Launavísitala
Fimmtudaginn 23. febrúar 1989

     Frsm. minni hl. fjh.- og viðskn. (Matthías Bjarnason):
    Herra forseti. Þetta frv. um launavísitölu hefur verið til meðferðar í hv. fjh.- og viðskn. þessarar deildar og til nefndarinnar hafa komið til viðræðna fulltrúar frá Alþýðusambandi Íslands og frá Vinnuveitendasambandi Íslands, frá BHMR og frá Verkamannasambandi Íslands og frá Vinnumálasambandi samvinnufélaga og Hallgrímur Snorrason og Gunnar Hall frá Hagstofu Íslands.
    Það er sameiginlegt með öllum viðmælendum nefndarinnar að allir höfðu miklar athugasemdir fram að færa við þetta frv. Það má segja líka að þó að fjórir nefndarmenn skrifi undir nál. og leggi til að frv. verði samþykkt, þá skrifa tveir nefndarmanna undir þetta nál. með fyrirvara þannig að í sjö manna nefnd eru aðeins tveir þingmenn sem mæla með samþykkt frv. án þess að hafa fyrirvara. Það má því segja að það sé hvorki nein ánægja eða gleði hjá þeim sem til hefur verið leitað um samþykkt þessa frv. eða hjá stjórnarliðinu sjálfu.
    Þeir sem skipa minni hl. nefndarinnar eru auk mín: 10. þm. Reykn. Kristín Halldórsdóttir og 11. þm. Reykn. Hreggviður Jónsson. Við leggjum til að þessu frv. verði vísað til ríkisstjórnarinnar.
    Í athugasemdum með frv. kemur fram að því er ætlað að skapa lagalegan grundvöll fyrir útreikningi á mánaðarlegum breytingum á greiddum launum í landinu svo að unnt sé að nota þá vísitölu sem þannig fæst sem þriðjungsþátt í nýrri lánskjaravísitölu samkvæmt reglugerð sem gefin var út 23. jan. sl.
    Frá því að þessi reglugerð var gefin út hafa verið uppi efasemdir um lögmæti þessarar breytingar. Samtök lífeyrissjóða hafa fengið tvo hæstaréttarlögmenn til þess að kanna lagalegar hliðar málsins og þeir hafa nú nýlega skilað sameiginlegu áliti þar sem fram kemur að þeir telja breytinguna ekki hafa stoð í lögum um stjórn efnahagsmála, nr. 13 frá 1979. Af þessu tilefni töldum við rétt að birta í heild sem fskj. með nál. okkar lögfræðilegt álit þessara tveggja hæstaréttarlögmanna sem eru Jón Steinar Gunnlaugsson og Ragnar Aðalsteinsson.
    Í þessu áliti rekja þeir gang þessara mála og lánskjaravísitölunnar sem ég ætla ekki að fara að lesa upp eða ræða ítarlega en ég taldi nauðsyn vera á því að þetta fskj. fylgdi með þessu frv. Frá því að lánskjaravísitala var tekin upp á árinu 1979 hefur hún samkvæmt ákvörðunum Seðlabanka verið samansett af vísitölu framfærslukostnaðar að *y2/3*y og vísitölu byggingarkostnaðar að *y1/3*y. Þetta fyrirkomulag hefur haldið sér allan tímann. En 26. ágúst 1983 birti Seðlabankinn auglýsingu um grundvöll lánskjaravísitölu og þá var ekki gerð nein breyting á samsetningu vísitölunnar en efni auglýsingarinnar var aðeins að ákveða að lánskjaravísitalan skyldi fylgja mánaðarlegum útreikningi sem þá hafði verið tekinn upp nokkru áður um vísitölur framfærslukostnaðar og byggingarkostnaðar. Fram til þess tíma höfðu þær vísitölur einnig verið reiknaðar á þriggja mánaða fresti en síðan verið byggt á spá Þjóðhagsstofnunar um gildi

þeirra þá mánuði sem þær voru ekki reiknaðar út.
    Hæstaréttarlögmennirnir tveir sem senda þetta álit komast að þeirri meginniðurstöðu að ákvæði VII. kafla laga frá 1979 leyfi ekki að tekin sé upp bein viðmiðun við launabreytingar á grundvelli lánskjaravísitölu sem gert var í þeirri reglugerð sem ég vitnaði til og gefin var út í síðasta mánuði. Í öðru lagi að jafnvel þó að gengið væri út frá því að ofangreind niðurstaða sé röng og lögin heimili í sjálfu sér hina beinu viðmiðun við launabreytingar þá verður ekki talið að aðili lánssamnings sé gerður ef gildistíð eldri lánskjaravísitölu þurfi gegn vilja sínum að sæta breytingum á samningi sínum til samræmis við reglugerðina, sem ég vitnaði til áðan og gefin var út í síðasta mánuði, nema slíkt leiði ótvírætt af texta lánssamningsins og er þar vitnað til VIII. kafla þessarar álitsgerðar.
    Fulltrúi BHMR sem mætti á fundi nefndarinnar vakti athygli á grein sem hann hafði skrifað í félagsblað, og fékk nefndarmönnum ljósrit af þeirri grein. Þar kemst hann að þeirri niðurstöðu að hin nýja lánskjaravísitala er keimlík þeirri sem áður gilti, en á henni eru flestir gallar eldri verðtryggingarinnar og að auki tveir nýir ágallar sem ekki verður horft fram hjá. Í fyrsta lagi er frá sjónarhóli stéttarfélaga óréttlætanlegt að einungis spari- og lánsfé sé verðtryggt. Í öðru lagi felur hin nýja lánskjaravísitala einnig í sér sjálfvirkni til verðhækkana sem er óæskileg en kerfislæg. Í þriðja lagi er erfitt að mæla með viðunandi hætti launaþátt hinnar nýju vísitölu. Og í fjórða lagi er frá sjónarhóli stéttarfélaga óréttlætanlegt að binda afkomu spari- og lánsfjáreigenda við afkomu launamanna þegar afkoma launamanna er í algjörum botni. Þetta kom fram hjá fleiri fulltrúum launþega sem um málið hafa rætt.
    Ég tel að eins og málum er háttað sé afar hæpið hjá hæstv. ríkisstjórn að halda áfram með gang þessa frv. Við sem skipum minni hl. nefndarinnar teljum því óhjákvæmilegt að Alþingi afli þegar lögfræðilegrar álitsgerðar, t.d. hjá Lagastofnun Háskóla Íslands, á því hvort margnefndar breytingar á grundvelli lánskjaravísitölu séu í samræmi við gildandi lög. Fyrr en það álit liggur fyrir eru tæpast efni til viðamikillar umfjöllunar um einstök efnisákvæði frv. Þó verður ekki hjá því komist að benda á að það er varhugavert að ganga til
mánaðarlegra mælinga á launakjörum því að árstíðabundnar sveiflur í atvinnulífinu leiða til misvísandi upplýsinga um launaþróun frá einum mánuði til annars. Nær væri í þessu sambandi að miða við ársfjórðungslegar upplýsingar svo sem gert er í Fréttabréfi kjararannsóknarnefndar. Það er auk þess skoðun minni hl. nefndarinnar að tímasetning þessarar breytingar, sem felur í sér stórlega aukið vægi launa í lánskjaravísitölunni, sé alröng eins og nú er ástatt. Einnig gæti birting opinberrar, lögformlegrar launavísitölu haft ýmis hliðaráhrif, t.d. svo kölluð spíraláhrif, sem og að vísitalan gæti kynt undir óraunhæfum væntingum og kröfugerð utan kjarasamninga.

    Með tilliti til þessa sem segir í nál. og þess sem ég hef nú þegar sagt, þá er það tillaga minni hl. fjh.- og viðskn. að frv. verði vísað til ríkisstjórnarinnar.
    Ég endurtek að enginn hefur lýst yfir neinni ánægju með frv. en allir viðmælendur og yfirgnæfandi meiri hl. fjh.- og viðskn. eru óánægðir með frv. Þess vegna held ég að það væri skynsamlegast hjá ríkisstjórninni að samþykkja tillögu minni hl. nefndarinnar um að hún fái það aftur til meðhöndlunar því að ekki veitir af.