Sala notaðra bifreiða
Þriðjudaginn 07. mars 1989

     Flm. (Ingi Björn Albertsson):
    Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga á þskj. 218, um sölu notaðra bifreiða og annarra skráningarskyldra ökutækja. Flm. ásamt mér eru hv. þm. Geir Gunnarsson, Guðmundur G. Þórarinsson, Jón Sæmundur Sigurjónsson, Kristín Halldórsdóttir og Stefán Valgeirsson.
    Frv. er endurflutt frá síðasta þingi þar sem það náði ekki fullnaðarafgreiðslu í nefnd og er því gerð hér önnur tilraun til að koma þessu að okkar mati þurftarmáli áfram. Í grg. segir:
    ,,Á undanförnum árum hefur alloft orðið nokkur umræða um nauðsyn þess að setja löggjöf um starfsemi þeirra sem stunda verslun og umboðssölu með notaðar bifreiðar. Hefur umræðan oftar en ekki einkennst af neikvæðum viðhorfum í garð þeirra er þessa starfsemi stunda, oftast óverðskuldað. Því þykir full ástæða til að setja löggjöf um þessa starfsemi sem gæti orðið bæði bifreiðasölum og viðskiptamönnum þeirra til hagsbóta. Að vísu voru sett lög um sölu notaðra lausafjármuna, lög nr. 61/1979, en ákvæði þeirra um sölu notaðra bifreiða eru afar ófullkomin svo að ekki sé fastar að orði kveðið. Frv. þessu er ætlað að bæta hér úr auk þess sem ætla má að löggjöf um þessi efni sé bæði bifreiðasölum og viðskiptamönnum þeirra til hagsbóta og geti dregið úr ágreiningi og deilum og létt af bílasölum óréttmætri gagnrýni vegna starfa þeirra.``
    Á síðasta þingi var frv. sent til umsagnar fjölmargra aðila. Því miður hafa mér ekki borist þær umsagnir í hendur. Ég átti von á þeim á hverri stundu en það sem sagt náðist ekki áður en ég var kallaður hér í ræðustól til að mæla fyrir þessu máli. Engu að síður liggur það fyrir að þær umsagnir voru allar, eftir því sem ég best veit, mjög jákvæðar og mæltu með samþykkt málsins.
    Að vísu var eftirtektarvert að Félag ísl. bifreiðaeigenda svaraði ekki beiðni nefndarinnar um umsögn. Vonast ég til að þeir geri það þá í þetta sinn. Þá láðist nefndinni að senda Félagi bifreiðasala frv. til umsagnar og vænti ég þess að þau mistök verði ekki aftur og þeir fái að gefa sitt álit á málinu.
    Í frv. er talað um Bifreiðaeftirlit ríkisins sem vitaskuld á ekki við lengur og ber að leiðrétta það og breyta því þá í Bifreiðaskoðun Íslands. Það er rétt að það komi fram að söluaðilar notaðra bifreiða gagnrýndu þetta frv. nokkuð þegar það var lagt fram á síðasta þingi og þá sérstaklega það að hafa ekki fengið að vera með í ráðum. Því er til að svara núna að frv. var sent þeim til umsagnar áður en ég lagði það fram aftur til þess að þeir gætu þá komið með sínar athugasemdir og ég þá sett þær inn í ef ég hefði metið þær þess virði. Hins vegar svöruðu þeir aldrei bréfinu, þannig að það var ekki hægt að breyta þessu neitt í þá veru sem þeir hugsanlega hefðu viljað.
    Ég tel að ekki þurfi að fjalla mikið meira um þetta. Ég fór mjög ítarlega yfir þetta frv. í framsögu minni á síðasta þingi og bendi áhugasömum þingmönnum á að fletta þar upp og kynna sér málið betur.

    Ég vil þá að lokinni þessari umræðu mælast til að frv. verði sent hv. allshn. til skoðunar og síðan til 2. umr.