Jöfnun á námskostnaði
Miðvikudaginn 08. mars 1989

     Stefán Guðmundsson:
    Herra forseti. Ég kem hér til að lýsa yfir ánægju minni með þetta frumvarp og að það skuli eiga greiðan aðgang hér í gegn. Það er sérstakt fagnaðarefni ekki síst fyrir okkur fulltrúa landsbyggðarinnar að þetta nái fram.
    Það er engin spurning að sjálfsagt er hægt að reikna á marga vegu hvort hér er um kostnaðarauka að ræða eða ekki. Ég er sannfærður um að ef allt væri reiknað og það gert rétt er hér ekki um kostnaðarauka að ræða heldur hið gagnstæða.
    Það er öllum ljóst sem fylgjast með þessum málum í dag að nemendur eyða því miður miklu lengri tíma í skólum landsins vegna þess hversu altítt er orðið að nemendur vinni með námi vegna þess að kostnaður þeirra við að búa langdvölum fjarri heimilum er svo ótrúlega hár. Ef það væri metið með er ég ekki í neinum vafa um að hér er ekki um kostnaðarauka ríkisins að ræða.
    En það var eitt atriði sem ég hnaut um og ég vildi minnast á. Í 5. gr. þessa frumvarps segir: ,,Einnig er námsstyrkjanefnd heimilt að skerða eða fella niður styrki til einstakra nemenda ef þeir njóta umtalsverðra tekna samhliða námi sínu.``
    Hér er gamall kunningi á ferð. Ég kannast við þetta sjálfur. Ég þekki það frá því að ég fékkst við að reka atvinnufyrirtæki að þá var það títt að ungir og vaskir menn sem höfðu ekki mikil efni leituðu mjög stíft á að komast á sjó um jól og um páska þegar frí var í skólum til þess að auka tekjurnar svo endar næðu saman við námið. Þá vantaði sárlega tekjur. Skólafélagar þessara ungu manna voru gjarnan betur í stakk búnir, hjá mörgum gátu heimilin hlaupið þar undir bagga og hjálpað þeim. Þeir þurftu ekki þess vegna að vinna í fríum sínum. En vegna þess að þessir aðilar eyddu þá tímanum vestur á Hala á meðan hinir skruppu til útlanda á kostnað efnameiri foreldra og sagt var að þeir væru að læra málið, þá voru námslán þeirra er atvinnu sóttu skert. Hér hefur því miður ekki fengist leiðrétting á og það harma ég. Ég er sannfærður um að hæstv. menntmrh. hefur fullan skilning á þessu máli. Ég held hins vegar að þeir sem að þessu hafa unnið hafi einfaldlega ekki áttað sig á þessari stöðu. En þetta er miklu, miklu algengara en við ímyndum okkur. Þess vegna mundi ég vilja leggja áherslu á þetta færi hreinlega út.