Kynbótastöð fyrir eldislax
Mánudaginn 06. mars 1989

     Eyjólfur Konráð Jónsson:
    Hæstv. forseti. Ég tek aðeins til máls til að fagna því að þessi till. til þál. skuli fram komin. Ég efast að vísu um það að heppilegt sé að ríkið reki slíka tilraunastöð. Ég hef sagt það áður og segi enn að fiskirækt má aldrei styrkja. Þá held ég að illa mundi fyrir henni fara. Menn verða að ná saman eigin fé og taka áhættu ef vel á að farnast í þeim atvinnuvegi, eins og raunar öðrum. Þar með er auðvitað ekki sagt að ríkið eigi ekki að búa í haginn fyrir þessa atvinnugrein, þvert á móti. Eitt af því sem ríkið verður auðvitað að sinna eru sjúkdómavarnir, eftirlit með stöðvum o.s.frv. Það er ljóst að það getur ekki verið á annarra höndum en einhverra opinberra aðila. Raunar nefndi flm. það að um hlutafélag gæti orðið að ræða en það yrði rekið af ríkinu. Það held ég að sé rangt. Ég held að heppilegast væri að fiskeldismenn, og sjálfur er flm. einmitt formaður samtaka þeirra og veit manna best um þeirra erfiðleika og líka þann árangur sem þeir eru að ná, fiskeldismenn hefðu yfirstjórn slíkrar stöðvar. Ríkið mundi geta stundað þar einhverjar takmarkaðar tilraunir að sjálfsögðu eins og það raunar gerir nú þegar að því er lúðueldi varðar, úti á Reykjanesi í samstarfi við stöð í einkaeigu. Ég held hins vegar að þetta ætti ekki að vera ríkisrekið fyrirtæki heldur einmitt hlutafélag þar sem einstaklingar, bæði þeir sem nú stunda fiskeldi og aðrir sem hygðu gott til glóðarinnar, gætu orðið hluthafar.
    Till. fer væntanlega til nefndar og verður þar athuguð. Ég endurtek að ég fagna því að hún skuli fram komin. Í nefnd verður rætt um það fyrirkomulag sem á slíkum rekstri yrði. Þess er raunar að gæta að einkaaðilar hafa nú þegar, a.m.k. í einn áratug, stundað víðtækar kynbætur, en það tekur langan tíma að þær beri verulegan árangur. Ég sagði í áratug, það eru áratugir síðan áhugamenn byrjuðu að stunda kynbætur, í litlum mæli að vísu vegna vanefna. Ef menn bindast samtökum má ríkið gjarnan vera einhver aðili að þessu fyrirtæki, en ég endurtek að ég held að ríkið eigi ekki að reka það.