Vaxtalög
Miðvikudaginn 08. mars 1989

     Frsm. 2. minni hl. fjh.- og viðskn. (Kristín Halldórsdóttir):
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. á þskj. 554 sem hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Meginmarkmið þessa frv. er að koma í veg fyrir ósanngjarna vaxtatöku og misneytingu í lánsviðskiptum, sbr. 6. gr. frv. Í frv. felast auk þess eftirfarandi atriði:
    1. Tekin eru af tvímæli um nokkur óljós atriði í vaxtalögum nr. 25/1987, sbr. 1., 2., 4. og 5. gr. frv.
    2. Lögð er sama tilkynningarskylda um vaxtakjör á verðbréfa- og eignarleigufyrirtæki og nú hvílir á viðskiptabönkum og sparisjóðum, sbr. 3. gr. frv.
    3. Sett er í vaxtalögin ákvæði um lánskjör opinberra fjárfestingarlánasjóða þar sem öll ábyrgð og stefnumörkun er færð í hendur ráðherra, sbr. 8.--10. gr. frv.
    Annar minni hl. er samþykkur meginmarkmiði þessa frv. en dregur í efa að ákvæði þess séu fullnægjandi til að tryggja framgang þessa markmiðs. Það er t.d. afar ólíklegt að frv. dragi á nokkurn hátt úr svokölluðum affallaviðskiptum sem stundum eru mjög mikil og virðast algjörlega háð aðstæðum á fjármagnsmarkaðnum.
    Annar minni hl. styður þær greinar, sem nefndar eru í 1. og 2. lið hér að ofan, svo og 6. gr. með þeirri breytingu sem lögð er til í brtt. meiri hl. nefndarinnar. Um 3. liðinn gegnir öðru máli, enda kom í ljós við umfjöllun nefndarinnar að málið var ekki hugsað né undirbúið til hlítar. Með þetta í huga þarf að athuga og vinna betur þessar greinar frv. Þá telur 2. minni hl. einnig ámælisvert að ekki hefur verið vandað nægilega til frágangs frv. eins og sést á því að flestar þær breytingar, sem meiri hl. hefur gert á frv., miða að því að lagfæra uppsetningu þess.
    Þó að 2. minni hl. styðji meginefni frv. þá telur hann að vankantar frv. séu þess eðlis að vísa beri frv. til ríkisstjórnarinnar til nánari athugunar. Verði ekki fallist á þá málsmeðferð mun 2. minni hl. sitja hjá við afgreiðslu um þær greinar frv. sem hann hefur gert athugasemdir við.``
    Undir þetta ritar Kristín Halldórsdóttir.
    Herra forseti. Það sem segir í þessu áliti um vinnubrögð og frágang þessa frv. er afar mildilega orðað og hefði með réttu mátt taka dýpra í árinni. Það er að mínu mati ekki vansalaust að framkvæmdarvaldið skuli leggja fyrir þingið hrákasmíð af þessu tagi. Það er nú ekki eins og hér sé um neinn lagabálk að ræða, þetta er frv. í 11 greinum sem fæstar eru ýkja flóknar. Samt kom þetta frv. til þingmanna úandi og grúandi af prentvillum, formgöllum og efnisvillum eins og brtt. og athugasemdir nefndarmanna sanna. Svona vinnubrögð eru auðvitað stórlega vítaverð og engin trygging er fyrir því að á þeim stutta tíma --- en málið var tekið út úr nefndinni 21. febr. sl. þótt það sé nú fyrst verið að ræða það í 2. umr. --- að mínu mati er engin trygging fyrir því að á þessum tíma sem við höfðum málið til meðferðar í nefndinni ásamt með svo mörgum öðrum málum í fjh.- viðskn. hafi okkur tekist

að bæta svo um að dugi. Það var t.d. strax ljóst að flestir höfðu einhverjar athugasemdir varðandi ákvæðin um fjárfestingarlánasjóðina, en af þeim virðist mér sem verið sé að flytja alla ábyrgð og ákvarðanir til ráðherra eins og rík tilhneiging er til í svo mörgum málum.
    Það er nú svo að um þessa sjóði gilda sérstök lög og það getur aldrei samrýmst hlutverki þeirra að níðast á viðskiptavinum sínum. Það er mín skoðun að ábyrgðin þurfi að vera hjá þessum sjóðum, hjá forráðamönnum þessara sjóða um leið og rétt er og sjálfsagt að þeir sæti eftirliti og aðhaldi. En þetta er ekki beinlínis það sem mér finnst koma út úr þessum frumvarpsgreinum og heldur ekki þeim brtt. sem meiri hl. flytur. Auðvitað hefði verið æskilegt að gera meira en gagnrýna og ætlast til betrumbóta af hálfu framkvæmdarvaldsins en til þess gafst nú ekki ráðrúm í annríki þessara daga og því er svo afstaða tekin sem kemur fram í þessu nál. sem ég hef nú þegar lesið.
    Hvað varðar 6. gr. frv. þá hefur hún valdið mér töluverðum heilabrotum. Ekki svo að skilja að hér sé um stórfelld nýmæli að ræða heldur er þar eingöngu um að ræða viðbót sem felst í síðustu setningum 1. mgr. og ekkert slæmt um hana að segja. Annað er það nú að ég er fegin að sjá að í endanlegu þskj. með brtt. meiri hl. er þó ekki lengur ,,viðsemjendi`` svo ég noti það orð yfir viðsemjanda, en það var svo í frv. Það er auðvitað algjör óþarfi að flýta sér svo við framlagningu þingmála að slík prentvilla fylgi með.
    Ég styð þá breytingu á orðalagi greinarinnar sem kemur fram á þskj. 551, að felld verði út orðin ,,með óréttmætum hætti``. Þetta mun reyndar vera eitthvert lögfræðilegt orðalag en öðrum illskiljanlegt. A.m.k. vafðist öllum tunga um tönn þegar við fórum að ræða það og spurt var eftir því í hv. fjh.- og viðskn. hvernig hagnýta mætti sér fjárþröng og neyð annarra með réttmætum hætti. Samkvæmt mínum málskilningi og réttlætiskennd er slíkt alltaf með óréttmætum hætti og ætti ekki að þurfa að taka það fram.
    Hitt er svo annað mál að eins og kemur fram í nál. mínu, þá dreg ég stórlega
í efa að þessi ákvæði dugi til að koma í veg fyrir ósanngjarna vaxtatöku og misneytingu, eins og það er orðað, sem ég hélt að væri nú ekkert annað en misnotkun, en þetta mun vera einhvers konar lögfræðilegt orðafar, á aðstöðu í lánsviðskiptum, eins og þetta er orðað í athugasemdum með frv. Það er skilningur þeirra sem þessi ákvæði varða að svokölluð afföll flokkist undir skilgreiningu á orðunum ,,vexti eða annað endurgjald`` í þessari grein. Dettur nú einhverjum í hug í alvöru að takist að koma böndum á slíka starfsemi? Ég er hrædd um ekki. Til þess þyrftu aðstæður á hérlendum fjármagnsmarkaði að vera allt aðrar. Í því lánahungri sem hér ríkir oftar en ekki er ólíklegt að nokkur reyni að leita réttar síns þótt honum þyki á sér brotið hvað þetta varðar. Við þekkjum sennilega æðimörg hér inni dæmi þess að fólki hafi blöskrað þau skilyrði sem það hefur mátt sæta í slíkum viðskiptum, en það treystir sér ekki til að gera neitt í málinu vegna þess að þar með væri

það að loka dyrum lánveitandans fyrir sjálfum sér, yrði sem sagt óæskilegur lántakandi. Þannig er því miður í rauninni afar erfitt að tryggja rétt neytandans í þessu efni. En við hljótum að taka viljann fyrir verkið og vona hið besta um framkvæmdina sem er í raun og veru háð siðferði og hugarfari þeirra sem ráð hafa á fjármagni.