Lengd skólaárs og samfelldur skóladagur
Mánudaginn 06. mars 1989

     Guðrún Agnarsdóttir:
    Hæstv. forseti. Aðeins örfá orð í sambandi við þær umræður sem hér hafa orðið um þáltill. um lengd skólaárs og samfelldan skóladag. Það er enginn vafi á því að bæði meðal stjórnmálamanna og ekki síður meðal skólamanna og foreldra í samfélaginu er orðin mikil samstaða og mikill hugur á að verulegt átak verði gert í skólamálum. Það er ekki að undra að hv. þm. Birgir Ísl. Gunnarsson viti þetta því að hann hefur nýlega gegnt embætti menntmrh. og því eðlilegt að hann sinni málum eins og þessu. En vegna þess að hann gleymdi að minnast á frv. til laga sem og einnig varðar þetta mál og liggur fyrir þessu þingi, er reyndar endurflutt, þá vildi ég aðeins minna á það. Það er 126. mál þessa þings, flutt af þingkonum Kvennalistans í Ed., Guðrúnu Agnarsdóttur 0g Danfríði Skarphéðinsdóttur, og fjallar um breytingu á lögum um grunnskóla. Sérstaklega lengingu skólatímans, einsetningu skóla, fækkun í bekkjardeildum og ekki síður það að börn geti fengið að matast í skólunum á sínum vinnudegi eins og aðrir sem vinna í þessu þjóðfélagi.
    Þetta eru atriði sem mér fannst rétt að kæmu inn í umræðuna auk þeirra sem hæstv. menntmrh. gat um og eru á döfinni í menntmrn. Ég held að það sé brýnt að við tökum öll höndum saman, finnum til þess fé þar sem fé þarf því sumar þessara framkvæmda eru dýrar. Aðrar varða í raun skipulagsbreytingar og viðhorfsbreytingar og til þeirra þarf ekki mikið fé. Það er ánægjulegt að heyra að hér eru þingmenn úr öllum flokkum sem eru sammála um þetta mál og virðist ekki liggja annað fyrir en að taka höndum saman og ýta kröftuglega og myndarlega á eftir þessum málum eins og okkur öllum ber sem fulltrúum á löggjafarsamkundu þjóðarinnar og foreldrum.