Húsnæðislánastofnanir
Þriðjudaginn 07. mars 1989

     Flm. (Júlíus Sólnes):
    Virðulegi forseti. Þetta frv. er nú endurflutt. Það var áður lagt fram á þinginu í fyrra en fékk enga afgreiðslu þar frekar en svo mörg önnur þmfrv. Það var þó sérlega athyglisvert hvað frv. virtist koma við kaunin á mörgum þingmönnum gömlu flokkanna sem greinilega voru sakbitnir út af því hvernig þeim hefur tekist að gjöreyðileggja húsnæðislánakerfi landsmanna gegnum tíðina. Þess vegna þvældist þetta frv. mánuðum saman í hv. félmn. Ed. Það var ekki fyrr en komið var undir þinglausnir vorið 1988 að mig minnir að það tókst loksins að fá samþykkt fyrir því í hv. félmn. Ed. að vísa frv. til umsagnaraðila utan Alþingis. Þá var komið fram á sumar og að sjálfsögðu komu þar með engar umsagnir. Það væri því synd að segja að þetta frv., sem þó var lögð mikil vinna í, hafi fengið eðlilega málsmeðferð hér á hinu háa Alþingi. Þess vegna gerum við nú aðra tilraun. Við endurflytjum þetta mál og trúum því að það fái kannski eilítið betri meðferð í meðförum þingsins nú, sérstaklega þó hjá hv. félmn. Ed. þannig að það verði a.m.k. mögulegt að koma frv. út til umsagnaraðila strax að þessari umræðu lokinni.
    Þó vil ég ekki segja að þetta frv. hafi ekki haft einhver áhrif því að sá flokkur sem nú fer með stjórn húsnæðismála í ríkisstjórn virðist hafa lesið frv. spjaldanna á milli og reynt að sjá með hvaða hætti hann gæti nýtt sér ýmsar hugmyndir úr þessu frv. og gert þær að sínum. Því miður hefur svo illa til tekist að þeir góðu menn, sem hafa lesið þetta frv. okkar fyrir hönd Alþfl. sem fer með þennan málaflokk innan ríkisstjórnarinnar, hafa hreinlega ekki skilið hvað málið snýst um. Það er afar sérkennilegt.
    Það var að vísu stofnuð milliþinganefnd, sem allir þingflokkar áttu fulltrúa í, sem fjallaði um endurskipan húsnæðislánamála. Sú nefnd starfaði frá því í mars á sl. ári og lauk störfum einhvern tíma í nóvembermánuði sl. Þar voru þessi mál nokkuð til umræðu, en fengust aldrei rædd á neinum skynsamlegum grunni, heldur lá þá strax fyrir ákveðin tillaga og var ekki frá henni hvikað. En við eigum áreiðanlega eftir að fá tækifæri til þess að ræða það frekar þegar hæstv. félmrh. kemur með frv. sitt um húsnæðismál hér til meðferðar í þinginu --- ef það þá kemst nokkurn tíma í gegnum þingflokka stjórnarflokkanna, ef ríkisstjórnin springur þá einfaldlega ekki á málinu eins og hefur verið látið að liggja í sumum blaðanna, a.m.k. hér upp á síðkastið.
    Það sem við vildum fyrst og fremst með þessu frv. okkar er að benda á nýjar lausnir, nýjar leiðir í húsnæðislánamálum. Það er alveg augljóst öllum sem vilja skoða þessi mál að ríkið ræður ekki við húsnæðiskerfið eins og því hefur verið stillt upp, þ.e. að ríkið eitt ætli að standa undir og sjá um öll húsnæðislán landsmanna. Ég held að þetta tíðkist nánast hvergi í víðri veröld að ríkisvaldið í einu landi hafi öll þessi mál á sinni könnu nema þá væntanlega í löndum Austur-Evrópu og í Sovétríkjunum þar sem ráðstjórn er við völd, ( Gripið fram í: Tíbet.) Tíbet kannski, ég skal ekki segja, það er ekki gott að segja,

enda kannski eðlilegt vegna þess að þar er nú væntanlega minna um það að menn eigi sínar íbúðir og hús eins og hér tíðkast. En aðalatriðið í þessu er þetta tvöfalda húsnæðislánakerfi sem við leggjum til og með því ætlum við okkur að styrkja félagslega kerfið, þ.e. að gera ríkisvaldinu auðveldara að sinna aðalverkefnum sínum sem er að tryggja það að þeir þjóðfélagsþegnar sem minna mega sín eigi auðveldara með að komast í eigið húsnæði og fá mannsæmandi íbúðir til afnota.
    Mig langar til að lesa kafla úr grg. frv., með leyfi virðulegs forseta, þar sem einmitt er skýrt út með hvaða hætti við hugsum okkur hlutverk ríkisins:
    ,,Flm. leggja því til að tekið verði upp tvöfalt húsnæðislánakerfi. Í fyrsta lagi sjái ríkið aðeins um lánveitingar til bygginga með félagsleg markmið og til þeirra sem eru að byggja eða kaupa sína fyrstu íbúð. Í þessu skyni verði Byggingarsjóður ríkisins og Byggingarsjóður verkamanna sameinaðir. Eru flm. að undirbúa frv. til laga um breytingu á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins í þessu skyni. Þar segir um hlutverk hins sameinaða byggingarsjóðs ríkisins:
    ,,Úr Byggingarsjóði ríkisins er heimilt að veita lán til byggingar eða kaupa á íbúðarhúsnæði, til meiri háttar viðbygginga, endurbóta og endurnýjunar á notuðu húsnæði, til útrýmingar á heilsuspillandi húsnæði og til orkusparandi breytinga á húsnæði sem hér segir:
    1. Íbúðir fyrir lágtekjufólk (verkamannabústaðir).
    2. Íbúðir fyrir þá sem eru að byggja eða kaupa sína fyrstu íbúð.
    3. Verndaðar íbúðir fyrir öryrkja.
    4. Verndaðar íbúðir fyrir aldraða.
    5. Leiguíbúðir á vegum sveitarfélaga og félagasamtaka.
    Úr Byggingarsjóði ríkisins er enn fremur heimilt að veita lán til byggingar eða kaupa á húsnæði fyrir félagslegar stofnanir á vegum opinberra aðila og félagasamtaka svo sem dagvistarstofnanir fyrir börn og aldraða, hjúkrunarheimili og dvalarheimili.``
    Þetta leiðir af sér að hlutverk Húsnæðisstofnunar ríkisins verður aðallega að annast lánveitingar, hugsanlega með niðurgreiddum vöxtum eða sérstökum skattaívilnunum, til 1) íbúða fyrir lágtekjufólk (verkamannabústaða), 2)
þeirra sem eru að kaupa eða byggja sína fyrstu íbúð, 3) til byggingar leiguíbúða í samvinnu við sveitarfélög, félagasamtök og hagsmunasamtök launþega, 4) til byggingar verndaðra íbúða fyrir aldraða og öryrkja, 5) til að takast á við sérstök verkefni félagslegs, tæknilegs og fjárhagslegs eðlis.
    Samkvæmt þeim upplýsingum, sem flm. hafa fengið, munu þeir sem þannig ættu rétt á húsnæðislánum hjá Húsnæðisstofnun ríkisins vera tæplega 40% af þeim sem sækjast eftir lánum til byggingar eða kaupa á íbúðarhúsnæði hverju sinni. Ljóst er að mun auðveldara verður fyrir Húsnæðisstofnun að sinna þörfum þessa takmarkaða hóps.``
    Þetta er kannski aðalkjarninn í þessum tillögum

okkar, að gera ríkinu auðveldara að sinna þessu meginhlutverki sínu sem er að sjá um hinn félagslega þátt íbúðakerfisins en að láta almenna kerfið öðrum eftir. Það má rifja það upp að fyrir allmörgum árum sáu lífeyrissjóðirnir um lán til þeirra sem voru að byggja eða kaupa sér íbúðir og þá var um það að ræða að menn gátu bæði sótt til Húsnæðisstofnunar um húsnæðismálalán, sem þá voru svo kölluð, og síðan fengu menn yfirleitt lífeyrissjóðslán þar til viðbótar. En við teljum að með því að samþykkja þetta frv. sé skapaður lagarammi til þess að hægt sé að koma á fót sérstökum húsnæðislánastofnunum, en við hugsum okkur þær þannig að fyrst og fremst lífeyrissjóðirnir, tryggingafélög og bankar geti sameinast um það að koma upp slíkum stofnunum sem taki að sér að sjá um og veita húsnæðislán til allra þeirra sem standa traustum fótum í kerfinu, þ.e. þeir sem þurfa ekki á félagslegri aðstoð að halda og eiga auðvelt með að standa undir lánum með markaðsvöxtum t.d.
    Eins og húsnæðiskerfið er nú rekið þá eiga allir sem greiða í lífeyrissjóði rétt á húsnæðislánum og það hefur auðvitað orðið til þess að þrýstingur á kerfið er geysilegur, það hafa myndast langar biðraðir og þjóðin er komin á algert fjárfestingarfyllerí í húsnæðismálum. Þannig er fyrirhugað að verja 14 milljörðum kr. í húsnæðislán á árinu 1989. Samkvæmt könnun Félagsvísindastofnunar hyggjast aðspurðir, *y2/3*y hlutar allra íbúa höfuðborgarsvæðisins, byggja yfir sig á næstu árum. Það sér hver heilvita maður að það er ekki heil brú í þessu kerfi. Þetta er hrein endaleysa.
    Ég bý í tiltölulega góðu einbýlishúsi vestur á Seltjarnarnesi. Nágranni minn og góðvinur hefur bent mér á þann möguleika að við gætum gert kaupsamning hvor við annan. Við getum ákveðið að kaupa hús hvors annars. Síðan getum við sótt um lán, við greiðum báðir í lífeyrissjóði, til Húsnæðisstofnunar ríkisins. Við förum inn í biðröðina. Þegar við fáum síðan okkar lánsloforð, þá förum við að sjálfsögðu og seljum þau hjá einhverju fjárfestingarfélagi eða því um líku og við skiptum aldrei um hús. Síðan bara hættum við við að kaupa hús hvors annars en höfum fengið umtalsverða fjármuni með því að selja lánsloforðin. Þannig er farið að spila á þetta kerfi sem er gersamlega út úr þeirri mynd sem hlýtur að vera með öllum ráðum að tryggja það að allir landsmenn geti á sem hagkvæmastan hátt fengið þak yfir höfuðið.
    Þá kem ég lítillega að húsbréfunum. Þetta frv. um húsnæðislánastofnanir, sem við endurflytjum nú, er samið að fyrirmynd húsnæðislánastofnana sem tíðkast í Danmörku, Þýskalandi og víðar og hefur verið aðlagað íslenskum aðstæðum. Eins og þessar stofnanir hafa verið reknar í þeim tveimur löndum sem ég nefndi þá hafa þær um áratuga, jafnvel um alda skeið fjármagnað útlán sín með húsbréfum. En það er ekki sama hvernig þetta er gert. Það er a.m.k. alveg ljóst að það verður ekki gert svo nein skynsemi sé í með þeim hætti sem nú stefnir að að verði gert á vegum þeirra sem nú fara með húsnæðismálin, þ.e. á vegum Alþfl., svo mikið er víst. Því að því miður hafa þeir

gjörsamlega misskilið grunnhugmyndina á bak við fjármögnun húsnæðislána með húsbréfum.
    Húsbréfin eru þannig hugsuð af hálfu þeirra sem hafa skipulagt á sínum tíma húsnæðislánastofnanir að fyrir það fyrsta verði að ríkja mikið gagnkvæmt traust milli þeirra sem gefa út húsbréf og þeirra sem kaupa þau. Og það verður ekki gert með öðrum hætti en þeim að húsnæðislánastofnanir, sem fá heimild til þess að gefa út húsbréf til sölu á almennum markaði, verða að vera settar undir mjög ströng lagaákvæði þannig að það verði mjög strangt eftirlit og aðhald með starfsemi þeirra. Þær verða að fá nánast svipaða stöðu og bankar í peningakerfinu þannig að almenningur geti treyst þessum stofnunum á sama hátt og almenningur treystir sterkustu bönkum landsins. Þarna gegnir eftirlitshlutverk félmrh. miklu hlutverki og vegur þungt í lagasetningunni til þess einmitt að treysta þetta öryggi sem verður að vera á bak við útgáfu húsbréfanna.
    Annað meginatriði sem gildir um útgáfu húsbréfanna er það að stofnunin sem gefur út húsbréfin verður alla tíð að hafa örugg veð á bak við húsbréfin og það gerist með þeim hætti einum saman að stofnunin verður sjálf að rannsaka veðhæfni þeirra íbúða og þeirra fasteigna sem hún ætlar að veita lán út á og það verður ávallt að ríkja jöfnuður á milli þeirra húsbréfa sem eru í umferð hverju sinni og þeirra veðskuldabréfa sem stofnunin hefur með höndum og undirrituð eru af lántakendum sem hafa fengið lán hjá stofnuninni. Þetta virðast nú blessaðir kratarnir ekki hafa skilið almennilega því að fyrstu
hugmyndir þeirra voru þær að Húsnæðisstofnun ríkisins ætti að stofna húsbréfadeild. Síðan ætti að prenta einhver stöðluð eyðublöð, moka þeim í fasteignasala landsins, síðan ætti að ganga frá kaupum á íbúðum eins og kaupin gerast þar á eyrinni og síðan færi seljandinn með kaupsamninginn á einhverju stöðluðu formi upp í Húsnæðisstofnun og fengi einhvern bunka af húsbréfum á móti. Þetta er gjörsamlega fráleitt. Að vísu hefur við þá gagnrýni sem ég kom með á þetta fyrirkomulag í seinni tíð verið sett inn það ákvæði að Húsnæðisstofnun hafi hönd í bagga með að meta veðhæfni viðkomandi íbúðar og er það vel.
    Á sínum tíma þegar ég var að kynna mér hvernig húsbréf eru notuð til þess að fjármagna húsnæðislán, þá gerði ég mér ferð til Danmerkur og fékk þar fund með skrifstofustjóra stærstu húsnæðislánastofnunar Danmerkur og sat þar í heilan dag og þessi ágæti maður skýrði út fyrir mér hvernig húsbréfafyrirkomulagið virkar. Ég verð að segja það að eftir að hafa lesið marga doðranta og mikla lagabálka um húsbréfin og húsnæðislánastofnanir þá tel ég að ég sé kominn sæmilega vel inn í þetta kerfi en ekki þó þannig að ég geti af fullu öryggi rætt um það, a.m.k. ekki til jafns við þá sérfræðinga sem hafa kannski sinnt þessu árum saman.
    Mér þótti hins vegar mjög fróðlegt að þegar við störfuðum í milliþinganefndinni og kratarnir voru að tileinka sér þessar hugmyndir, þá kom boð frá danska

sendiherranum hér á Íslandi um það að hann gæti hlutast til um að færustu sérfræðingar Dana á þessu sviði mundu koma hingað til lands til að eiga fundi með okkur og ræða þessi mál við okkur. En kratarnir höfðu nú ekki þörf fyrir það. Þeir sögðust nokk geta fundið út úr þessum hlutum. Þeir þurftu enga aðstoð við það að búa til eitthvert húsbréfakerfi. Það væri nú bara gert á einum eftirmiðdegi, enda er afurðin eftir því.
    Ég tel mig ekki þurfa að fara mjög nákvæmlega ofan í efnisatriði frv. vegna þess að við ræddum það mjög ítarlega í fyrra þegar það var lagt fram og eigum sömuleiðis eftir að ræða hér ítarlega húsnæðislánamál þegar væntanleg frv. hæstv. félmrh. sjá dagsins ljós, ef ríkisstjórnin verður þá ekki sprungin á málinu áður, en mig langar undir lokin að fjalla lítillega um sjálft lánakerfið.
    Við flm. bendum á það í grg. með þessu frv. að það er mikil þörf fyrir að endurskipuleggja sjálft lánsformið og líta betur á lánskjörin. Frá því að lánskjaravísitölulánin voru tekin upp hafa menn lokast inni í þeim farvegi og einblínt á hann og ekki séð neitt annað. Það er hins vegar hægt að hugsa sér húsnæðislánamál með allt öðru formi og á allt öðrum grundvelli og það a.m.k. er mjög einkennilegt að sjá hvert lagafrv. á fætur öðru sett fram hér af hálfu stjórnarflokkanna þar sem í nánast hverju einasta frv. er gert ráð fyrir lánskjaravísitölubindingu á ýmsum fjárhæðum sem koma fram í frv. þegar í stefnuskrá ríkisstjórnarinnar er gert ráð fyrir því að afnema lánskjaravísitölu strax og efnahagsástandið í þjóðfélaginu sé orðið svona viðunandi. En með þessum lagafrv. er hins vegar verið að binda lánskjaravísitöluna um aldur og ævi vegna þess að lagahreinsunin sem þyrfti að fara fram ef lánskjaravísitala yrði nokkurn tíma afnumin er svo viðamikil að ég sé ekki annað en það þyrfti heilt þing til þess eins að hreinsa lánskjaravísitölu út úr öllum mögulegum lögum sem hér hafa verið sett upp á síðkastið.
    Ég tel að það sé alveg ljóst að í félagslega kerfinu eigi að vera með niðurgreidda vexti. Í þeim hugmyndum sem komu fram í milliþinganefndinni sem ég gerði miklar athugasemdir við er hins vegar lagt til að það verði farið upp í markaðsvexti með öll húsnæðislán, hvort sem um er að ræða húsnæðislán á vegum Húsnæðisstofnunar ríkisins eða annarra, og síðan verði farið út í vaxtabætur. Þá á að fara eina ferðina enn að rannsaka hagi fólks, telja börnin og kanna tekjurnar og húsnæðið og síðan á að senda tékk einhvern tíma um mitt ár, einhverjar vaxtabætur vegna þeirra vaxta sem fólkið hafði greitt af húsnæðislánum. Fyrir höfum við barnabætur og við höfðum reyndar húsnæðisbætur og örorkubætur, síðan finna kratarnir væntanlega næst upp að borga út menningarbætur, þeir sem ekki geta farið í leikhús eins og aðrir, og við getum hugsað okkur að það verði matarbætur handa þeim sem hafa ekki efni á því að borga matvæli með söluskatti og skóbætur, það hlýtur að koma líka, ég á alveg eins von á því. Það er því náttúrlega alveg með

ólíkindum þetta kerfi sem verið er að búa til hér þessi árin þar sem kratarnir eru í fararbroddi. Miklu nær væri að þegar þetta tvöfalda húsnæðiskerfi væri komið á legg þannig að félagslegi þátturinn væri hjá ríkinu þá væri hreinlega um að ræða niðurgreidda vexti. Það er langeðlilegast, þannig að fólk viti bara fyrir fram að hverju það gengur. En hjá hinum sem taka lán hjá almennum húsnæðislánastofnunum með fullum markaðsvöxtum verði heimilaður vaxtafrádráttur frá skattskýrslu sem þannig komi ekki til skattlagningar.
    Það er aðeins eitt dæmi enn sem má nefna um húsbréfin, en það er í sambandi við hvernig í ósköpunum ætla menn að reikna vaxtabætur af húsbréfum þegar þau verða seld með afföllum t.d.? Hvernig á að meta afföllin sem verða á
húsbréfunum og hvernig á að reikna það inn í vaxtabæturnar¿ Það er nú enginn ráðherra hér mættur og ég átti svo sem ekki von á því. Ég sé ekki ástæðu til að kalla á hæstv. félmrh. Ég geri ráð fyrir því að hún muni sýna sig hér þegar farið verður að ræða hennar frv. í deildinni og þá má kannski spyrja þessara spurninga. En mig langar svona rétt til að nefna þær hér í framhjáhlaupi.
    Að lokum langar mig rétt til að koma inn á það sem vikið er að í grg. með frv. en það eru hugmyndir um lán með afkomutryggingu. Við komum þar inn á mjög athyglisverðar og nýstárlegar hugmyndir um það með hvaða hætti er hægt að koma í veg fyrir að lántakendur komist í greiðsluþrot vegna skyndilegrar rýrnunar tekna, t.d. vegna makamissis þegar um er að ræða að tveir afla teknanna, vegna langvarandi atvinnuleysis, vegna veikinda og svo margs annars sem getur komið fyrir þannig að tekjur heimilisins lækki. Lán með afkomutryggingum hafa tíðkast sérstaklega í Bandaríkjunum, en þá er í samvinnu við tryggingafélög sett afkomutrygging á lánið þannig að ef tekjur heimilisins lækka vegna sérstakra aðstæðna eins og ég var að nefna, veikinda eða af einhverjum öðrum orsökum, þá greiðir tryggingafélagið mismuninn á greiðslubyrðinni og greiðslugetu viðkomandi. Það var ekki fyrr en núna bara nýlega, fyrir einum tveimur mánuðum síðan að einhver vakti máls á þessu í húsnæðismálastjórn ríkisins. Fulltrúar kratanna þar voru nú fljótir að tala um að þetta væri nú ein vitleysan sem Borgfl. hefði komið með og Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir, hv. þm. Borgfl. í Nd., hefði flutt í Sþ. tillögu um slíkar afkomutryggingabætur sem þeir kölluðu launabætur. Það sýndi sig þannig að þeir höfðu ekki einu sinni gert sér far um að reyna að setja sig inn í hvað málið snýst um heldur rugluðu þeir saman launabótum og afkomutryggingunni. En það voru til allrar guðs lukku aðrir í húsnæðismálastjórninni sem höfðu þó haft rænu á því að reyna að setja sig örlítið inn í það hvað afkomutryggingin snýst um og ég get því glaðst yfir því að það er þó komið svo langt að húsnæðismálastjórn hefur ákveðið að láta athuga og rannsaka með hvaða hætti megi setja upp lán með afkomutryggingu og er það vel.
    Virðulegi forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess að

orðlengja frekar um þetta frv. nú við 1. umr. Megintilgangur okkar flm. var að endurflytja þetta mál til þess að reyna að þoka því áleiðis því að við erum alveg með það á hreinu, og margir þeir aðilar sem við höfum rætt við í húsnæðiskerfinu og víðar eru sammála okkur um það, að hér sé mjög raunhæf lausn á húsnæðisvanda þjóðarinnar. En að sjálfsögðu meðan við sitjum hér í stjórnarandstöðu eru litlar líkur á því að þessi lausn nái fram að ganga nema að stjórnarflokkarnir reyna auðvitað að tína úr henni eitthvað sem þeir telja sig geta yfirfært á sínar eigin hugmyndir og koma síðan fram með þær sem hugmyndir sem þeir hafi sjálfir fundið upp.
    Ég leyfi mér svo að leggja til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. félmn. og 2. umr.