Efling hafbeitar á Íslandi
Mánudaginn 06. mars 1989

     Guðrún Agnarsdóttir:
    Hæstv. forseti. Aðeins nokkur orð um þetta ágæta mál. Ég þakka hv. flm. fyrir flutning þess. Ég tel að hér sé um mjög áhugavert og merkt mál að ræða, grein af fiskeldi sem tilraunir hafa þegar verið gerðar með hér á landi og nauðsyn er að styðja við, sérstaklega meðan þetta er á tilraunastigi ef svo má segja. Er miður að hér skuli enginn ráðherra vera viðstaddur þegar þetta mál er rætt og þá einkum hæstv. landbrh. En vegna þess sem kom fram í máli hv. 10. þm. Reykv. rétt áðan vil ég geta þess að fulltrúar flokkanna voru kallaðir á fund hæstv. samgrh. til þess að sýna þeim drög að þeirri reglugerð sem nú hefur verið samin fyrir Tryggingasjóð fiskeldis. Þar kemur fram að einhver stuðningur er væntanlegur fyrir hafbeitina ásamt öðrum greinum fiskeldis. Ég vona að þessi reglugerð fái brátt að líta dagsins ljós en vísa hv. þm. á fulltrúa sína sem sóttu þennan fund.
    Ég vildi aðeins koma hér upp til þess að lýsa yfir þakklæti til þeirra sem hafa flutt till. því ég held að hér sé um mjög mikilvægt og merkt mál að ræða.