöðvun og launabindingu er aflétt. Ég þarf ekki að segja það í fleiri orðum í þessum þingsal að það er mjög mikilvægt að fólk, sem er nú með lausa samninga og er að fara að semja um sín kjör, geti á það treyst að það sama gangi yfir alla í þessu efni. Það er tilgangur málsins en ekki að taka verðákvörðunarvaldið af fyrirtækjunum.
    Eins og ég ræddi nokkuð í framsöguræðu minni hefur það mjög oft verið gagnrýnisefni hjá samningsaðilum á vinnumarkaðnum að þjónustufyrirtæki hins opinbera skömmtuðu sér sjálf ríflegri hlut en hinum væri ætlað sem starfa á öðrum sviðum þjóðlífsins. Það er tilgangurinn með þessum ákvæðum, en alls ekki miðstýring þessara verðákvarðana. Ég tek undir með þeim sem hér hafa talað og sagt að best sé að þessar verðákvarðanir séu hjá þeim sem fjárhagslegu ábyrgðina bera. Þannig er það reyndar samkvæmt þeirri tillögu sem hér er flutt.
    En ég vil gjarnan víkja nokkuð að athugasemdum og spurningum sem fram komu hjá hv. 1. þm. Reykv. við 1. umr. um frv. hér í hv. Nd. Hann gerði í upphafi sinnar ræðu að umtalsefni að það vantaði gildistökuákvæði í frv. Það hafði ég reyndar nefnt í minni framsöguræðu og ég segi ekkert um það annað en að ég er þakklátur hv. fjh.- og viðskn. Nd. að hafa leiðrétt þessa prentvillu, en tel ástæðulaust bæði af þeim 10. og 11. þm. Reykn. að gera því skóna að þetta lýsi óðagoti eða skorti á vandvirkni í vinnubrögðum því að það er fjarri öllu lagi. Frv. er einfalt í sniðum og ekki á því neinir hnökrar aðrir en þessi prentglöp.
    Síðan kem ég að því sem hv. 1. þm. Reykv. nefndi. Hann taldi að með því að setja þetta ákvæði til bráðabirgða um orkufyrirtækin í lög væri verið að lýsa vantrausti á afskipti stjórnar Landsvirkjunar og Þjóðhagsstofnunar af verðákvörðunum þess fyrirtækis.

Það er, eins og ég hef þegar lýst almennum orðum, alls ekki rétt lýsing á þessu máli. Ég er alveg sannfærður um það að Verðlagsstofnun og Verðlagsráð munu leita til Þjóðhagsstofnunar um hennar álit á því sem Landsvirkjun kann að leggja til á þessum sex mánaða tíma. Og eins og mun hafa komið fram hér við umræður um annað mál í Sþ. fyrr á þessu síðdegi þá liggur nú fyrir tillaga frá stjórn Landsvirkjunar um breytingu á gjaldskránni sem a.m.k. við fyrstu sýn virðist eðlileg og ekki ástæða til að ætla annað en að hún gangi fram. En ég vil um þetta mál eingöngu segja það að það er þá líka jákvætt og gott ef þetta verður niðurstaðan að það hafi fengið sömu meðferð og t.d. steypustöðvar eða byggingarvörur eða verð á bensíni eða á flugfargjöldum eða á farmgjöldum skipafélaganna.
    Hv. 1. þm. Reykv. vék að því að raunverð á orku hefði lækkað á undanförnum árum og reyndar kom hv. 11. þm. Reykn. og hv. 1. þm. Vestf., frsm. minni hl. nefndarinnar, inn á það mál. Ég vildi beina því til þessara hv. þm. að það er einmitt við slíkar aðstæður sem hætta getur verið á skyndilegri hækkun. Þess vegna er það kannski sérstaklega mikilvægt nú að þarna sé farið fram með fyllstu gát.
    Það er líka rétt, sem kom fram hjá hv. 1. þm. Vestf. og hv. 1. þm. Reykv., að fjárhagsstaða veitufyrirtækjanna er ákaflega misjöfn. En þar þarf að huga að fleiru en gjaldskránum einum. Ég minni t.d. á að nú standa yfir samningaviðræður milli ríkissjóðs, iðnrn., fjvn. og Orkubús Vestfjarða og Rafmagnsveitna ríkisins um yfirtöku skulda hjá þessum fyrirtækjum, en í því felst einmitt viðurkenning á því að þar sé vandinn ekki gjaldskráin, því gjaldskrá þessara fyrirtækja er reyndar hærri en flestra annarra, heldur miklu fremur veik fjárhagsstaða og nauðsyn á skuldbreytingum og afléttingu skulda hjá þessum fyrirtækjum. Það er mikilvægt að það verði vel unnið.
    Ég veit að hv. 1. þm. Reykv. er mér sammála um þetta því að hann stóð sjálfur að stefnumörkun í þessu máli sem byggist á því sem ég hef nú lýst. Og ég treysti á það að hann muni þá styðja það þegar að því kemur. Þetta segi ég til þess að sýna hversu valt það er að ætla sér að fella dóma um verðákvarðanir þessara fyrirtækja eingöngu út frá verðþróun undanfarinna mánaða eða missira. Það er líka mjög misjafnt hversu langt þessi fyrirtæki
hafa seilst til verðhækkana á undanförnum mánuðum. Ég bendi t.d. á að meðalhækkun þeirra veitufyrirtækja hjá rafveitum, sem staðfestingu hafa fengið hjá iðnrn. á árinu 1988 fram að verðstöðvun, var um 18% sem er mjög nálægt meðalverðhækkun á árinu öllu þegar litið er á almenna verðlagsmælikvarða. Líku máli gegnir um hitaveitur. Þar er um 16% að ræða í hækkun að meðaltali. Þetta veit ég að hv. þm. Friðrik Sophusson þekkir.
    Og það sýnir líka að á því ári, þrátt fyrir verðstöðvun, fylgdu breytingar á þessum gjaldskrám nokkurn veginn almennu verðlagi. Gjaldskrá Landsvirkjunar hækkaði hins vegar minna á því ári eða um 12%, ef ég man rétt. Ég er nú að vísu ekki

með alveg nákvæmar tölur á hraðbergi, en ég hygg að ég fari ekki fjarri þegar ég segi þetta. Þetta eru mál sem þarf að athuga og það verður líka gert. Og eins og hv. 10. þm. Reykv. komst að orði þá mun enginn hafa verra af því að fá sömu meðferð og önnur fyrirtæki í landinu, sem byggja sína verðákvörðun á kostnaði við framleiðsluna og aðstæður á markaði, hjá Verðlagsráði og Verðlagsstofnun eins og tillagan gerir ráð fyrir. Hins vegar kem ég aftur að því að það er líka gagnlegt að þarna sé tryggilega um hnútana búið og ekki verði sprengihækkun ef til vill einmitt vegna þess að orkuverðið hefur farið fallandi að raungildi. Þó vil ég að lokum benda á hvað það mál varðar að auðvitað hefur það orkuverð sem skiptir einna mestu máli í heiminum, olíuverðið, lækkað meira að raungildi en innlent orkuverð á því árabili sem hér er til umræðu.
    Ég veit ekki hvort það er ástæða til þess að hafa um þetta miklu fleiri orð. Út af því sem hér var sagt, að verið væri einfaldlega að flytja ákvarðanir frá iðnrh. til viðskrh., vildi ég benda hv. þm., einkum 1. þm. Vestf. og 1. þm. Reykv., sem líka vék að þessu í sinni ræðu við 1. umr., að það er rétt að iðnrh. fer með orkugjaldskrár og staðfestingu þeirra samkvæmt sérlögum um veitustofnanir. En það er auðvitað fyrst og fremst hlutverk iðnrh. í því efni að tryggja að nægilega vel sé séð fyrir kostnaðinum, að verðlagningin sé eðlileg svo fyrirtækin geti staðið undir sér og tryggt örugga afhendingu á orku. Þetta er eðlilegt sjónarmið. Verðlagsráð og Verðlagsstofnun starfa hins vegar samkvæmt sérstökum lögum og það er nákvæmlega það sem þeim er ætlað að gera nú til þess að vekja almenningi traust á því að þarna verði verði stillt í hóf eftir því sem frekast er kostur á umþóttunartíma í kjölfar verðstöðvunar.
    Virðulegi forseti. Ég vona að ég hafi með þessu svarað þeim spurningum og athugasemdum sem fram hafa komið eftir því sem tilefni hefur gefist til og óska eftir því að frv. þetta fái skjóta afgreiðslu.