Efling hafbeitar á Íslandi
Mánudaginn 06. mars 1989

     Eyjólfur Konráð Jónsson:
    Hæstv. forseti. Ég er meðflm. að þessari till. til þál. og fagna frumkvæði hv. þm. Guðmundar H. Garðarssonar að flytja þetta mál hér. Hv. þm. hefur rakið í megindráttum hver gæti verið rekstrarstaða og væri líkleg rekstrarstaða fyrirtækis sem væri með mjög mikið magn af seiðum sem það sleppti til hafs og svipaðar endurheimtur og við höfum kynnst hér víða á undangengnum árum. Ég get staðfest þær tölur. Hitt er að vísu kannski ekki rétt að það þurfi að kosta 250 kr. að framleiða 1 kg af laxi í strandeldisstöðvum --- ég tala nú ekki um í kvíum. Þar er hægt að framleiða þau og þau eru framleidd fyrir miklu lægra verð þar sem aðstæður eru góðar og nokkur reynsla komin á. Engu síður er ævintýrið enn þá meira í sambandi við hafbeit í stórum stíl heldur en nokkurn tíma þá starfsemi sem núna er aðallega rekin hér á landi þar sem væntanlega verða framleidd um 4000 tonn af laxi í strandstöðvum eða í kvíum þegar á þessu ári og síðan vaxandi á svipaðan hátt og Norðmenn hafa gert og það ævintýri sem þar hefur gerst.
    Norðmenn hafa svo til enga hafbeit og það er ofur skiljanlegt að þeir hafi hana ekki því að þeir hafa leyft að veiða lax í sjó. Og það má segja að öll ströndin meðfram Noregi hafi verið girt af á göngutíma laxins og hann þar af leiðandi verið þar strádrepinn. Og árnar í Noregi eru eins og menn vita meira og minna dauðar, þessar glæsilegu laxveiðiár sem þær voru áður. En nú hafa Norðmenn bannað laxveiðar í sjó, góðu heilli, og það höfum við auðvitað bannað fyrir lifandi löngu, og aðrar þjóðir gera þetta og ég kem að því svolítið síðar að þessi stefna á að ríkja.
    Ef við höldum hins vegar áfram ævintýrinu sem hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson var að draga hér upp fyrir okkur, að ein lítil stöð í Vogum sem nú hefur verið starfrækt í einn áratug gæti með góðu móti sleppt 10 milljón seiðum og fengið 1 milljón til baka, 3 kg hver fiskur að meðaltali, eða eina milljón fiska og menn geta þá reiknað dæmið áfram eins og hv. þm. gerði. Og 10 slíkar stöðvar væri náttúrlega mjög auðvelt að hafa á Íslandi og líka meira að segja 100 slíkar stöðvar því að það er ekki einu sinni svo að í Vogum sé nein á til þess að fiskurinn geti gengið í hana, heldur er þar gerviá. Kalda vatninu er dælt upp af að ég hygg um 10 m dýpi og síðan blandað sjó. Það er búin til þar á. Þetta er hægt að gera um landið allt nærri því, a.m.k. í hverju héraði, að nota þær sprænur sem þar eru, sameina nokkrar litlar ár. Það þarf tiltölulega lítið vatn til þess að laxinn rati sína leið.
    Þetta er því mikið ævintýri sem getur gerst. Það er hins vegar alveg rétt sem hv. þm. sagði að fiskeldi hefur ekki búið við nein þau skilyrði sem allir aðrir atvinnuvegir búa við. Menn vita það væntanlega allir hér að sjávarútvegur fær alveg sjálfkrafa 75% rekstrarlán og landbúnaður það sama, iðnaður það sama, hygg ég. Alls staðar er einhvers staðar opið fyrir eitthvað í þessu bankakerfi sem er nú raunar verið að brjóta allt saman niður og mörg frv. í gangi

núna sem á að keyra í gegnum þingið til þess endanlega að drepa íslensku krónuna og frjálst bankakerfi. Fiskeldið eitt hefur búið við algjör sérskilyrði, þ.e. að hafa hvergi aðgang að fjármagni eins og alls staðar er þó erlendis. Þetta þarf auðvitað að breytast.
    En hv. þm. gat um það að erfitt væri um veðsetningar þegar seiðunum er sleppt til hafs og enginn til að gæta þeirra. Áföll geta líka orðið þar sem seiði eru í eldi upp í matfisk og hafa orðið og munu verða, bæði hér og erlendis, en tryggingakerfið er auðvitað flókið á fyrstu árum hafbeitar því að menn vita með engri vissu a.m.k. hve mikið magn muni skila sér til baka. En jafnvel þótt það væri ekki neitt nærri 10% sem er mjög algengt t.d. í þeirri stöð sem hér var nefnd --- við vitum um Lárós, við vitum um Kollafjörð og við vitum um fleiri tilraunir sem gerðar hafa verið í stórum stíl og þetta hefur jafnað sig upp með kannski um 10% endurheimtum --- jafnvel þótt þær væru ekki nema fimm, sex, sjö, þá er þetta ævintýri líkast.
    En ég vil nota þetta tækifæri til að koma að því að nágrannar okkar Færeyingar, sem ég hef ekkert nema gott um að segja nema það eina kannski sem ég ætla nú að segja, og hef viljað stuðla að mjög auknum samskiptum við, og Grænlendinga að sjálfsögðu, strádrepa íslenskan lax. Það hefur loksins verið sannað. Það var fyrir u.þ.b. 20 árum síðan að sleppt var eitthvað 20 löxum í Skaftá, merktum löxum. Einasta merkið sem skilaði sér var frá Færeyjum. Samt hafa bæði íslensk og færeysk yfirvöld haldið því fram að engar líkur væru á því að okkar lax gengi á þau mið. Nú hefur komið á daginn að eftirlitsmenn, sem auðvitað skoða ekki nema örlítið brot af þeim laxi sem Færeyingar eru að veiða, hafa fundið tólf merkt seiði, öll frá Íslandi. Það er þar með sannað að stórfiskurinn, sérstaklega norðanlands og norðaustanlands, er strádrepinn við Færeyjar. Þeir hvorki mega né geta drepið minni fiskinn. Hann er það smár í marsmánuði og apríl þegar þeir eru að veiðum. Hann á eftir að taka út aðalvöxtinn þar til hann gengur aftur sem sex, átta punda fiskur hingað, hann mega þeir ekki koma með að landi. Þeir drepa þess vegna fiskinn sem er á göngu eða er u.þ.b. að fara að ganga tveggja ára í árnar. Það eru náttúruspjöll ef sá fiskurinn sem lengur er í hafi er strádrepinn með þeim hætti sem Færeyingar
gera. En það versta við allt þetta er að þetta er algjörlega ólöglegt athæfi.
    Samkvæmt hafréttarsáttmálanum eru laxveiðar í sjó bannaðar öllum öðrum en upprunaríkjum. Því ber mönnum skylda til að gæta þess að stofnar séu ekki skertir og líka á náttúrlega að gæta þess að þeim sé ekki útrýmt. Okkur Íslendingum ber skylda til þess eftir hafréttarsáttmálanum að stöðva þessar veiðar Færeyinga. Það eru aðeins undantekningar frá þessu í 66. gr. hafréttarsáttmálans sem um þetta fjallar, þær að muni stöðvun hefðbundinna laxveiða um langa tíð leiða til efnahagslegs áfalls viðkomandi ríkis verði annaðhvort að bæta því ríki þann skaða eða heimila

því veiðar áfram. Færeyingar byrjuðu þessar veiðar lítillega að ég hygg árið 1979 og 1980 þegar hafréttarsáttmálinn var fyrir lifandi löngu orðinn að alþjóðalögum í raun, de facto, og við byggðum allan okkar rétt á einmitt hafréttarsáttmálanum þegar við tókum okkar 200 mílur 1976.
    Því miður voru stofnuð hér í Reykjavík samtök sem enginn vissi nánast af fyrr en seint og um síðir sem héldu síðan fundi einhvers staðar í Bretlandi og gerðu einhverja samþykkt um að Færeyingar mættu veiða eitthvert magn af laxi sem var algjörlega ólöglegt og ekki hefðbundið. Annað gildir um Grænlendinga. Þeir hafa veitt lax miklu lengur og þeir þurfa kannski á því að halda.
    Það er hins vegar rétt að vekja á því athygli hér og nú að þetta er samnorrænt mál og Færeyingar hafa kannski jafngóða aðstöðu eins og við til hafbeitar og við getum gjarnan framleitt fyrir þá seiði og þeir gætu hagnast miklu meira á því að virða hafréttarsáttmálann og hætta laxveiðum. Og Finnar verða knúðir til að gera það líka, að hætta laxveiðum í Eystrasalti og viðurkenna fríverslun í EFTA, það er verið að knýja þá til þess, þannig að lax verði alfriðaður í Norður-Atlantshafi og verði auðsuppspretta allra þjóðanna og ekki síst hafbeitarlaxinn.