Flm. (Friðjón Þórðarson):
    Virðulegi forseti. Ég þakka þeim hv. þm. sem hér hafa tekið til máls um þetta mál. Hv. 18. þm. Reykv. taldi hér vera um mjög sérkennilegt mál að ræða. Mér finnst ekki mega minna gera, þegar þingmenn taka þátt í alls konar undirbúningsráðstefnum og öðrum fundum af slíku tagi kostuðum af ríkinu, en að mál séu kynnt rækilega fyrir þingi og stjórn viðkomandi lands. Að því leyti tel ég mál þetta sjálfsagt.
    Ég þakka hv. 1. þm. Vesturl., sem er varaformaður þessa ráðs, fyrir hans orð og einnig hv. 3. þm. Norðurl. e. sem sæti á í ráðinu og hefur lengi haft hug á þessum málum og sinnt þeim jafnvel lengst manna hér á hv. Alþingi. Ég þakka enn fremur hv. 2. þm. Austurl. fyrir vinsamleg ummæli og tíðindi af þingi Norðurlandaráðs sem nú er nýafstaðið. En einhvern veginn hef ég það á tilfinningunni, þó að ég hafi ekki kynnt mér þau mál sem afgreidd voru á því þingi, að umhverfismálin hafi þar nokkuð horfið í skugga fyrir ,,sameinaðri Evrópu`` sem allir eru svo afskaplega hrifnir af nú á tímum og ætla svo að segja að lögleiða árið 1992. Þó skal ég ekki fullyrða um þetta.
    En um umhverfismálin vil ég segja það að þau eru mjög ofarlega á dagskrá eða efst mála hjá Vestnorræna þingmannaráðinu og þau eru það einnig í norrænni samvinnu. Þó að við höfum haldið sérstakt norrænt þing um þau málefni nú fyrir skömmu í Danmörku, þá höfum við aðeins stigið fyrstu skrefin á því sviði. Það er löng leið enn ófarin áður en umhverfismálin verða komin í það horf sem við getum við unað.