Lánskjör og ávöxtun sparifjár
Þriðjudaginn 07. mars 1989

     Flm. (Eggert Haukdal):
    Herra forseti. Fyrir rúmu ári síðan eða í desember 1987 lagði ég fram hér á Alþingi frv. til laga um lánskjör og ávöxtun sparifjár. Megininntak þess frv. var afnám lánskjaravísitölu. Í staðinn skyldi tekin upp gengistrygging á langtímainnstæðum. Jafnframt skyldu vextir færðir niður í áföngum þannig að þeir yrðu að ári liðnu svipaðir og í helstu viðskiptalöndum okkar.
    Um frv. urðu miklar umræður þegar það var til meðferðar á Alþingi í febrúarmánuði á sl. vetri. Frv. átti mikinn hljómgrunn úti í þjóðlífinu en takmarkaðan hjá ráðandi mönnum. Í stað þess að samþykkja frv. var því vísað til ríkisstjórnarinnar.
    Ég hef leyft mér að endurflytja þetta frv. og mæli hér fyrir því. Meginatriði þess er sem fyrr afnám lánskjaravísitölu.
    En hvernig hafa þessi mál þróast frá því að frv. var lagt fram fyrir liðlega ári síðan? Segja má að unnið hafi verið eftir frv. að hluta þó að það hafi ekki verið samþykkt, þ.e. vextirnir hafa verið færðir niður í áföngum og gengistenging tekin upp. Beitt hefur verið handafli bæði af fyrrv. stjórn og núverandi með verðstöðvun, kaupstöðvun og vaxtalækkun. Farið hefur verið fram með valdboði eins og frv. sagði fyrir um. Vegna þessara valdboðsaðgerða hækkaði lánskjaravísitalan lítið um nokkurra mánaða skeið. Það sést best í dag að vaxtafrelsið sem var innleitt í tíð fyrri ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar var ekki rétt aðgerð.
    Þjóðfélag okkar er lítið og lögmál viðskiptalífs stórþjóða eiga hér ekki við nema að vissu marki. Að sjálfsögðu þurfa sparifjáreigendur að fá eðlilegt eftirgjald fyrir peninga sína, en það verðtryggingarkerfi sem við notum þekkist hvergi í nálægum löndum, enda eru verðbólga og vextir þar hóflegir. Við notum hins vegar kerfi eins og vanþróuð lönd í Suður-Ameríku þar sem verðbólga er mörg hundruð prósent á ári.
    Afnám vitlausra vísitalna er grundvallaratriði til að halda verðbólgunni í skefjum. Því á ekki að hafa það ráð sem tekið var upp í fyrri ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar, að afnema kaupgjaldsvísitöluna en láta lánskjaravísitöluna mala. Báðar áttu og eiga að fara.
    Í desember sl. var opinber verðbólga komin niður undir núll með handaflsaðgerðum. Þá var lag að afnema lánskjaravísitöluna. En þá tók ríkisstjórnin það ráð í miðri verðstöðvun að fara að fóðra verðbólguna á nýjan leik svo um munaði með stórfelldum skattahækkunum og gengislækkun sem hækkaði vöruverð í landinu þannig að verðbólgan fór á ferð á nýjan leik. Vegna þessara aðgerða einna hækkaði allt í einu venjulegt húsnæðislán um á annað hundrað þús. kr. Og nú við lok verðstöðvunar er heldur betur kynt undir verðbólgunni með verðhækkanaskriðu sem að óbreyttu verður mögnuð upp með lánskjaravísitölunni. Greiðslubyrði heimila og fyrirtækja vex af völdum hennar og það knýr til verð- og kaupgjaldshækkana og svo koll af kolli.
    Menn halda ræður hér á Alþingi, á flokksþingum, á fundum og í fjölmiðlum og raunar hvarvetna og tala

mikið um vaxtamál, en vart nokkur maður þorir að nefna hlutina réttu nafni. Það á að skuldbreyta, segja menn, en það hjálpar að sjálfsögðu aðeins skamma hríð. Ef nýju lánin eru á sömu ókjörum og hin eldri er einungis verið að íþyngja fyrirtækjunum þegar til lengri tíma er litið. Það á að hagræða, segja aðrir. Það á að fækka fyrirtækjum, segja enn aðrir. En hvorugt kemur að haldi nema rekstursgrundvöllur fyrirtækjanna sé tryggður um leið með viðunandi vaxtastefnu. Vextir eru rót meinsins, en slík er þrælslundin gagnvart peninga- og bankavaldinu að menn veigra sér við að nefna vexti. Í hæsta lagi er talað um fjármagnskostnað sem er eitthvað mildara orð yfir sama hugtakið.
    En vaxtaskrúfan hefur verið helsti verðbólguvaldurinn sl. 7--8 ár. Henni hefur verið framfylgt af bankakerfinu undir forustu og með fulltingi Seðlabankans. Engin markaðsöfl voru þar að verki. Vissulega væri á sama hátt unnt að skrúfa upp kaupgjald fyrir tilstilli ASÍ og verkalýðsfélaganna uns stöðvun atvinnuveganna blasti við. Slíkt væri þvingun en ekki afleiðing markaðsafla sem sumir nota til að réttlæta allt.
    Í grg. með frv. eru sýnd á töflu áhrif húsnæðisstjórnarláns sem er að hámarki í dag 3,3 millj. Miðað við sömu vísitöluhækkun og verið hefur undangengin ár gleypir lánið öll laun verkamanns upp í vexti og afborganir á fáum árum nema launin hækki jafnmikið. Hins vegar kostar íbúð meira en þetta. Hún kostar upp í 4--6 millj. fyrir meðalfjölskyldu svo að meiri lán þarf fyrir flesta. Lánskjörin knýja launþega til að krefjast stórfelldra grunnkaupshækkana eins og gerðist á 6 ára tímabilinu 1982--1987 er áunnið kaup verkamanna jókst að meðaltali um 101% á ári meðan lánskjaravísitalan jókst að meðaltali um 35,5% á ári. Að taka laun inn í lánskjaravísitöluna mundi ekki lækka hana og skuldabyrðina heldur hið gagnstæða. Það mun flýta fyrir nýju hruni.
    Ég vil þessu næst, með leyfi hæstv. forseta, vitna til tveggja kunnra hagfræðinga, fyrst dr. Magna Guðmundssonar sem segir eftirfarandi í grein í Morgunblaðinu á s.l. ári:
    ,,Þáttaskil voru mörkuð þegar kaupgjaldsvísitalan var afnumin 1983. Ef við hefðum borið gæfu til að afnema lánskjaravísitöluna jafnframt hefði opnast möguleiki á því að ná endanlegum tökum á verðbólgunni. Í verðbólgu gildir annað tveggja: Að lifa við hana og verðtryggja allt eða lifa án hennar og verðtryggja ekkert. Að taka einn þátt út úr og verðtryggja hann skapar hagskekkjur sem fá ekki staðist til lengdar. Vert er að gera sér grein fyrir því að kaupgjaldsvísitalan og lánskjaravísitalan eru sama eðlis.``
    Síðar í sömu grein segir dr. Magni:
    ,,Á hinu leikur enginn vafi að í landi með langvinnan óstöðugleika og þunga skuldabyrði er lánskjaravísitalan stórvirkari verðbólguhvati en kaupgjaldsvísitalan. Við hækkun kaupgjaldsvísitölu hækkar launaliður í reksturskostnaði fyrirtækja. Tilsvarandi hækkun lánskjaravísitölu eykur fjármagnskostnað með tvennum hætti. Í fyrsta lagi,

lánsfé sem notað er í reksturinn verður dýrara, og í öðru lagi, um leið hækka allar verðtryggðar skuldir fyrirtækisins og vextir koma svo á upphækkaðan höfuðstól. Það er þessi seinni þáttur sem mæðir mest á framleiðslunni og valdið hefur sívaxandi fjölda gjaldþrota, þeirra á meðal stórfyrirtækja. Má nærri geta hvernig árleg hækkun lánskjaravísitölu á bilinu 20--60% leikur fyrirtæki eða stofnanir sem skulda e.t.v. hundruð millj. kr.
    Gagnvart launþeganum horfir málið þannig við: Hækkun kaupgjaldsvísitölu veitir honum kjarabót, en hækkun lánskjaravísitölu um sömu prósentustig getur aukið húsnæðiskostnað hans mun meira en kjarabótinni nemur, enda er húsnæðiskostnaður langstærsti útgjaldaliður í fjölskyldunni.``
    Þá vil ég leyfa mér, með leyfi forseta, að vitna til greinar eftir Gunnar Tómasson, hagfræðing Alþjóðabankans, en hún birtist í Morgunblaðinu laugardaginn 28. jan. sl. Greinarhöfundur segir:
    ,,Lánskjaravísitala sem verðtryggir höfuðstól lánsfjármagns í verðmætasköpun án tillits til þeirrar ávöxtunar sem þar býðst við þær aðstæður sem atvinnulífi eru búnar eyðir eigin fé fyrirtækja samhliða því sem höfuðstóll fjármagnseigenda vex í skjóli lagaverndar.``
    Og í lok greinarinnar segir Gunnar Tómasson:
    ,,Fram undan eru lok verðstöðvunar og almennir kjarasamningar á vinnumarkaði. Eðli málsins samkvæmt, þá hlýtur ein forsenda þess að vel takist til að vera sú að eigendur þess fjármagns sem fest er í íslenskri verðmætasköpun sætti sig við þá arðgjöf sem þar er að fá.
    Launþegar máttu sætta sig við verulega skerðingu hlutdeildar sinnar í þjóðartekjum Íslendinga vorið 1983. Nú eins og þá hljóta íslensk stjórnvöld að horfast í augu við þá einföldu staðreynd að ekki verður meira skipt með aðilum vinnu- og fjármagnsmarkaðar en í bú er dregið. Vorið 1983 var sú sjálfsagða krafa gerð til hins almenna launþega að hann léti þjóðarhag ráða kröfugerð sinni á hendur íslensku atvinnulífi. Ef eigendur fjármagns og aðilar innlends fjármagnsmarkaðar eru ekki til viðtals um hliðstæðar kröfur á þeirra hendur við ríkjandi aðstæður, þá hlýtur ábyrgð þeirra að vera mikil. Til stjórnvalda hlýtur hinn almenni launþegi hins vegar að gera þá kröfu að þau láti af öflugum stuðningi við ,,pilsfaldaauðhyggju`` þá sem einkennt hefur stjórn peninga- og vaxtamála síðustu 5 árin.``
    Orð þessara tveggja merku hagfræðinga tala vissulega skýru máli.
    Herra forseti. Að lokum þetta: Burt með lánskjaravísitöluna. Burt með allar vísitölur ef við viljum á annað borð stöðugt verðlag og traustan grundvöll atvinnuveganna. Ég minni á að stöðugt verðlag er mesta hagsmunamál allra, þar á meðal raunverulegra sparifjáreigenda sem allir þykjast vilja vernda. Þeim er enginn greiði gerður frekar en öðrum með vaxta- og verðlagsskrúfunni.
    Að lokum vil ég leggja til að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.