Umhverfismengun af völdum einnota umbúða
Þriðjudaginn 07. mars 1989

     Júlíus Sólnes:
    Virðulegi forseti. Mig langar til að koma á framfæri örfáum athugasemdum varðandi þetta frv. Í sjálfu sér hljótum við að fagna því að tekið sé á þessu máli, þ.e. komið í veg fyrir umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur. Það vakti nokkra undrun mína þegar það var ákveðið að eingöngu skyldi seldur bjór á áldósum í Ríkinu og reyndar óttast ég mjög þá þróun sem á sér stað hér á landi að drykkjarvörur almennt eru nú nær eingöngu seldar í ýmist áldósum eða í plastdósum, en glerflöskur virðast vera alveg að hverfa hér af markaðinum.
    Í mörgum öðrum löndum er þróunin í þveröfuga átt, þ.e. það er reynt að draga úr notkun áldósa og fara frekar yfir í einnota glerflöskur. Nú kann það að vera að ekki sé hægt að stefna að því hér á landi vegna þess að við brjótum meira gler en aðrar þjóðir að því er virðist. Það er mjög slæmt ástand oft hér í miðbænum eftir helgar t.d. þar sem búið er að brjóta mikið af gosdrykkjaflöskum og má vera að þetta sé ein leið til þess að koma í veg fyrir það. Engu að síður finnst mér það einkennileg stefna að innleiða dósir sem þrátt fyrir skilagjald og ýmsa viðleitni til þess að ná þeim inn og safna þeim saman má búast við að muni menga hér umhverfið á næstunni.
    Úr því að við förum þessa leið engu að síður er sjálfsagt og rétt að búa með einhverjum hætti þannig um hnútana að tryggt sé að þessum dósum verði safnað saman og komið í veg fyrir umhverfisspjöll eins og reyndar kemur fram í frv. Það sem ég staldraði nú aðallega við var 2. gr. þar sem kemur fram að stofna eigi sérstakt hlutafélag, Endurvinnsluna hf., til að taka þetta verkefni að sér. Ég óttast að þarna sé á ferðnni eitt palisander-fyrirtæki ríkisins. Við þekkjum hliðstæðuna frá því að Bifreiðaskoðun Íslands hf. var stofnuð, mikið fyrirtæki og dýrt, og hér er verið að tala um hvorki meira né minna en 100 millj. kr. stofnkostnað til að koma þessu af stað. Einhvern veginn datt mér nú sjálfum í hug að það hefði verið hægt að leysa þetta á miklu einfaldari hátt og vildi kannski spyrja hæstv. ráðherra að því hvort það hefði t.d. verið athugað hvort gera mætti samninga, við skulum segja bara við íþróttahreyfinguna, björgunarsveitirnar, skátahreyfinguna, um það að taka að sér þetta verkefni og vaknar þá upp í mínum huga sú spurning hvort þessir aðilar hefðu ekki fengist til þess að gera þetta fyrir miklu minna verð en þessi stofnkostnaður ber með sér.
    Að öðru leyti hef ég ekki mikið við frv. að athuga, þvert á móti. Ég tel að þetta sé mjög nauðsynleg aðgerð til þess að koma í veg fyrir, eins og ég gat um áður, umhverfismengun af völdum einnota umbúða og vænti þess að þetta fái skjótan framgang.