Jöfnun á námskostnaði
Miðvikudaginn 08. mars 1989

     Frsm. menntmn. (Valgerður Sverrisdóttir):
    Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nál. á þskj. 585 frá hv. menntmn. um ráðstafanir til jöfnunar á námskostnaði.
    Nefndin hefur fjallað um frv. og leggur til að það verði samþykkt með þeirri breytingu sem gerð er tillaga um á sérstöku þskj., en brtt. er á þskj. 586. Brtt. er á þá leið að lagt er til að lögin taki gildi frá og með næsta skólaári þar sem úthlutun fyrir yfirstandandi skólaár hefur þegar farið fram.
    Þá er rétt að komi fram að samkvæmt umsögn Fjárlaga- og hagsýslustofnunar felur frumvarpið ekki í sér auknar fjárskuldbindingar fyrir ríkissjóð heldur einungis rýmri heimild námsstyrkjanefndar til úthlutunar styrkja. Styrkfjárhæðir munu eftir sem áður fara eftir heildarfjárhæð sem veitt er til jöfnunar á námskostnaði á fjárlögum ár hvert, sbr. reglugerð nr. 528/1973.
    Mér er mikil ánægja að greina frá því að það var samstaða í nefndinni um afgreiðslu málsins. Að vísu skrifar hv. 6. þm. Vesturl. undir með fyrirvara.
    Undir nefndarálitið rita, auk þeirrar sem hér stendur, Eiður Guðnason, formaður, Skúli Alexandersson, Jón Helgason, Guðmundur Ágústsson, Halldór Blöndal og Danfríður Skarphéðinsdóttir með fyrirvara.