Jöfnun á námskostnaði
Miðvikudaginn 08. mars 1989

     Danfríður Skarphéðinsdóttir:
    Virðulegi forseti. Eins og fram kemur í því nefndaráliti sem mælt var fyrir rétt í þessu undirrita ég það með fyrirvara. Ég ítreka það sem ég sagði við 1. umr. þessa máls. Ég fagna því að þetta frumvarp skuli komið fram og vona að það verði að lögum hið allra fyrsta.
    Ég tel mjög mikilvægt að ríkissjóði skuli samkvæmt frumvarpinu ætlað að greiða launakostnað við mötuneyti framhaldsskóla því sá kostnaður er umtalsverður og nemur nú á milli 30 og 40% af fæðiskostnaði nemenda.
    Það eru hins vegar tvö atriði sem ég vildi benda á og eru þau ástæðan fyrir þeim fyrirvara sem ég hef á við afgreiðslu málsins. Í kostnaðarmati Fjárlaga- og hagsýslustofnunar vegna þessa frumvarps er áætlaður húsnæðiskostnaður nemenda byggður á viðmiðun Lánasjóðs ísl. námsmanna sem er 5397 kr. á mánuði á verðlagi nú í janúar. Frumvarpið gerir ráð fyrir að greiða helming áætlaðs húsnæðiskostnaðar eða 2698,50 kr. á mánuði fyrir nemendur sem ekki eiga þess kost að búa á heimavist sé viðmiðun Lánasjóðs ísl. námsmanna lögð til grundvallar. Ég bendi á að þá viðmiðun tel ég óraunhæfa með öllu. Núna eru greiddar 8800 kr. á mánuði fyrir eins manns herbergi á stúdentagörðum hér í Reykjavík sem er örugglega ódýrasta húsnæði sem háskólanemum stendur til boða, en þar kemst þó aðeins brot stúdentahópsins fyrir. Um þessar mundir býr tæplega þriðjungur framhaldsskólanema á heimavistum en engin heimavist við framhaldsskólana annar eftirspurn nemenda eftir húsnæði. Á höfuðborgarsvæðinu stendur nemendum ekki til boða að leigja herbergi á heimavist og verða því að sæta þeim afarkjörum sem tíðkast á húsnæðismarkaðnum hér. Vil ég því benda á nauðsyn þess að endurmeta raunverulegan húsnæðiskostnað nemenda, hvort sem er á framhalds- eða háskólastigi, eða þá að stórauka framboð á heimavistarrými sem ég teldi æskilegra fyrir nemendur framhaldsskólastigsins.
    Hitt atriðið sem ég vildi benda á er að enn er það svo að lítill hópur fólks sem náð hefur 16 ára aldri hefur ekki átt þess kost að ljúka grunnskólaprófi. Margir framhaldsskólar bjóða upp á svokallað fornám eða núlláfanga sem ætlað er að rifja upp námsefni 9. bekkjar og gefa nemendum þar með tækifæri til að ljúka grunnskólaprófi. Sá hópur sem ég er með í huga er fámennur og þeim fer sem betur fer fækkandi sem þurfa á enn frekari upprifjun að halda og jafnvel kennslu í námsefni 7. og 8. bekkjar þó þeir hafi náð 16 ára aldri eða séu komnir á framhaldsskólaaldur. En þeir eru þó til og tel ég eðlilegt að þeir sem svo er ástatt um, þ.e. eru orðnir 16 ára en stunda nám á grunnskólastigi, ættu rétt á styrkjum með sömu skilyrðum og þeir sem stunda reglubundið framhaldsnám.
    Ég vildi aðeins að þessi sjónarmið kæmu fram.