Framkvæmdasjóður á sviði menningarmála
Þriðjudaginn 07. mars 1989

     Hreggviður Jónsson:
    Hæstv. forseti. Hér liggur fyrir frv. um framkvæmdasjóð á sviði menningarmála sem er ágæt tillaga eins langt og hún nær.
    Það er ágætt að hafa framkvæmdasjóð fyrir menningarmál. En það er svo komið að eignarskattsstofn er að verða með þeim hætti að það líkist einna helst þeim löndum, Tékkóslóvakíu, Búlgaríu og öðrum löndum, þar sem eignir manna voru gerðar upptækar með þessum hætti. Nú þegar er eignarskattsstofninn orðinn 3,45%. Með þessu til viðbótar yrði hann 3,7% og miðað við fasteignagjöld og önnur gjöld sem leggjast á er skatturinn um 4,5% sem leggst á fasteignir í hæstu þrepum. Þetta er svo há skattprósenta að það verður að teljast undur að þingmenn Sjálfstfl. skuli leggja fram tillögu um að auka þetta. Það verður að teljast undur.
    Það er nóg komið af þessum sérstöku sköttum á húseigendur og á þá sem hafa sparað til að reyna að eignast smáeignir og það er óþarft að leggja enn frekari skatta á þá. Það að höggva í sama knérunn enn einu sinni sýnir að hér á Alþingi er alls ekki skilningur á því hvað hér er um að vera. Ríkisstjórnin hefur þegar hækkað eignarskatta gífurlega mikið og núna vilja sjálfstæðismenn ráðast á fólk sem á eignir og leggja á það enn þá meiri skatta en nokkru sinni áður, eignarskatta. Þetta, verð ég að segja sem fyrrverandi sjálfstæðismaður, gengur algerlega í berhögg við alla stefnu þess flokks, a.m.k. á meðan ég var þar. En það er sennilega orðin stefnubreyting þar síðan þannig að nú á að leggja nógu mikið á þá sem hafa sparað og eiga einhverjar eignir. Þetta er eitt það versta sem ég hef séð frá þeim flokki lengi. Ég minni á að ég er með frumvarp, sem verður tekið til umræðu hér fljótlega, um tekju- og eignarskatt, að fella niður eignarskatt á íbúðarhúsnæði sem er það eina rétta í þessari stöðu. Það er sú stefna sem ætti að vera því hvergi í heiminum, hvergi, menn geta leitað m.a.s. til skattalandanna eins og Noregs, Svíþjóðar, Danmerkur, eru lagðir á svona háir eignarskattar.
    Sérstaklega ber að hafa í huga að menn hafa þegar greitt þrisvar sinnum skatta af þeim eignum sem þeir eiga, húseignum. Það er í fyrsta lagi þegar þeir greiða af sínum tekjum, í öðru lagi þegar þeir greiða skatta af því efni sem þeir kaupa til húsbygginga og í þriðja lagi borga þeir skatta sem vinna við húsbyggingar þannig að hér er raunverulega orðin margsköttun á þessum skattstofni.
    Það er sorglegt að vita til þess að Sjálfstfl. skuli hafa tekið upp þetta frv. til að leggja sérstakan eignarskatt á húseigendur í viðbót við það sem fyrir er og er alger stefnubreyting hjá þeim flokki þannig að hann verður að teljast núna til vinstri flokks í skattlagningu. Hann er ekki lengur hægri flokkur. Ég verð að segja eins og er að þessi vinstri stefna sjálfstæðismanna kemur mér alveg á óvart og gengur svo langt að hún gengur lengra en ríkisstjórnin gerir í sínum skattafrumvörpum og er þá mikið sagt.