Framkvæmdasjóður á sviði menningarmála
Þriðjudaginn 07. mars 1989

     Þórhildur Þorleifsdóttir:
    Virðulegur forseti. Ekki efa ég að það liggur góður hugur að baki þessu frv., en þó hlýtur maður að varpa fram þeirri spurningu hvers vegna þurfi að stofna sérstakan sjóð til að standa að annaðhvort endurbótum, viðhaldi eða nýbyggingu menningarstofnana á Íslandi. Hver verður endir á því máli? Verður ábyrgðin endanlega tekin frá ríkisvaldinu og ríkissjóði að standa straum af slíkum byggingum og ef svo er, verða þá ekki menningarbyggingar og stofnanir einhvers konar olnbogabörn sem þarf að afla sérstaks fjár til ef þær eiga að rísa í stað þess að vera eðlilegur hluti af þeim framkvæmdum sem ráðist er í. Eða sjáum við kannski fyrir okkur að öllum framkvæmdum verði síðan hagað á þennan hátt, ekki bara í menningarmálum heldur yfirleitt, að sífellt þurfi að stofna nýja sjóði til að standa straum af því sem þjóðfélagið hefur ákveðið að skuli vera til og skuli blómstra í landinu og jafnvel er talið nauðsynlegt?
    Það er líka erfitt að finna því nokkurn eðlilegan ramma hvað teljist vera menningarstofnanir. Verða t.d. ekki byggð nein byggðasöfn, verða ekki byggðir tónlistarskólar o.s.frv.? Hvar eru mörkin sem draga á? Og ef það á einungis að koma í hlut þeirra sem eiga einhvern ákveðinn hluta eigna að standa straum af menningarbyggingum, erum við þá ekki um leið að vissu leyti að fría almenning því að þetta sé eitthvað sem eðlilegt sé að fé skattborgara renni í?
    Það er þegar talsverð reynsla af svona sjóðum og jafnvel sjóði sem átti að standa straum af byggingu þjóðarbókhlöðu og allir vita hvernig staðið hefur verið við að veita fé til þessa sjóðs. Það má taka mörg fleiri dæmi eins og t.d. Framkvæmdasjóð fatlaðra og Erfðafjársjóð, aðflutningsgjöld sem Ríkisútvarpið á að njóta og er svipt á hverju ári, annaðhvort að fullu eða hluta til, í fjárlögum eða lánsfjárlögum. Trygging umrædds sjóðs á að vísu að vera eitthvað traustari. Það er lagt til að þær tekjur sem sjóðnum eru markaðar renni beint í sjóðinn og hann sé í varðveislu Seðlabanka Íslands. En ég hlýt að spyrja: Er meiri trygging fyrir því að sú framkvæmd haldi en sú sem ákveðin var með lögum 1986 um hvernig standa skyldi straum af kostnaði við þjóðarbókhlöðu? Ef ekki, hverjar eru þá aðferðir og leiðir Alþingis til að knýja framkvæmdarvaldið til að standa við slíka samninga eða ákvarðanir? Og ef Alþingi, sem ekki hefur fundið leiðir til þess hingað til, finnur þær ekki og framkvæmdarvaldið heldur áfram að nota umrætt fé í annað verður þá ekki niðurstaðan sú að búið er að fría ríkisvald ábyrgð og eftir situr tómur sjóður og allir geta þvegið hendur sínar af því hvernig málum er komið?
    Það kann vel að vera að eins og nú er komið málum þurfi sérstakt átak til að reyna að koma meiri hraða á framkvæmdir í menningarstofnunum. Allir vita hvernig ástand Þjóðleikhússins er, hvernig ástand Þjóðminjasafnsins er og hvað þjóðarbókhlaða er skammt á veg komin miðað við það sem hún átti að vera, þessi gjöf til þjóðarinnar. En ef, vegna fyrirhyggjuleysis stjórnvalda um langa hríð, það

reynist nauðsynlegt að gera sérstakt átak og finna til þess sérstakan tekjustofn vil ég samt vara við því að það sé tilgreint í lögum hvaða byggingar eigi að njóta framlags úr slíkum sjóði. Það er enginn sem getur sagt fyrir um hver forgangsröð verður eftir nokkur ár. Það geta verið breyttar áherslur, það geta komið upp mál sem enginn hefur séð fyrir og að vera búinn að nefna nokkur hús í lagagrein finnst mér mjög varhugavert og sérstaklega eitt hús sem Alþingi hefur alls ekki tekið ákvörðun um að byggja, þ.e. tónlistarhús. Nú er ég ekki að segja að það eigi ekki að taka þá ákvörðun á þingi, en sú ákvörðun hefur ekki verið tekin. En húsið hefur þegar verið teiknað og því valinn staður og í rauninni markaður rammi fyrir starfsemi án þess að það kæmi nokkurn tíma til kasta þingsins að fjalla um tilhögun tónlistarmála í því húsi.
    Ef til þess kemur að stofna svona sjóð finnst mér frekar að það ætti jafnóðum að ákveða verkefni þegar einu er lokið, hvaða annað verkefni taki þá við, frekar en festa í lögum langa upptalningu á húsum. Það er alveg fyrir séð, a.m.k. ef ekki verður staðið betur að málum en hingað til, að þessar framkvæmdir taki, ég held mér sé óhætt að segja, áratugi og því ómögulegt að segja fyrir um hvað við þurfum þegar svo langur tími er liðinn.
    Ég vil að vísu ekki, þó ég sé ekki við fyrstu sýn hrifin af að standa svona að framkvæmdum á sviði menningarmála, útiloka þennan möguleika. Vil gjarnan fá að skoða hann betur og fá sjónarmið ýmissa og heyra t.d. hvort ríkisstjórnin ætlar að taka á menningarmálum með myndarlegu móti. Það má líka hugsa sér, og ekkert sem kemur í veg fyrir það að hægt sé að eyrnamerkja fé á fjárlögum með sama hætti og hér er lagt til að sé gert með sérstökum sjóði. Í fljótu bragði sýnist mér að það sé affarasælla að standa þannig að málum en taka út úr þeirri púlíu og setja í sérsjóð sem lagt er til að fjármagnaður sé með þessu móti.