Alexander Stefánsson:
    Virðulegi forseti. Ég vil aðeins taka undir það sem hér hefur komið fram í sambandi við þessa þáltill. Það er mín skoðun að Íslendingar eigi að leggja miklu meiri áherslu heldur en hingað til hefur verið gert á að hafa náið samstarf við þær þjóðir sem hér er um að ræða, þ.e. Færeyinga og Grænlendinga. Það er enginn vafi á því að hagsmunir eru þarna miklu augljósari með okkur og þessum þjóðum heldur en hinu stóra samstarfi á Norðurlandaráðsþingum og annars staðar. Það verður miklu raunhæfara. Hérna eru vandamálin sett saman í hnotskurn miðað við það sem augljóst er einmitt á þessum svæðum sem hér um ræðir.
    Ég vil sérstaklega benda á 4. tillöguna, þ.e. um eftirlit með mengun hafsins. Ég held að það væri ástæða til a.m.k. í meðferð utanrmn. sem fær þetta mál að leggja alveg sérstaka áherslu á að það verði skoðað hvort ekki sé mögulegt að stíga það skref sem í þessari tillögu felst, að koma sameiginlega á fót skrifstofu sem hafi það verkefni að vinna að og fylgjast með mælingum á mengun hafsins á þessum vestnorrænu hafsvæðum. Þetta er náttúrlega ekkert smámál eins og hér hefur komið fram. Ég tel að það væri stórt skref stigið ef hægt væri að þvinga fram fyrir frumkvæði Íslands a.m.k. þennan þátt í þessari sameiginlegu tillögu.
    Einnig vil ég benda á 7. tillöguna um markaðssamstarfið. Það er heldur ekkert lítið mál ef þessar þjóðir gætu haft áhrif á það hvernig staðið verður að þessum málum í sambandi við Vestur-Evrópu. Ég held að það væri ekki lítið atriði fyrir okkur Íslendinga að hafa náið samstarf á þessum vettvangi við þessa tvo nágranna í sambandi við það hvernig staðið verður að þeim samningum sem fram undan eru við Evrópubandalagið og allar þær viðræður sem þar koma fram um okkar stærsta hagsmunamál. Þarna er sameiginlegur vettvangur og sameiginlegir hagsmunir miklu, miklu nær okkur heldur en í hinu stóra samstarfi með öllum Norðurlandaþjóðunum.
    Ég vil taka undir það sem hér hefur komið fram að ég tel að þetta samstarf sé mikilvægt en, eins og síðasti hv. ræðumaður kom hér inn á, það er dauðadæmt ef um það verður algjör þögn frá þeim þjóðum sem að því standa, ef aðeins verður komið saman einu sinni á ári og síðan ekkert meira gert. Það kom greinilega fram hjá öllum fulltrúunum sem sátu fundinn á Grænlandi að þetta verður að breytast. Það verður að vera meira en bara að koma saman og ræða málin ef ekkert fylgir á eftir frá viðkomandi þjóðlöndum.
    Þess vegna legg ég áherslu á að það verði a.m.k. einhver slík afstaða tekin hér á Alþingi Íslendinga að það verði eftir því tekið, a.m.k. þannig að það verði hægt að knýja hin þjóðþingin sem að þessu standa til að taka ákvörðun um þessi mál.