Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Virðulegi forseti. Ég verð nú að segja það að málflutningur þeirra hv. 1. þm. Vestf. og hv. 1. þm. Reykv. í þessu máli gerist mjög sérkennilegur. Hv. 1. þm. Reykv. tók réttilega fram að vissulega væri þetta neytendaverndarfrumvarp. Það er alveg rétt hjá honum. Honum yfirsást hins vegar hin meginástæðan fyrir flutningi frv. þótt ég lýsti henni bæði í framsöguræðu minni og nú í svörum við fyrirspurnum hans. Hin ástæðan er að það sé nauðsynlegt að það sé sýnilegt jafnræði í verðlagsmálum milli opinberra fyrirtækja og fyrirtækja í einkarekstri á þeim tíma sem nú fer í hönd, tíma kjarasamninga og umþóttunar í verðlagsmálum og kjaramálum. Ég hélt reyndar að hv. þm. hefði skilning á þessu, jafnoft og því hefur verið við borið í þessum kjarasamningum að sjálftökufyrirtæki hins opinbera færu fram á vettvang og hrifsuðu til sín meira en hóf væri á. Þetta er kannski sterkasta röksemdin fyrir tillögu frv. um bráðabirgðaákvæði í verðlagslögum, að setja orkuverðsákvarðanir undir sömu lög og gilda um verðákvarðanir einkafyrirtækja um sex mánaða skeið. Að lýsa þessu með þeim orðum, sem hv. 1. þm. Reykv. gerði áðan, að drepa í dróma og hefta í viðjar og hverfa aftur í tímann með þessar verðákvarðanir er stórkostleg misnotkun á tungunni og verðbólga í orðafari þannig að varla verður látið athugasemdalaust.
    Síðan var hér mikið um það rætt af þeim báðum, hv. 1. þm. Vestf. og hv. 1. þm. Reykv., að raunverð á raforku hefði lækkað og virtust leggja mjög út af því sem ég nefndi, að einmitt við þær aðstæður gæti sums staðar verið hætta á að menn snögghækkuðu verð ef tækifæri gæfist til þess. Þetta þarfnast nú ekki flókinna skýringa. Þetta bara er svona. ( FrS: Það hefur lækkað á síðustu fimm árum.) Já, við skulum ræða um það aftur. Má ég þá spyrja þessa ágætu þm.: Eru þeir að leggja til --- og ég beini því sérstaklega til hv. 1. þm. Vestf. --- að fólkið úti á landi, á köldu svæðunum, fái 30% hærri raforkureikning núna 1. mars? Reyndar þyrfti hann að hækka um 40% til þess að ná því raunverði orkunnar sem hv. 1. þm. Vestf. lagði hér út af áðan. Er þetta hans tillaga? Ég vildi gjarnan fá svar við því. ( MB: Fulltrúar þess fólks eiga að fá að ráða því.) Já, ég vildi bara fá þitt svar við því hvort þetta væri þín tillaga. Ég tel að þar væri ekki vel að staðið.
    Þegar svona er teflt fram rökum verða menn líka að fá skýr svör. (Gripið fram í.) Nú skulum við ræða það, hv. þm. Þú komst hér inn á og studdir reyndar þá hugmynd sem hreyft var í tíð fyrri ríkisstjórnar að endurskipuleggja fjárhag, breyta skuldum, létta skuldum af skuldugustu orkufyrirtækjum landsins, Orkubúi Vestfjarða og Rafmagnsveitum ríkisins. Það er verk sem vinna þarf og má ekki og á ekki að leysa með skyndihækkunum á gjaldskrám þessara fyrirtækja. Þetta veit ég að hv. þm. eru mér sammála um, þeir eru hér bara í eins konar málfundaæfingum sem ég á erfitt með að skilja, en reyndar veit ég að þeir eru slyngir við það stundum, sérstaklega hv. 1. þm. Vestf. Matthías Bjarnason sem ég hef hlustað á halda

skemmtilegar ræður í 40 ár. ( FrS: Og ekki lært meira en þetta?) Mikið lært af hv. 1. þm. Vestf. ( Gripið fram í: Ekki nóg.) Enn gefst tækifæri til þess að læra nokkuð af honum, en hér í dag skjöplaðist honum mjög.
    Þá kem ég að því sem var hin talan sem nefnd var í þessum umræðum. Það voru ekki 30%, nei, það voru 300%, sem nefnd voru hér af hv. 11. þm. Reykn., sem átti að vera einhvers konar lýsing á skattahækkunum hér að undanförnu. Mig langar því til að nefna nokkrar tölur. Að vísu verð ég að játa það að þær eru dálítið lægri en 300%. Það er nefnilega þannig að á þessum tíma sem liðinn er frá því að verðstöðvun var hér á sett í lok ágúst, fimm mánuðina frá september til febrúar, hækkaði verðlag í landinu um u.þ.b. fjóra af hundraði. Fjórðunginn, 1%, af þeirri hækkun má rekja til breytinga á óbeinum sköttum. Þetta eru nú staðreyndir málsins og ég bið menn að gæta þess þegar þeir varpa fram tölum í umræðum um það sem hér hefur verið að gerast í verðlags- og skattamálum að velja þær nokkuð meira við hóf en hér var gert.