Erfðalög
Miðvikudaginn 08. mars 1989

     Frsm. allshn. (Jón Helgason):
    Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir áliti allshn. um frv. til laga um breytingar á erfðalögum nr. 8 14. mars 1962, með síðari breytingum.
    Hæstv. dómsmrh. gerði glögga grein fyrir efni þessa frv. í framsöguræðu sinni við 1. umr. málsins. Allshn. hefur farið ítarlega yfir frv. og á fund hennar kom Skúli Guðmundsson, fyrrv. deildarstjóri í dómsmrn. En hann var einn þeira sem ráðuneytið hafði falið að semja frv.
    Í 1. gr. frv. er kveðið á um þá breytingu að ef arfleifandi á enga niðja á lífi taki maki allan arf. Í greinargerðinni kemur fram að þar er verið að taka til fulls skref sem aðrar Norðurlandaþjóðir höfðu þegar tekið fyrir breytinguna á erfðalögunum hér 1962, en þá þótti slík breyting of stórt stökk frá þeirri reglu sem gilti hér fram að þeim tíma.
    Í næstu greinum eru ákvæði sem eiga að tryggja aukinn rétt eftirlifandi maka til setu í óskiptu búi þó að ekki hafi verið gengið frá því með erfðaskrá. Dregur það úr hættu á að eftirlifandi maki þurfi að sundra heimili sínu og selja íbúð sem allt of mörg dæmi eru um að gerst hafi.
    Stjúpniðjar eftirlifandi maka eiga þó áfram rétt til að krefjast skipta, en heimildir þeirra til þess eru gerðar þrengri. Er þar að nokkru leyti sótt fyrirmynd til reglna danskra erfðalaga um sama efni.
    Í 16. gr. frv. eru ákvæði um að meðan lög um skipan dómsvalds í héraði, lögreglustjórn o.fl. nr. 74/1972 eru í gildi skuli ákvæði þessa frv. sem gera ráð fyrir breyttri skipan dómsvalds í héraði ekki koma til framkvæmda. Frv. um aðskilnað dómsvalds og framkvæmdarvalds er enn til meðferðar hjá allshn. Ed., en stefnt er að því að afgreiða það frv. á næstunni.
    Eins og fram kemur í nál. allshn., leggur nefndin til að frv. verði samþykkt óbreytt eins og það liggur fyrir á þskj. 332.