Vaxtalög
Miðvikudaginn 08. mars 1989

     Auður Eiríksdóttir:
    Virðulegi forseti. Brtt. þær sem liggja fyrir á þskj. 547 eru tvær og ég ætla að lesa þær hér yfir, með leyfi forseta. Þær eru svohljóðandi:
    ,,Á eftir 1. gr. komi ný grein er orðist svo:
    Við 6. gr. laganna bætist eftirfarandi málsgrein:
    Óheimilt er fram til 1. maí 1991 að áskilja eða taka hærri vexti af peningakröfum en 5% ársvexti af verðtryggðum kröfum. Hámarksvextir af óverðtryggðum kröfum skulu ákveðnir af Seðlabanka Íslands og skulu þeir ákveðnir þannig að raunávöxtun óverðtryggðra peningakrafna verði ekki hærri en raunávöxtun verðtryggðra krafna.``
    Fyrri brtt. miðar að því að lögfesta 5% ársvexti sem hámarksvexti af verðtryggðum lánum fram til 1. maí 1991, jafnframt því sem lagt er til að Seðlabankanum beri að haga þannig ákvörðunum hámarksvaxta af óverðtryggðum lánum að þau beri ekki hærri raunvexti en verðtryggð lán. Tillagan byggir á því að flestir séu sammála um að æskilegt sé að vextir af lánum séu fremur lágir raunvextir. Tilraun á síðustu missirum til að ná þessum markmiðum með frjálsum aðgerðum peningastofnana og fleiri hefur ekki tekist, síður en svo. Fjárhagur margra fyrirtækja og einstaklinga hefur versnað stórlega við þessa tilraun. Gjaldþrotum hefur fjölgað og þau hafa orðið stórfelldari.
    Ýmsar aðgerðir stjórnvalda til að vinna gegn þessu hafa ekki dugað nema að litlu leyti. Í kjölfar gjaldþrotanna kemur aukið atvinnuleysi í landinu. Við þessar aðstæður er óskynsamlegt og óforsvaranlegt að láta vexti vera nánast eina liðinn í hagkerfinu sem ekki eru settar ákveðnar reglur um enda er áratuga hefð fyrir því í íslenskri hagstjórn að hafa stjórn á vöxtum. Áframhaldandi stjórnleysi við þær aðstæður sem nú ríkja er líklegt til að valda enn frekara og stórfelldara hruni atvinnufyrirtækja en þegar er orðið. Er þó víst að ástand þessara mála hefur reynst mörgum þungbært. Þessi tillaga um hámarksvexti á sér einnig ríka stoð í meginmarkmiðum stefnuyfirlýsingar ríkisstjórnarinnar frá sl. hausti, bæði þeim markmiðum sem miða að því að styðja við atvinnurekstur og húsbyggjendur og fleiri, svo og þeim sérstöku markmiðum að lækka vexti.
    Loks er þess að geta að stjfrv. hefur verið lagt fram hér á Alþingi án nokkurs samráðs við Samtök jafnréttis og félagshyggju og telja samtökin sig ekki hafa skyldur til að vinna að samþykkt þess.
    Önnur brtt. á þessu þingskjali hljóðar svo:
    ,,Niður falli 7.--10. gr.``
    Nú var svo komið málum að búið var að hafa samband við Stefán Valgeirsson, en ég er hér aðeins í forföllum hans, og hann hafði fallist á það að fella þetta niður. Aftur á móti var ég fyrir norðan hjá þessu sem ætti kannski að heita minn þingflokkur í síðustu viku og þar ræddum við þessi mál. Okkur kom saman um að standa fast við þessa niðurfellingu á 7.--10. gr. Sú brtt. miðar að því að taka ekki upp þá miðstýringu opinberra fjárfestingarsjóða, þ.e. fjárfestingarsjóða atvinnuveganna, sem frv. gerir ráð fyrir.

    Í frv. er gert ráð fyrir að völd til ákvarðana um vaxtakjör sjóðanna verði í miklum mæli tekin af þeim sem hafa þau nú. Alþingi ákveði grunnreglur en viðskrh. hafi með yfirstjórn vaxtamála og opinberra sjóða að gera. Hér er um mikilsvert mál að ræða sem ógerlegt er að samþykkja nema alþingismenn viti hvaða vaxtakjör þessir sjóðir hafa boðið og hvaða áhrif tillaga stjfrv. er líkleg til að hafa. Ekkert kemur fram um þetta í grg. með frv. Þessi þáttur þess er því ekki afgreiðsluhæfur á þessu stigi.
    Sjálfsagt er margt í þessu fjárfestingarsjóðakerfi atvinnuveganna, sem og annarra opinberra fjárfestingarsjóða, sem betur má fara, en að leggja til að eitt mikilvægasta stjórntæki þeirra, valdið til að ákveða vaxtakjörin, sé að mestu af þeim tekið sem hafa ráðið þeim málum er sannarlega djarft.
    Fjárfestingarsjóðir atvinnuveganna hafa haldið vöxtum mjög lágum með gjaldtöku af framleiðslu eins og t.d. hjá Stofnlánadeild og hv. þm. Páll Pétursson ræddi um áðan. Hér virðist vera á ferðinni tillaga sem felur í sér algjör umskipti í afskiptum opinberra aðila af atvinnumálum Íslendinga. Vissulega þarf að athuga og endurskoða sjóðakerfið vel en það verður ekki unnið nema með því að athuga sérstaklega og rækilega hvern sjóð fyrir sig.
    Seinni brtt. við stjfrv. miðar að því að ekki verði gerðar stórfelldar breytingar á fjárfestingarsjóðum atvinnuveganna nema alþingismenn hafi tækifæri til að kynna sér mál rækilega og samstaða sé um það meðal þeirra sem aðild eiga að ríkisstjórninni.