Afgreiðsla þingmála
Mánudaginn 06. mars 1989

     Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir:
    Virðulegi forseti. Ég er ekki viss um að ég fari rétt að þessu enda er ég ekki gömul hér á þingi en mér finnst það með ólíkindum, ef maður ætlar að tala um einhver félagsleg málefni, málefni þessara gleymdu hópa, hvað það er erfitt að koma þeim á dagskrá deilda enda taka nú flestir til fóta þegar á að fara að ræða þau. Hins vegar mala menn hérna hver af öðrum þegar verið er að tala um stórgróðafyrirtæki eins og fiskeldisstöðvar og þess háttar.
    Ég átti að vera hérna á mælendaskrá og ég sé að fundartíma er lokið, en ég get ekki á mér setið að segja þetta. Manneskjan er ekki fiskur og fiskur er ekki merkilegri en manneskja.