Hreggviður Jónsson:
    Hæstv. forseti. Það var raunar ekki ætlunin að tala hér aftur en vegna orða hæstv. ráðherra gat ég ekki setið á mér.
    Þegar hæstv. ráðherra talaði um forsendurnar fyrir því að hafa þetta með þessum hætti sem hér er lagt til í 3. gr. frv. varð ég hissa. Forsendan var sú að orkuverð hafi lækkað svo undanfarið að það sé stórhætta á að það hækki allt of mikið og hef ég aldrei heyrt þvílík rök áður, og í öðru lagi að sprengihætta yrði af þeim hækkunum sem kæmu frá Landsvirkjun og orkufyrirtækjum þegar verðstöðvun væri lokið. Í þessu sambandi ræddi hæstv. ráðherra um réttlæti. Og ég verð að segja alveg eins og er að mér datt í hug þegar ráðherrar Alþfl. stóðu hér á þessum stað og predikuðu réttlæti, einföldun og skilvirkni, með nánast hverju einasta frv. sem þeir fluttu. Í hverju er einföldunin fólgin í þessu frv.? Skyldi það vera einföldun að setja þessa ákvörðun undir Verðlagsráð? (Gripið fram í.) Nei, það er ekki það, það gengur í öfuga veru. Ekki er það einföldun. Og er það eitthvert réttlæti að taka ákvörðun frá réttmætum kjörnum fulltrúum sveitarfélaga og kjörnum fulltrúum þings í Landsvirkjun? Er það eitthvert réttlæti? Og skyldi þetta verða skilvirkara? Ekki held ég það heldur. Þó kastaði nú fyrst tólfunum þegar hæstv. ráðherra fór að ræða um það að það mætti ekki hækka verðskrána á meðan á verðstöðvun stæði, en hann minntist ekki á það að skattarnir voru hækkaðir hér allverulega í vetur á heimilin í landinu og má þá minna á matarskattinn sem hæstv. ráðherra barði hér í gegn og íbúðaskattinn sem hann lagði til í vetur sem hefur hækkað hjá sumum um 320% við þær tillögur sem voru hér samþykktar. Skyldi það nú vera réttlæti í verðstöðvun, eða ætlar ráðherrann að segja að það sé tvöfalt siðferði hjá ríkisstjórninni, annað sem snýr að hækkunum til ríkisins, eða ríkisstjórnarinnar, og hitt sem snýr að öðrum aðilum í þjóðfélaginu? Og það að orkuverð skuli hafa lækkað á undanförnum árum skuli vera tilefni til þess að ráðherrann vill nú setja það undir Verðlagsráð því hann er svo hræddur við að það hækki aftur eru hin undarlegustu rök. Ég verð að segja alveg eins og er að ég hef oft heyrt rök flutt fyrir máli en þetta eru hin undarlegustu rök og er erfitt að skilja.
    Ég held að 3. gr. frv., ef að lögum verður, sé hin alversta og afturför og gengi til baka til fyrri ára þegar kerfið var enn þá verra en nú er og ég held að það sé til óþurftar. Eins og kemur fram í frv. til lánsfjárlaga eru þar heimildir til að taka lán vegna skuldbreytinga sveitarfélaga og fyrirtækja þeirra, sem eru hitaveitur og fjarhitun, og það er upp á 332 millj. Ég held að ef sú niðurstaða yrði, að þessi fyrirtæki fái ekki að hækka sín gjöld í samræmi við sínar skuldir, liggi það í augum uppi að þessar upphæðir þurfi auðvitað að vera hærri, enn þá hærri. Er þá hæstv. ráðherra að óska eftir því að við aukum okkar erlendu skuldir sem hafa þó aukist fram yfir allt sem eðlilegt er á undanförnum tveimur árum?
    Ég tek eftir því í málflutningi ráðherrans að hann

vill helst verðlauna allt sem illa er rekið en hamla á móti vel reknum fyrirtækjum. Enn einu sinni er hér verið að reyna að færa til fjármagn með óeðlilegum hætti frá vel reknum fyrirtækjum yfir í illa rekin fyrirtæki. Þar að auki hefur hér áður á þinginu, eins og í vetur og hv. 1. þm. Vestf. nefndi með réttu, snjóað yfir okkur skattaálögum og þeim var auðvitað velt yfir á heimilin í landinu þótt verðstöðvun væri og hæstv. ráðherra hafði engar athugasemdir við það. Þó að allt upp í 320% hækkun á sköttum væri á fólki hér í landinu í ýmsum tilfellum hafði hann engar athugasemdir að gera. Þá var ekki verðstöðvun því þá þurfti ríkisstjórnin að hækka sína skatta en það var allt í lagi með heimilin í landinu á þeim tíma. Þetta er nú tvöfalt siðgæði svo að ekki sé meira sagt.