Framkvæmdasjóður á sviði menningarmála
Þriðjudaginn 07. mars 1989

     Albert Guðmundsson:
    Virðulegi forseti. Ég er að mörgu leyti sammála hv. síðasta ræðumanni og þá að sjálfsögðu öllum þeim flm. sem flytja þetta frumvarp. Það er gott frumvarp og hefði mátt sjá dagsins ljós fyrr. En á sama tíma er ég afskaplega óánægður með hvernig fjármál menningarstofnana á að leysa. Með þessu frumvarpi tel ég að Sjálfstfl. fari út fyrir þá stefnu sem hann hefur gagnvart einstaklingnum og get satt að segja ekki sætt mig við frumvarpið eins og það er.
    Nú er hér talað um að mynda stóran framkvæmdasjóð sem ætlað er mikið og merkilegt hlutverk. Það er til að byrja með að klára þjóðarbókhlöðuna eins og það er talið upp í greinargerð, síðan er talað um Þjóðleikhúsið, alla þá miklu fjárfestingu sem þarf til að gera það úr garði eins og þjóðinni sæmir, og svo kemur Þjóðminjasafn, Þjóðskjalasafn og tónlistarhús. Nú er það svo að hér er gert ráð fyrir að það verði lagður á sérstakur eignarskattur til að mynda þennan framkvæmdasjóð menningarstofnana. Við skulum athuga hvað er að ske þar. Er það rétt að láta aðeins þann hluta þjóðarinnar sem borgar eignarskatt sjá fyrir byggingu og kostnaði menningarmála á Íslandi? Það er ekki þjóðarátak. Það er verið að íþyngja þeim sem hafa með sparsemi og gætni í peningamálum orðið eigendur að einhverju. Af hverju að leggja á sérstakan skatt á sama tíma sem þessir sömu aðilar hafa þurft að þola a.m.k. 25% ef ekki 30% hækkun á eignarskattsstofninum? Ofan á hækkandi eignarskattsstofn hefur eignarskatturinn hækkað úr 0,95% í það sem hann var áður 1,1% og síðan tvöfaldaður og ofan á það bætist síðan sérstakur eignarskattur vegna þjóðarbókhlöðunnar. Hvað á þessi eignaupptaka að þýða? Hvers vegna er Sjálfstfl. kominn út í að íþyngja þeim sem hafa treyst honum hingað til hvað best? Þess vegna er það sem ég er með hugmyndinni um sjóðsmyndunina í þessum tilgangi, en algerlega á móti og vara við aðferðinni sem notuð er og er ekkert ný. Hún er alltaf sama kjölfarið. Ef einhver hefur einhverja hugmynd á að sækja það í skatta. Svokölluð þjóðargjöf --- ég var hér á þingi 1974 --- var aldrei ætluð að kæmi bara frá þeim hluta þjóðarinnar sem á eignir. Það er ekki lengur þjóðargjöf. Það er búið að koma því af ríkinu. Alþingi var gjafmilt. Það vildi gefa þjóðinni sinni, sjálfu sér bæði í nútíð og framtíð, en leggur sérstakan skatt á þá þjóðfélagsþegna sem borga eignarskatt. Þetta gengur ekki upp og ég vara við þessu.
    Við skulum byggja á hverjum tíma það sem er okkur til framdráttar sem menningarþjóð og gera það með þeim hraða sem við ráðum við, vera alltaf að gera eitthvað eins og maurarnir þannig að við séum alltaf að skila pínulitlu til framtíðarinnar. En við getum ekki gert allt í einu og við getum ekki lagt allt sem er í þessu frumvarpi á herðar þeirra sem hafa af sparsemi og gætni eignast eitthvað. Þetta er það sem ég sé að þessu frumvarpi. Ég vara við þessu. Þessu þarf að breyta þegar það fer í nefnd. Það gengur ekki að hlaða þannig á eignaaðila að þeir kikni eða að það verði eignaupptaka eins og er nú þegar með þeim

sköttum sem núverandi ríkisstjórn hefur beitt sér fyrir og hafa verið samþykktir á Alþingi nýlega.
    Þeir sem búa í einbýlishúsum eins og ég eru að kikna undan þessum sköttum frekar en nokkrum öðrum. Þingfararkaup, sem er hærra en almennt gerist í landinu, nægir ekki til. Það nægir ekki til. Ég veit um fleiri þingmenn sem ekki geta staðið undir þessum gjöldum. Á svo að bæta við sköttum? Það er ekki svo lítið sem á að bæta við eignaraðila í þjóðfélaginu. Það er þjóðarbókhlaða, Þjóðleikhús, Þjóðminjasafn, Þjóðskjalasafn, tónlistarhús og ýmislegt annað, eflaust miklu meira og fleira en þetta. Þegar sjóðurinn er myndaður þá fyrst byrjar rifrildið um hvernig á að nýta hann. Ég vara við þessu.
    Fyrir mér er ekkert spursmál um hvað er menningarstofnun á Íslandi eða annars staðar. Það eru heimilin í landinu. Þau hafa verið það í gegnum aldirnar, allt frá gömlu og elstu baðstofum fram til þessa dags. Allt sem við erum að gera núna, setja undir hugtakið ,,menningarstofnun``, er til viðbótar starfsemi heimilanna. Það er hrein viðbót sem ekki var til fyrir nokkrum áratugum á mörgum sviðum. Við erum að vísu með þjóðleikhús sem þarf að gera við, en við erum að fá annað eins leikhús núna í borgarleikhúsinu. Ég held að við ættum að fara svolítið hægar, en vera alltaf að þannig að við eignumst endanlega það sem við erum að öfunda aðrar þjóðir af að hafa gert fyrr á öldum. Við erum nefnilega ungt þjóðfélag. Ef við hugsum svolítið til baka þau 40 ár rúm sem við höfum verið sjálfstæð þjóð að öllu leyti, skulum við segja, hefur allt byggst upp frá þeim tíma og á þeim áratugum. Það var hér ekkert fyrir. Það var bókstaflega ekkert fyrir. Danir skildu ekki eftir menningarverðmæti að neinu verulegu leyti þegar þeir fóru --- í byggingum á ég við. Við erum að byggja upp þjóðfélag. Við getum ekki gert allt í einu. Það eru ekki peningar í landinu og þess vegna er það sem við höfum þurft að fá peninga annars staðar frá.
    En ég ætla að ljúka máli mínu með því að segja: Ég er samþykkur þessari hugmynd, hún á rétt á sér og þó fyrr hefði verið, en ég er algerlega að lífsskoðun á móti fjármögnunaraðferðinni. Ef við eigum að byggja yfir menningarverðmæti fyrir þjóðfélagið í heild þýðir ekki að leggja kostnaðinn á þá eina sem eru eignarskattsgreiðendur.