Framkvæmdasjóður á sviði menningarmála
Þriðjudaginn 07. mars 1989

     Flm. (Birgir Ísl. Gunnarsson):
    Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til l. um framkvæmdasjóð á sviði menningarmála sem er að finna á þskj. 195.
    Það er kunnara en frá þurfi að segja að á sviði menningarmála blasa nú við stór og fjárfrek verkefni sem a.m.k. sum hafa verið vanrækt of lengi. Reynslan sýnir að það er erfitt eftir venjulegum leiðum að fá fjármagn á fjárlögum og því nauðsynlegt að leita annarra leiða til að fjármagna þau miklu verkefni sem við blasa.
    Vorið 1986 voru samþykkt á Alþingi lög um þjóðarátak til byggingar þjóðarbókhlöðu, en þau lög voru nr. 49/1986. Samkvæmt þeim lögum var ákveðið að á gjaldaárunum 1987, 1988 og 1989 skyldi leggja á sérstakan eignarskatt er rynni óskiptur til byggingarsjóðs þjóðarbókhlöðunnar. Með samþykkt þessara laga átti að vera tryggt að unnt yrði að ljúka þessu mannvirki á þessum þremur árum samkvæmt þeim áætlunum sem þá lágu fyrir.
    Því miður hefur reynslan orðið sú að fjmrn. hefur reynt að seilast í þessa peninga til almennra útgjalda ríkissjóðs og mun ég aðeins nánar drepa á það á eftir. Engu að síður er ljóst að með samþykkt þessara laga komst á ný verulegur skriður á byggingu þjóðarbókhlöðunnar þótt framkvæmdum muni ekki ljúka á árinu 1989 eins og að var stefnt með samþykkt þeirra laga.
    Lögin um þjóðarátak til byggingar þjóðarbókhlöðu munu falla úr gildi í árslok 1989. Þau fjárlög sem við samþykktum á Alþingi um síðustu áramót voru síðustu fjárlög á gildistíma þeirra laga.
    Frv. það sem hér er flutt gerir ráð fyrir að hinn sérstaki eignarskattur verði áfram innheimtur og að tekjur af þessum skatti renni í sérstakan sjóð sem hafi víðtækara hlutverk en byggingarsjóður þjóðarbókhlöðunnar. Er gert ráð fyrir að stofnaður verði sérstakur framkvæmdasjóður menningarmála sem fái tekjur af þessum skatti og að sjóðurinn fjármagni síðan ýmis brýn verkefni á sviði menningarmála. Þar koma að sjálfsögðu mörg verkefni til greina, en ég vil nefna nokkur sem nú blasa sérstaklega við.
    Þar er fyrst til að taka að ljúka þarf byggingu þjóðarbókhlöðunnar sem allra fyrst. Þjóðarbókhlaðan var samþykkt í tilefni 1100 ára afmælis Íslandsbyggðar, var eins konar gjöf þjóðarinnar til sjálfrar sín og því ekki vansalaust að þessi framkvæmd skuli ekki hafa gengið betur. Ráðgert er að hún hafi forgang við fjárveitingu úr sjóðnum þar til byggingu hennar er lokið.
    Við vitum að mjög hefur skort á að viðhaldi Þjóðleikhússins hafi verið nægilega vel sinnt. Er nú svo komið að húsið þarfnast gagngerðra endurbóta og hefur reyndar verið svo um hríð. Það hafa verið gerðar um það áætlanir hvað slíkt muni kosta og er ljóst að kostnaður er mjög mikill.
    Þjóðminjasafnsbyggingin liggur undir skemmdum vegna skorts á viðhaldi. Sérstök nefnd hefur unnið að áætlun um viðgerðir á húsinu og uppbyggingu safnsins að öðru leyti til aldamóta. Núverandi bygging þarfnast

gagngerðrar viðgerðar og áætlanir eru uppi um viðbyggingu til að bæta aðstöðu safnsins.
    Nýtt hús var keypt fyrir Þjóðskjalasafnið fyrir fáum árum, þ.e. hús gömlu mjólkurstöðvarinnar við Laugaveg. Aðbúnaður Þjóðskjalasafnsins hefur verið afar bágborinn og voru þessi húsakaup hugsuð til þess að bæta úr því og til að auðvelda safninu að gegna því hlutverki sem því er ætlað samkvæmt nýlegum lögum. Ríkisendurskoðun hefur gert skýrslu um þessi húsakaup. Þar kemur fram að hér hefur verið um hagstæð kaup að ræða og að húsið geti hentað vel starfsemi Þjóðskjalasafns. Hins vegar skortir fjármagn til innréttinga og er nauðsynlegt að gera áætlun um það verk.
    Bygging tónlistarhúss hefur verið á döfinni um allnokkurt skeið. Þörfin á sérstöku tónlistarhúsi hefur verið ljós alllengi. Sinfóníuhljómsveit Íslands hefur búið við mjög ófullkomnar aðstæður í Háskólabíói og ýmiss konar annað tónleikahald hefur verið á hrakhólum. Stofnuð hafa verið samtök áhugamanna um byggingu tónlistarhúss og þau hafa unnið gott starf til undirbúnings byggingunni og lagt fram allverulegt fé til að standa undir kostnaði við hönnun hússins, en ljóst er að ríkisvaldið verður að koma myndarlega við sögu með fjárframlögum ef tónlistarhús á að verða að veruleika. Þess vegna er gert ráð fyrir því að veitt verði fjármagn úr framkvæmdasjóði menningarmála til þessa verkefnis.
    Hér hafa verið tilgreind nokkur stór verkefni sem nú blasa við á þessu sviði. Vafalaust mætti nefna hér fleira, en ljóst er að mikil þörf er á sjóði sem þessum sem hafi fastan og öflugan tekjustofn. Talið er að hinn sérstaki eignarskattur muni á árinu 1989 gefa í tekjur 240 millj. kr. samkvæmt frv. til fjárlaga fyrir árið 1989. Af þessum sökum höfum við fjórir þingmenn Sjálfstfl., þ.e. auk mín þau Ragnhildur Helgadóttir, 3. þm. Reykv., Geir H. Haarde, 17. þm. Reykv., og Ólafur G. Einarsson, 2. þm. Reykn., flutt það frv. sem hér liggur nú fyrir um sérstakan framkvæmdasjóð á sviði menningarmála og skal ég nokkuð rekja efni einstakra greina þess.
    Í 1. gr. er kveðið á um að stofna skuli framkvæmdasjóð menningarmála og til að forðast ásælni fjmrn. í tekjustofn þennan er skýrt fram tekið í lögunum að tekjur af hinum sérstaka eignarskatti skuli lagðar í sjóðinn jafnóðum og þær
innheimtast. Enn fremur að sjóðurinn skuli varðveittur í Seðlabanka Íslands og að menntmrh. fari með yfirstjórn hans. Á það skorti verulega í lögunum um þjóðarátak til byggingar þjóðarbókhlöðu að ákvæði um þetta væru nægilega skýr í lögunum. Hins vegar voru allnokkuð skýr ákvæði í reglugerð eins og ég mun nánar víkja að á eftir en fjmrn. gekk á lagið til þess að seilast í sjóðinn þar sem ekki voru nægilega skýr lagaákvæði um þetta efni.
    Í 2. gr. eru tilgreind helstu verkefni sem nú blasa við þessum sjóði og ég hef gert grein fyrir þeim á undan og jafnframt að Alþingi skuli við afgreiðslu fjárlaga ákveða hvernig fé úr sjóðnum skuli ráðstafað til einstakra verkefna.

    Í 3. gr. er fjallað um tekjuöflun til sjóðsins og þar með að frá árinu 1990 skuli leggja á sérstakan eignarskatt er renna skuli óskiptur til framkvæmda á sviði menningarmála samkvæmt því sem nánar greinir frá í lögunum.
    Í 4. gr. er síðan nánari tæknileg útfærsla á þessari skattálagningu. Hún er efnislega samhljóða 2. gr. núgildandi laga nr. 49/1986, um þjóðarátak til byggingar þjóðarbókhlöðu. Eina undantekningin er þó sú að í ákvæðið um að ellilífeyrisþegar skuli ekki greiða þennan skatt er bætt örorkulífeyrisþegum. Frv. um það efni liggur nú fyrir Alþingi á þskj. 85 varðandi breytingu á lögunum nr. 49/1986 og eru flm. hv. 2. þm. Norðurl. e. Halldór Blöndal og fleiri. Þá er viðmiðunartölu varðandi eignarskattsstofninn breytt í samræmi við breytingar á skattvísitölu.
    Greinar 5--7 eru síðan nánari tæknileg útfærsla á þessari skattálagningu og þarf ekki að fara fleiri orðum um það. Að lokum er gert ráð fyrir því að menntmrh. setji nánari reglugerð samkvæmt lögum þessum og þar á meðal nánari skilgreiningu á þeim verkefnum sem skuli njóta framlaga úr þessum sjóði.
    Í 9. gr. er gert ráð fyrir að lögin taki gildi 1. jan. 1990, en þá renna úr gildi þau lög sem nú eru í gildi, þ.e. lögin um þjóðarátak til byggingar þjóðarbókhlöðu.
    Það fór ekkert á milli mála að í síðustu ríkisstjórn voru vil ég segja stöðugar deilur milli menntmrn. og fjmrn. um túlkun á lögunum um þjóðarátak til byggingar þjóðarbókhlöðu og voru ráðuneytin ekki sammála um hvernig túlka bæri þau lög. Ég hafði sem menntmrh. mjög ákveðna skoðun í þeim efnum sem mér finnst rétt að greina hv. þm. nánar frá. Mér finnst nauðsynlegt að Alþingi geri sér grein fyrir hvað fólst í þessari deilu, ekki síst þegar frv. af þessu tagi er nú hér til umræðu. Ég hygg að það verði best skýrt með því að ég lesi upp bréf sem ég ritaði fjmrn. þann 9. maí 1988 þar sem gert var nokkuð yfirlit um stöðu mála þá og hvern skilning menntmrn. hefði á þessu máli. Bréfið er svohljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Að undanförnu hafa farið fram nokkur bréfaskipti milli menntmrn. og fjmrn. eða Fjárlaga- og hagsýslustofnunar um byggingu þjóðarbókhlöðu og fjárveitingar til hennar. Síðast barst bréf frá Fjárlaga- og hagsýslustofnun dags. 29. apríl sl. Í því bréfi kemur fram skilningur á málefnum þjóðarbókhlöðu sem menntmrn. getur á engan hátt sætt sig við og hlýtur að mótmæla. Af því tilefni er nauðsynlegt að rifja eftirfarandi upp.
    1. Í lögum nr. 49/1986, um þjóðarátak til byggingar þjóðarbókhlöðu, segir í 1. gr. að á fjárlögum 1987, 1988 og 1989 skuli lagður á sérstakur eignarskattur er renna skuli óskiptur til byggingarsjóðs þjóðarbókhlöðu. Í greinargerð með frv. segir:
    ,,Frumvarp það sem hér liggur fyrir gerir ráð fyrir því að byggingu þjóðarbókhlöðu muni ljúka á þremur árum með tekjum af sérstökum eignarskatti sem rennur óskiptur til byggingarsjóðs þjóðarbókhlöðu.``
    Lög þessi voru samþykkt á Alþingi 22. apríl 1986.
    2. Þann 6. ágúst 1986 var gert samkomulag milli fjmrn., menntmrn. og Seðlabanka Íslands sem ber

yfirskriftina: Byggingarsjóður þjóðarbókhlöðu samkvæmt lögum nr. 49 6. maí 1986. Í þeim samningi er fjallað um hvernig fara skuli með fé það sem innheimtist samkvæmt hinum sérstaka tekjustofni. Í 4. tölul. þess samkomulags segir: ,,Fjmrn. sér um að allar skatttekjur samkvæmt greindum lögum gangi jafnóðum inn á reikninginn.``
    3. Þann 23. september 1986 gaf menntmrh. út reglur um byggingarsjóð þjóðarbókhlöðu. Birtust þær í Stjórnartíðindum B nr. 409/1986. Í 4. gr. þeirra reglna segir: ,,Tekjur sjóðsins verða jafnharðan og þær innheimtast færðar honum til tekna.`` Reglur þessar voru settar í samræmi við lög nr. 49/1986, um þjóðarátak til byggingar þjóðarbókhlöðu.
    4. Það hefur ávallt verið skoðun menntmrn. að hinn innheimti eignarskattsauki eigi jafnóðum að færast á reikning byggingarsjóðs þjóðarbókhlöðu og styðst sú skoðun ótvírætt við framangreind gögn. Tilgreind tala í fjárlögum skiptir að þessu leyti ekki máli, enda ganga almenn lög fyrir fjárlögum. Hin tilgreinda tala í fjárlögum hefur verið skilin þannig að þar væri fjallað um hvað verja ætti miklu til byggingarinnar af innheimtum skatti fjárlaga ársins, en mismunurinn legðist í byggingarsjóðinn. Þannig áttu að vera til reiðu til framkvæmda á árinu 1988 50 millj. kr. auk þess sem innheimtist á árinu 1987 og ekki var notað til framkvæmda. Það fé átti að leggjast í byggingarsjóð þjóðarbókhlöðu og ávaxtast þar. Í ljósi þess ber
auðvitað að skoða sameiginlegt minnisblað fjmrh. og menntmrh. frá 21. des. 1987, enda var það samkomulag gert til að tryggja eðlilegan byggingarhraða á árinu 1988 í samræmi við áætlanir byggingarnefndar þjóðarbókhlöðu.
    Með vísan til þess sem að framan greinir er það eindregin krafa þessa ráðuneytis að staðið verði að fullu við ákvæði laga nr. 49/1986, um þjóðarátak til byggingar þjóðarbókhlöðu, ákvæði samkomulags ráðuneytanna og Seðlabanka Íslands frá 6. ágúst 1987 og reglna um byggingarsjóð þjóðarbókhlöðu nr. 409/1986. Menntmrn. ber stjórnskipulega ábyrgð á því að ofangreindum ákvæðum sé hlítt og getur ekki sætt sig við annað en eftir þeim sé farið að fullu.``
    Þetta er það bréf sem fjmrn. var ritað þann 9. maí 1988 og ég taldi rétt að gera þingmönnum grein fyrir því. Mér finnst það í raun og veru nokkuð alvarlegt mál að lög sem samþykkt eru á Alþingi skuli sniðgengin á þennan hátt. Nú er það að vísu svo að Alþingi samþykkir lög sem fela í sér ýmiss konar fjárútgjöld, meira að segja ákveðin útgjöld jafnvel í krónutölu eða sem hlutfall af einhverju öðru, en Alþingi sjálft breytir þeim lögum iðulega og það gerist þá venjulega við afgreiðslu lánsfjárlaga. Það hefur ekki verið gert í þessu tilviki heldur standa þessi lög alveg óbreytt ásamt þeim reglugerðum og þeim samningum sem þeim hafa fylgt þannig að mín skoðun er tvímælalaust sú að fjmrn. hafi brotið þau lög sem hér um ræðir með framkvæmd sinni á þeim. Raunar er nauðsynlegt að Alþingi átti sig á því og mér finnst að þingmenn eigi að ræða það betur og

oftar í sínum hópi hvað framkvæmdarvaldið gengur oft á svig við þær ákvarðanir sem Alþingi hefur tekið.
    Ég vek sérstaka athygli á því að það er ein af grundvallarreglum í lögfræði að fjárlög víki ekki almennum lögum til hliðar. Almenn lög gilda fram yfir fjárlög.
    Þessu þótti mér rétt að gera grein fyrir. Í þessu frv. er reynt að setja undir þennan leka að svo miklu leyti sem hægt er, en auðvitað er það Alþingis sjálfs að fylgjast með hvernig lög af þessu tagi eru framkvæmd. Ég taldi sérstaka ástæðu til að gera nokkra grein fyrir þessu atriði málsins í tengslum við þetta frv.
    Ég legg svo til, herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til menntmn. --- það er reyndar spurningin hvort þetta eigi frekar að leggjast til fjh.- og viðskn. deildarinnar --- og til 2. umr. Við skulum huga örlítið að nefndartillögunni.