Lengd skólaárs og samfelldur skóladagur
Mánudaginn 06. mars 1989

     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson):
    Virðulegi forseti. Frá því í október hefur verið starfandi í menntmrn. hópur þriggja einstaklinga sem hafa farið yfir þessi mál, lesið allar þær tillögur sem hafa verið lagðar fyrir Alþingi í þessum efnum á undanförnum árum og sömuleiðis allar þær skýrslur sem fyrir liggja. Í hópnum eru Guðrún Ágústsdóttir, Gerður Óskarsdóttir og Jón Torfi Jónasson. Þetta er gert til undirbúnings átaki í þessu efni sem við erum greinilega að komast niður á og verðum þá sjálfsagt líka sammála um nauðsyn þess að afla fjármuna í þessu skyni þegar þar að kemur.
    Varðandi það sem hv. 2. þm. Reykv. sagði um fyrirspurn sem hér liggur þá er málið þannig: Ég hafði hugsað mér að svara henni skriflega í formi skýrslu sem ég legði fyrir þingið þegar drögin að nýrri aðalnámsskrá grunnskóla lægju fyrir. Þau liggja nú fyrir og ég ákvað í morgun að óska eftir því við skólaþróunardeild menntmrn. að hún sendi Alþingi þessi gögn til þess að drögin yrðu prentuð sem fylgiskjal með skýrslunni þannig að þingmenn og þjóðin gætu fengið að sjá hvernig þessu verki miðar og hvernig drögin að aðalnámsskrá grunnskóla líta nákvæmlega út.