Vaxtalög
Miðvikudaginn 08. mars 1989

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Virðulegi forseti. Bara ein athugasemd vegna þess sem fram kom í máli hv. 6. þm. Norðurl. e. Ég tel það fjarri lagi að segja að í tillögum þeim sem felast í 7.--10. gr. frv. og fjalla um vaxtakjör opinberra fjárfestingarlánasjóða atvinnuveganna felist breyting á því sem gilt hefur í þessu efni sl. 14 ár vegna þess að það eina sem var eftir af lögum nr. 13 frá árinu 1975 --- sem heita að vísu fjarskyldu heiti, þau eru um launajöfnunarbætur, verðlag og fleira --- fram til áramóta voru ákvæði um það að ríkisstjórnin ákvæði vaxtakjör allra opinberra fjárfestingarlánasjóða. Með þeim reglum sem hér eru gerðar tillögur um er í raun og veru skýrar ákveðið að það séu stjórnir sjóðanna sem geri tillögur um þetta og taki ákvarðanir um þetta innan ramma almennra reglna. Ég tel að ef eitthvað er þá sé hér verið að færa vald til stjórna sjóðanna en ekki að taka það af þeim. Það er alveg fráleitt að með þessu sé verið að breyta því sem gilt hefur fram til áramóta, en þá, eins og kom fram hjá hv. 1. þm. Vestf., féll þetta úr gildi vegna tengsla við annað mál og það voru réttnefnd mistök að svo fór sem fór, en með þeirri brtt. sem hér er gerð er alls ekki verið að auka miðstýringu eða afskipti ríkisvaldsins af vaxtaákvörðunum fjárfestingarlánasjóðanna, síður en svo.