Ólafur Þ. Þórðarson:
    Herra forseti. Sú umræða sem hér hefur farið fram virðist nokkuð hafa farið út um víðan völl. Vissulega er efnislegur ágreiningur en sum af þeim rökum sem menn hafa notað hér vekja undrun mína. Það vakti þó mesta undrun mína þegar hv. 1. þm. Reykv. fullyrti að rafmagn til húshitunar væri niðurgreitt og tók sem dæmi í rökstuðningi með þeirri fullyrðingu að það væri ekki greiddur söluskattur af þessu rafmagni. ( FrS : Til íbúðarhúsa.) Til íbúðarhúsa. Ef þessi fullyrðing er tekin alvarlega en ekki bara sem eitthvert gaspur hér verður þetta ekki skilið á annan veg en þann að hann líti svo á að upphitunarkostnaður Reykvíkinga sé niðurgreiddur því það er ekki greiddur söluskattur af upphitunarkostnaði hér þegar heitt vatn er keypt til húshitunar. Ef enn má taka hann alvarlega og trúa því að öll hugsun um niðurgreiðslur sé framsóknarmennska, hrein og klár, er hann að lýsa því hér með yfir eða játast undir þá stefnu, sem framsóknarmenn hafa stundum haldið fram, að niðurgreiðsla eigi rétt á sér, að hann leggi til að þessu verði breytt og það verði settur söluskattur á heitt vatn hér á landi. (Gripið fram í.) Ég sé að hv. 1. þm Reykv. er þegar farið að líða illa og skyldi engan undra því að hann var í sínum málflutningi kominn út á svo hættulegan ís að hann nær ekki landi. Og þegar hann lýsir því svo yfir að hæstv. iðnrh. sé orðinn framsóknarmaður spyr maður náttúrlega sjálfan sig: Hvað er eftir af heilbrigðri rökhyggju í höfðinu á slíkum mönnum sem halda slíku fram? Ef nokkur er fullkomlega löggiltur krati af þeim sem sitja í ráðherrastól fyrir Alþfl., þá er það Jón Sigurðsson af guðs náð eins og sagt er, sögulega séð og hvernig sem á málið er litið.
    Ég held þess vegna að hv. 1. þm. Reykv. hafi alls ekki áttað sig á samhengi hlutanna þegar hann hóf þessa umræðu um niðurgreiðslurnar. Ég vil bæta því við að ef ætti að selja rafmagn til húshitunar á því verði sem Landsvirkjun hefði áhuga á að selja það á blasir við að það er miklu hagkvæmara að nota olíu til upphitunar og sala á rafmagninu mundi einfaldlega falla niður. Það er nefnilega dálítið til í þessu sem heitir markaðslögmál og þannig standa nú þessi mál í dag að olía er mun ódýrari valkostur til upphitunar en rafmagn ef á að selja það á því verði sem menn eru að tala um.
    Einnig má bæta því við að margar fjarvarmaveitur hefðu af því hreinan hag að nota kol þrátt fyrir þá niðurgreiðslu sem á sér stað á rafmagninu. Við búum nefnilega svo vel í raforkumálum í dag að það er offramleiðsla á rafmagni í landinu. Það er söguleg staðreynd og með því er ég ekki að ásaka einn eða neinn.
    Ég vænti þess að hv. 1. þm. Reykv. gái að sér í sínum vopnaburði þegar hann ræðst gegn þessu frv. og gangi ekki svo harkalega fram að mál hans verði ekki skilið á annan veg en þann að nú sé þjóðarnauðsyn að stöðva niðurgreiðslur á orku til upphitunar og það verði ekki gert með öðru móti en að leggja söluskatt á heitt vatn í landinu.