Endurskoðun útvarpslaga
Fimmtudaginn 23. febrúar 1989

     Halldór Blöndal:
    Herra forseti. Hæstv. menntmrh. ræddi um söluskattskerfi á komandi árum. Nú er það yfirlýst stefna ríkisstjórnarinnar að virðisaukaskattur verði tekinn upp hinn 1. janúar 1990 og var samþykkt frv. þess efnis fyrir áramótin og liggja fyrir um það yfirlýsingar m.a. forsrh. að virðisaukaskattur verði tekinn upp hinn 1. janúar 1990. Ber að skilja ummæli hæstv. menntmrh. á þá lund að ákvörðun hafi verið tekin um það í ríkisstjórnarflokkunum að falla frá þeirri ákvörðun og viðhalda söluskattinum á meðan þessi ríkisstjórn er við völd? Hér sé ég að hæstv. sjútvrh. er í salnum og vil jafnframt spyrja hann hvort hann viti um það, sem hæstv. menntmrh. sagði hér, að ákvörðun liggi fyrir um að virðisaukaskattur taki ekki gildi 1. janúar nk. Hæstv. menntmrh. talaði um að söluskattur yrði hér á næstu árum.