Kynbótastöð fyrir eldislax
Mánudaginn 06. mars 1989

     Flm. (Guðmundur G. Þórarinsson):
    Hæstv. forseti. Ég hef lagt fram till. til þál. um kynbótastöð fyrir eldislax. Till. hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta reisa og reka kynbótastöð fyrir eldislax.``
    Þessi tillaga er afar brýn fyrir allt laxeldi á Íslandi, en laxeldi er þegar orðin afar mikilvæg grein hér á landi. Til þess að skýra það vil ég gjarnan nefna nokkrar tölur:
    Árið 1987 var framleiðsla á sláturlaxi á Íslandi um 530 tonn. Árið 1988, eða á síðasta ári, var framleiðsla á sláturlaxi um 1230 tonn á Íslandi, en heildarframleiðsla í laxeldi var álitin vera um þúsund milljónir kr. Á þessu ári er áætlað að framleiðsla á sláturlaxi geti numið um 4 þús. tonnum og þegar á árinu 1990 áætla menn að framleiðsla á sláturlaxi hér á landi verði um 9--10 þús. tonn. Það þýðir framleiðsluverðmæti upp á um 5 milljarða kr., eða sem svarar um 10% af útflutningsverðmætum sjávarafurða.
    Á árinu 1987 unnu 240 manns við fiskeldi. Á síðasta ári, árinu 1988, unnu 318 manns við fiskeldi á Íslandi og þessi tala fer vaxandi.
    Laxeldi er sú grein fiskeldis sem hraðast hefur vaxið á Íslandi.
    Það er enginn vafi á því að ef rétt er á málum haldið þá getur fiskeldi orðið mjög mikilvæg atvinnugrein hér á landi í framtíðinni. Það er erfitt að benda á atvinnugrein sem býr yfir jafnmiklum vaxtarmöguleikum og fiskeldið. Í því sambandi benda menn gjarnan til Norðmanna sem þegar hafa meiri tekjur af laxeldi en af þorskveiðum. Áætlanir Norðmanna benda til að laxeldi þeirra muni framleiða á þessu ári um 120 þús. tonn af eldislaxi, eða sem svarar til um 840 þús. tonna af þorski upp úr sjó, eða um tvisvar og hálfu sinnum meiri þorskveiðar en Íslendingar stunda að jafnaði. Þessi mikla fiskveiðiþjóð, Norðmenn, er því í þeirri stöðu að eldislax er mikilvægasta fiskitegund þeirra og áætlanir sýna að innan tiltölulega skamms tíma verða tekjur Norðmanna af fiskeldi þrisvar sinnum meiri en af öllum fiskveiðum þeirra samanlagt, þó að Norðmenn séu meðal mestu fiskveiðiþjóða heims.
    Þegar horft er á þessa þróun þurfa menn jafnframt að horfa til þess að á Íslandi eru einstæðir möguleikar til fiskeldis, bæði landfræðilegar aðstæður og annað sem þar kemur til, hráefni og aðföng. Möguleikarnir eru því gífurlegir ef rétt er á haldið. En Norðmenn, sem lengst eru komnir í fiskeldi, hafa stundað kynbætur á eldislaxi um 20 ára skeið. Sá eldislax sem Íslendingar nota að mestu eru villtir stofnar þar sem litlar sem engar kynbætur hafa átt sér stað.
    Norðmenn hafa lagt megináherslu á þrjú atriði í sínum kynbótum, þ.e. aukinn vaxtarhraða, síðbúinn kynþroska og aukna mótstöðu gegn sjúkdómum. Árangur þeirra á þessu tímabili í kynbótum virðist benda til að vaxtarhraða megi auka um 3--5% á ári. En 3% vaxtarhraðaaukning á ári þýðir vaxtarhraðaaukningu sem svarar til tvöföldunar á 24 árum. Það er alveg ljóst að með þessum aukna vaxtarhraða eykst samkeppnishæfni Norðmanna mjög en jafnframt vegna þess að þeim hefur tekist að fá fram laxastofna sem hafa síðbúinn kynþroska.
    Íslensku laxastofnarnir verða í stórum mæli kynþroska eftir eitt ár í sjó, eða allt að 70%. Það vita allir sem til þekkja lítillega að kynþroski hefur veruleg áhrif í eldinu. Fóðrið fer að mestu í að þroska hrogn og svil og gæði fisksins minnka. Þess vegna þarf að slátra fiskinum áður en hann kemst á kynþroskaskeið. Það hefur þess vegna gífurleg áhrif að geta náð fram stofnum sem verða seint kynþroska, vegna þess að vöxturinn verður meiri á tímaeiningu eftir því sem fiskurinn er stærri og verð á mörkuðum er háð þyngd laxins. Þ.e. þeim mun þyngri sem fiskurinn er þeim mun hærra verð fæst fyrir hvert kíló. Það er þess vegna afar brýnt ef Íslendingar eiga að ná að fóta sig í þessari grein að hér hefjist kynbætur á eldislaxi hið fyrsta þannig að unnt sé að kynbæta stofna til undaneldis.
    Þingmenn höggva vafalaust eftir því að hér er lagt til að íslenska ríkið reisi og reki kynbótastöð fyrir eldislax. Fyrir þeirri tillögu liggja nokkrar orsakir og skýringar. Í fyrsta lagi eru íslensku fiskeldisstöðvarnar allar mjög ungar að árum. Menn vita það hér að það tekur 3--3*y1/2*y ár frá því að hrogni er klakið þar til unnt er að slátra eldislaxi. Tíminn er þess vegna mjög langur í byrjun án tekna og fjárfestingar miklar. Stöðvarnar eru ungar

og eru þess vegna með fullar hendur við þær fjárfestingar sem þær eru nú með. Hins vegar er tíminn mjög mikilvægur. Hvert ár sem líður tapast í þessum kynbótum. Það er því eðlilegast að ríkið komi inn sem hvati á þessu stigi, reisi og reki slíka kynbótastöð sem jafnframt væri hlutafélag þar sem eldisstöðvunum og öðrum aðilum væri heimilt og kleift að kaupa hlutabréfin og yfirtaka þennan rekstur á einhverjum tíma.
    Kynbætur eru þegar hafnar í Kollafirði á hafbeitarlaxi. Líffræðingar telja að þar sé um öðruvísi kynbætur að ræða vegna þess að þar er leitað að öðrum eiginleikum, þ.e. fyrst og fremst ratvísi, en auðvitað auknum vaxtarhraða líka. Kynbætur sem þar eru eiga þess vegna ekki samleið með beinum kynbótum á eldislaxi þó að um margt séu skyldar. Þeir sem að þessum kynbótum á
hafbeitarlaxinum standa telja sig geta aukið arðsemi í hafbeit um 3--6% á ári með hærri endurheimtum og meiri meðalþunga á sláturlaxi.
    Kynbótastöð fyrir eldislax þarf að vera stödd nálægt sjó. Hún þarf að vera strandeldisstöð. Ég hef slegið því hér fram að strandlengjan við Þorlákshöfn kæmi mjög vel til greina í því sambandi. Slík stöð þarf að vera einangruð vegna sjúkdómahættu. Stofnfiskar yrðu þó fyrst og fremst fluttir til hennar í byrjun og stöðin þarf að vera í einangrun. Aðstaða í þessari stöð þarf að vera til klaks og til seiðaeldis. Þar þarf að vera unnt að geyma stofnfiska og þar þarf að vera hægt að sjá um eitthvert áframeldi, en mjög er unnt að draga úr fjárfestingu í slíkri stöð með því að gera ráð fyrir að seiðin séu síðan alin í nokkrum matfiskastöðvum áfram til sláturstærðar. Rými til eldis þyrfti því að vera takmarkað í sjálfri kynbótastöðinni. Kynbótastöðin gerði svo samning við eldisstöðvarnar um eldi á slíkum seiðum og þar færi síðan fram mæling á þroska fisksins og sláturþunga, athuganir á kynþroska hans og öðru slíku, og val væri framkvæmt í sjálfri stofnfiskastöðinni eftir þær athuganir sem þannig hefðu verið gerðar. Kynbótastöðin gæti síðan selt hrogn í framtíðinni. Reynsla Norðmanna er að þær kynbótastöðvar sem þeir hafa reist séu afar arðbær fyrirtæki.
    Sjálf skipulagningin á kynbótunum þarf helst að vera í höndum sérfræðinga hjá Rannsóknastofnun landbúnaðarins eins og til háttar á okkar landi nú. Sérfræðingar landbúnaðarins hafa þegar mikla reynslu í kynbótum og undirbúningurinn vegna kynbóta á hafbeitarlaxi mun koma að miklum notum við kynbótastöð fyrir eldislax.
    Eins og ég sagði áður tel ég að hér sé um mjög brýnt mál að ræða. Tíminn er að renna frá okkur. Við höfum þegar dregist nokkuð aftur úr í fiskeldi. Það er geysilega mikilvægt að þeir stofnar sem við erum með séu arðbærir og góðir. Það er þess vegna brýnt að reisa og reka kynbótastöð. En stöðvarnar eru sjálfar í bóndabeygju eftir sínar fjárfestingar og eru ekki færar um að ráðast í slíka fjárfestingu eins og er. Þess vegna er mælt með því hér að ríkið reisi og reki slíka stöð sem hlutafélag, sem fiskeldisstöðvarnar og samtök þeirra, tryggingafélög, fjárfestingarsjóðir og aðrir aðilar gætu síðan keypt. Framtíð fiskeldis á Íslandi veltur á því að vel sé að tilraunum og rannsóknum staðið.
    Hæstv. forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði till. vísað til hv. atvmn.