Þórhildur Þorleifsdóttir:
    Virðulegi forseti. Mér þykir leitt af hv. þm. Friðjón Þórðarson hefur skilið orð mín á þann veg að mér þætti málið eða innihald þessarar þáltill. sérkennilegt. Ég átti ekki við það heldur átti ég við niðurlag í fskj. II, þ.e. að þeir sem aðild eiga að Vestnorræna þingmannaráðinu skuli í rauninni þurfa að kvarta yfir viðtökum þeirra mála sem þeir samþykkja á erlendri grund hér heima fyrir. Hafi það ekki komið fram fyrr í máli mínu, þá hef ég sjálfsagt ekki talað nógu skýrt, en innihald þáltill. og þær tillögur sem hér eru nefndar þykja mér allar einmitt af þeim toga að þeim eigi að sýna fulla athygli hér á Alþingi Íslendinga og fylgja þeim eftir í norrænu samstarfi.